Mexíkóski landsliðsmaðurinn Edson Alvarez segir að allt hafi verið reynt til að fá hann till franska félagsins Rennes í sumar og þar hafi meðal annars leikkonan fræga, Salma Hayek, tekið upp símann og hringt í hann.
Alvarez er 23 ára gamall en hann gekk til liðs við Ajax árið 2019 og er í dag einn mikilvægasti leikmaður félagsins.
Franska félagið Rennes reyndi að kaupa hann í sumar en miðjumaðurinn öflugi ákvað þó að hafna félaginu.
Hollywood-leikkonan, Salma Hayek, reyndi meira að segja að sannfæra Alvarez um að ganga til liðs við Rennes, en eiginmaður hennar, Francois Pinault, er eigandi félagsins.
„Það var erfitt að hafna Rennes en þegar ég var búinn að skoða þetta ítarlega þá var þetta enginn vafi," sagði Alvarez.
„Já, það er rétt að Hayek reyndi að sannfæra mig. Hún er mjög þekkt um allan heim og hringdi í mig og reyndi að fá mig til að ganga til liðs við Rennes. Það kom mér virkilega á óvart og ég var upp með mér að hún skildi hringja, en ég var búinn að ákveða að vera áfram hjá Ajax og útskýrði það fyrir henni."
„Hún er gríðarlega fræg leikkona, mögnuð stjarna og ég er mikill aðdáandi hennar eftir allar þessar stórmyndir sem hún hefur leikið í. Hún er mögnuð fyrirmynd fyrir Mexíkó sem barðist fyrir því að komast á þann stað sem hún er í dag," sagði Alvarez í lokin.
Athugasemdir