Reglulega verður maður vitni að því að knattspyrnumenn missi sig í leikjum, þeir brjóta illa af sér, rífa kjaft við dómarann eða gera eitthvað annað misgáfulegt. Oftar en ekki uppsker leikmaðurinn rautt spjald og leikbann að launum. Strax í kjölfarið er farið að ræða umrætt atvik og oft reynt að afsaka gjörðir leikmannsins. Er þá oft gripið til þeirrar afsökunar að atvikið hafi gerst í hita leiksins, spennustigið hátt og leikmaðurinn hafi ekki ætlað að meiða neinn. Þær afsakanir eru oftast góðar og gildar en engu að síður verður maður að spyrja sig; er ekki hægt að gera sömu kröfur til atvinnumanna í knattspyrnu og gerðar eru til annarra starfstétta þegar kemur að því að halda haus við mikið spennustig og haga sér sómasamlega?
Þeir sem verða hvað mest fyrir barðinu á skapheitum leikmönnum eru dómarar. Í flestum leikjum sitja dómarar undir skömmum, nöldri og fúkyrðum frá leikmönnum annars eða beggja liða. Þeir virðast sjaldnast dæma rétt að mati leikmanna og því eru þeir skammaðir í flest skipti þegar þeir blása í flautu sína. Þegar mest gengur á umkringja leikmenn dómara og láta þá heyra það og gera jafnvel tilraun til að vaða í þá. Ætli samskonar framkoma og dómarar verða fyrir í leik myndi líðast inn á öðrum vinnustöðum? Held ég geti fullyrt um að svo sé ekki. Burt séð frá því hvort dómarar geri mistök eða ekki þá fengi enginn starfsmaður í fyrirtæki að ganga upp að stjórnanda eða almennum starfsmanni og nöldra og/eða rífa kjaft við hann ítrekað vegna þess eins að hann væri ósáttur við störf hans.
Það sama á við um ljót brot eða hreinar líkamsárasir eins og sjást stundum á knattspyrnuvöllum. Þegar leikmenn eru farnir að slá eða sparka viljandi í aðra leikmenn eru menn komnir langt út fyrir það sem getur talist eðlilegur hluti af knattspyrnu. Samskonar atvik utan vallar myndi oftar en ekki enda með ákæru. En ekki á knattspyrnuvellinum, þar virðist vera nóg að dæma menn í nokkra leikja bann og þar með er honum fyrirgefið þar sem allt átti þetta sér stað í hita leiksins.
Ég spyr því aftur þætti okkur eðlilegt að sjá svona hegðun inn á okkar vinnustað, hver svo sem hann er? Við ætlumst til þess að lögreglumenn fari í gegnum sinn starfsdag án þess að lumbra á nokkrum eða svara fyrir sig. Okkur þætti mjög óeðlilegt að sjá alþingismenn hegða sér svona inn á þingi, já eða starfsmann á plani á bensínstöð. Í raun þætti flestum mjög óeðlilegt að sjá nokkrun einstakling hegða sér svona hvar sem hann væri staddur. Nema á knattspyrnuvellinum, þar er þetta allt partur af leiknum og þar sem þetta gerist í hita leiksins þykir þetta ekkert tiltöku mál.
Það eru margar starfsstéttir sem vinna daglega undir mikilli pressu og er ætlast til þess að þær skili sýnu starfi af fagmennsku. Að sama skapi hlýtur að vera hægt að ætlast til að atvinnumenn í knattspyrnu hagi sér sómasamlega þótt spennustig í leikjum sé hátt. Hættum að afsaka heimskulega hegðun á vellinum og gerum kröfur til leikmanna að þeir geti haldið haus í hita leiksins.
Sigurður Vilberg Svavarsson
Knattspyrnuáhugamaður
Athugasemdir