Isak vill enn fara - Vlahovic orðaður við Liverpool og Newcastle - Lammens færist nær Manchester United
   mið 27. ágúst 2025 21:20
Brynjar Ingi Erluson
Enski deildabikarinn: Man Utd úr leik eftir langt kvöld í Grimsby
Man Utd er úr leik
Man Utd er úr leik
Mynd: EPA
Bryan Mbeumo klúðraði spyrnunni sem sendi Grimsby áfram
Bryan Mbeumo klúðraði spyrnunni sem sendi Grimsby áfram
Mynd: EPA
Olivier Boscagli skoraði fyrir Brighton í stórsigri á Oxford
Olivier Boscagli skoraði fyrir Brighton í stórsigri á Oxford
Mynd: Brighton
Manchester United er óvænt úr leik í enska deildabikarnum eftir að hafa tapað fyrir D-deildarliði Grimsby Town eftir langa vítakeppni á Blundell Park í kvöld.

Ruben Amorim gerði átta breytingar frá síðasta leik United í ensku úrvalsdeildinni.

André Onana, Kobbie Mainoo, Harry Maguire og Benjamin Sesko voru allir í liðinu ásamt óreyndari leikmönnum á borð við Ayden Heaven og Tyler Fredricson.

Fyrri hálfleikurinn var nánast í eign Grimsby-manna sem voru grimmir og ákveðnir í að ná í úrslit.

Heimamenn komust í tveggja marka forystu á nokkrum mínútum þar sem mátti setja spurningarmerki við ágæti Onana. Darragh Burns átti fyrirgjöf á Charles Vernam sem setti boltann á nærstöngina hjá Onana. Kamerúninn átti líklegast að gera betur þar og enn betur í öðru markinu.

Önnur fyrirgjöf kom inn á teiginn og ætlaði Onana að kýla boltann út í teiginn en hitti boltann illa og varði hann einhvern veginn aftur fyrir sig og á Tyrell Warren sem skoraði af stuttu færi.

United átti nokkur skot í fyrri hálfleiknum en ekkert sem reyndi ógurlega mikið á Christy Pym í markinu.

Í síðari hálfleiknum kom aðeins meiri kraftur í United. Bryan Mbeumo, Bruno Fernandes, Matthijs De Ligt og Mason Mount komu inn á.

Grimsby-menn komu boltanum að vísu í markið í þriðja sinn áður en endurkoma United hófst en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Fimmtán mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma skoraði Mbeumo sitt fyrsta mark í United-treyjunni með laglegu skoti rétt fyrir utan teiginn og í vinstra hornið.

Þegar lítið var eftir af venjulegum leiktíma jafnaði Harry Maguire síðan metin með skalla eftir hornspyrnu Mason Mount og endurkoman staðfest.

De Ligt var ekki langt frá því að tryggja sigurinn í uppbótartíma en setti boltann yfir markið eftir darraðardans í teignum og vítaspyrnukeppni því eina leiðin til að skera úr um hvort liðið færi áfram í 3. umferðina.

Vítakeppnin fór í bráðabana. Onana varði eitt víti frá Grimsby og þá varði markvörður Grimsby frá Matheus Cunha.

Í bráðabananum skoraði Grimsby úr öllum átta spyrnum sínum á meðan Mbeumo var skúrkurinn er hann setti boltann í þverslá og fór vítakeppnin því 12-11, Grimsby í vil. Ótrúleg úrslit á Blundell Park í kvöld og Grimsby í pottinum þegar dregið verður í 3. umferðina.

Jason Daði Svanþórsson er á mála hjá Grimsby en var ekki með í kvöld þar sem hann er enn að jafna sig eftir aðgerð sem hann fór í fyrr í sumar.

Hinn 18 ára gamli Harrison Armstrong lagði upp bæði mörk Everton sem vann Mansfield 2-0.

Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Armstrong sem kom boltanum á Carlos Alcaraz sem skoraði áður en Beto gulltryggði sigurinn undir lok leiks.

Tyler Dibling, sem kom til Everton frá Southampton á dögunum, lék sinn fyrsta leik með Everton.

Fulham hafði betur gegn Bristol City, 2-0. George Tanner setti boltann í eigið net á 8. mínútu og skoraði Raul Jimenez annað markið þrettán mínútum síðar.

Gríski táningurinn Stefanos Tzimas fór mikinn í 6-0 stórsigri Brighton á Oxford.

Hann skoraði tvö mörk og gaf eina stoðsendingu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Brajan Gruda, Olivier Boscagli, Diego Gomez og Tom Watson skoruðu hin mörkin.

Everton 2 - 0 Mansfield Town
1-0 Carlos Alcaraz ('51 )
2-0 Beto ('90 )

Fulham 2 - 0 Bristol City
1-0 George Tanner ('8 , sjálfsmark)
2-0 Raul Jimenez ('21 )

Oxford United 0 - 6 Brighton
0-1 Olivier Boscagli ('13 )
0-2 Brajan Gruda ('20 )
0-3 Diego Gomez ('60 )
0-4 Stefanos Tzimas ('71 )
0-5 Stefanos Tzimas ('77 )
0-6 Tom Watson ('86 )

Grimsby 2 - 2 Manchester Utd (12-11 eftir vítakeppni)
1-0 Charles Vernam ('22 )
2-0 Tyrell Warren ('30 )
2-1 Bryan Mbeumo ('75 )
2-2 Harry Maguire ('89 )
Athugasemdir
banner