Valur og Víkingur áttust við í fyrsta leik Pepsí Max-deildarinnar á Origo vellinum í kvöld og skildu jöfn 3-3 í rosalegum leik. Logi Tómasson leikmaður Víkinga var svekktur með að hafa misst niður leikinn þrisvar sinnum.
Lestu um leikinn: Valur 3 - 3 Víkingur R.
„Ég held við séum allir svekktir, þótt það sé mjög gott að fá stig á þessum velli í fyrsta leik. Ég er allavega mjög svekktur þótt ég hafi skorað þetta mark."
Logi skoraði stórbrotið mark þar sem hann fíflaði hafsentapar Vals upp úr skónum og smurði hann svo í vinkilinn.
„Ég fékk hann bara frá Rick, klobbaði Eið, klobbaði Orra og setti hann bara í vinkilinn, þetta er ekki flókið. Þetta var gaman sko, ég bjóst ekki við að spila en mér leið bara vel"
Logi er með tvö vinsæl lög undir nafninu Luigi á Spotify, Logi segir að hann sé aðeins að leika sér í tónlistinni þegar hann er ekki í boltanum og hefur gaman að.
„Ég er bara að leika mér eitthvað í tónlistinni, það er bara gaman. Maður verður að hafa eitthvað að gera þegar maður er ekki í boltanum."
Athugasemdir