Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   fim 28. maí 2015 15:20
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Punktar úr ákæru FIFA
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Jóhann Ólafur Sigurðsson
Jack Warner.
Jack Warner.
Mynd: Getty Images
Nicolas Leoz.
Nicolas Leoz.
Mynd: Getty Images
Eduardo Li.
Eduardo Li.
Mynd: Getty Images
Jeffrey Webb.
Jeffrey Webb.
Mynd: Getty Images
Eugenio Figueredo.
Eugenio Figueredo.
Mynd: Getty Images
Jose Maria Marin.
Jose Maria Marin.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það sem margir hafa beðið eftir í fjölda ára varð loks að veruleika í gær. Fjöldi yfirmanna innan FIFA voru þá handteknir og kærðir fyrir spillingu eftir rannsókn FBI og verða þeir framseldir til Bandaríkjanna. Hér að neðan er stutt úttekt úr ákærunni sem gefin var út í gær og ýmislegt sem hinir handteknu hafa verið kærðir fyrir.

Jack Warner
Sagði starfi sínu lausu hjá CONCACAF, FIFA, CFU (Caribbean Football Union) og TTFF (Trinidad and Tobago Football Federation). Hafði gerst sekur um að borga mútur fyrir stuðning innan CFU við forsetaframboð Mohamed Bin Hammam, gegn Sepp Blatter.

Bauð og tók við mútum í tengslum við HM 1998 og 2010, en hann tók þátt í atkvæðagreiðslunum sem meðlimur "Excecutive committe".

Hann tók þátt í ýmsum verkefnum hjá FIFA, CONCACAF og CFU og fékk peninga greidda beint inn á sína reikninga. Fyrir þennan pening keypti hann sér t.a.m. íbúð í Miami, sem var skráð á fjölskyldumeðlim hans. Þessi peningur var eyrnamerktur CONCACAF.

Fékk mútugreiðslur frá Traffic til að tryggja fyrirtækinu sjónvarpsréttindin að CONCACAF Gold Cup frá 1996-2003.

Fékk hluta fjárs sem Traffic átti að borga fyrir sjónvarpsréttindi að leikjum í undankeppni HM greidda inn á sinn persónulega reikning, í stað þess að senda allt til CFU.

Fyrirtækið hafði skrifað undir samning við það samband til þess að kaupa réttindin að öllum leikjum í undankeppninni sem liðin þar spiluðu. Á sama tíma skrifaði fyritækið undir samning, sem Warner samþykkti, við knattspyrnusamband Trinidad og Tobago fyrir sömu leiki og greiddi fyrir það beint inn á reikning Warner.

Dæmi um slíka samninga er að fyrir undankeppni HM 2010 skrifaði Traffic undir samning að verðmæti 2.2 milljóna dollara við CFU fyrir réttindi að þessum leikjum. Á sama tíma skrifaði fyrirtækið undir samning við knattspyrnusamband Trinidad að verðmæti 800.000 dollara.

Warner faldi tilvist þessara auka samninga fyrir yfirmönnum CFU.

Fékk mútugreiðslur frá yfirmönnum umsóknar Suður-Afríku fyrir HM 2010. Tók við í kringum 10 milljónum dollara fyrir atkvæði sitt. Þessi peningur átti að koma úr sjóðum ríkisstjórnar Suður-Afríku, en seinna meir kom í ljós að sá möguleiki væri ekki fyrir hendi. Í staðinn var peningurinn fenginn frá FIFA, peningar sem áttu að fara til Suður-Afríku til að styðja við keppnina þar. Peningurinn var millifærður á reikninga sem Warner stjórnaði - háttsettur aðili innan FIFA sá um að senda þá.

Nicolas Leoz
Var forseti knattspyrnusambands Suður-Ameríku, COMNEBOL, í 25 ár. Hann þurfti að segja starfi sínu lausu árið 2013 þegar komst upp um mútgreiðslur til hans á seinni hluta níunda áratugar annars vegar og í kringum 2000 hins vegar. Hann hafði þegið mútur frá Svissnesku fyrirtæki varðandi kaup á fjölmiðlaréttindum tengdum FIFA.

Ótengt þessari kæru hafði áður komið fram að Leoz bað um riddaratign frá Englandi fyrir atkvæði sitt í kosningunum um hver skyldi halda HM 2018. Jafnframt sagðist hann vera tilbúinn til þess að heimsækja landið ef FA Cup, elsta bikarkeppni í heimi, yrði skírð eftir honum.

Á tíma sínum hjá COMENBOL fór hann í samstarf við fyrirtækið Traffic vegna réttinda til þess að sýna Copa America 1987 í sjónvarpi. Þegar verðmæti Copa America fór að hækka á tíunda áratug 20. aldar fór Leoz, ásamt öðrum innan knattspyrnusambandsins, að taka við mútum frá Traffic sem tryggðu fyrirtækinu áframhaldandi sjónvarpsréttindi á Copa America, ásamt öðrum keppnum í Suður-Ameríku. Traffic borgaði Leoz og öðrum starfsmönnum sambandsins tugi milljóna dollara næstu árin til að tryggja sér þessa samninga.

Annað fyrirtæki borgaði Leoz reglulega, árin 1990-2002, mútur fyrir sjónvarpsréttindin að Copa Libertadores. T.a.m. bað hann fyrirtækið um að borga beint inn á reikninga sem hann átti og færa peninga sem fyrirtækið skuldaði COMNEBOL inn á sína reikninga.

Í febrúar og maí 2006 fékk Leoz fyrirtækið til að borga ríflega tvær milljónir dollara sem það skuldaði COMNEBOL inn á sína persónulegu reikninga.

Árið 1991 var skrifað undir samning milli Traffic og COMNEBOL um réttindin að Copa America 1993, 1995 og 1997. Aðilar frá Traffic og COMNEBOL skrifuðu undir, en Leoz gerði það ekki á þessum tíma.

Á fundi hans með fulltrúa Traffic stuttu síðar sagði Leoz að fyrirtækið ætti eftir að græða mikinn pening á þessum sjónvarpsréttindum og að það væri ekki sanngjarnt að hann sjálfur myndi ekki græða eitthvað líka. Leoz sagði að hann myndi ekki skrifa undir samninginn nema hann fengi pening, sem fyrirtækið samþykkti, að sjálfsögðu, að gefa honum.

Leoz fékk mútugreiðslur vegna hverrar einustu Copa America keppni frá 1991-2011. Greiðslurnar hækkuðu með tímanum og voru komnar upp í sjö stafa tölur, í dollurum talið.

Eduardo Li
Er forseti knattspyrnusambands Kosta Ríka, meðlimur executive committee hjá FIFA og CONCACAF.

Fékk mútugreiðslur frá Traffic fyrir sjónvarpsréttindi vegna leikja Kosta Ríka í undankeppnum HM. Hann fékk þar sex talna upphæð, í dollurum, fyrir réttindin.

Jeffrey Webb
Hann er forseti CONCACAF og knattspyrnusambands Caymaneyja, ásamt því að vera einn af varaforsetum FIFA og af mörgum talinn hugsanlegur arftaki Sepp Blatter.

Tók við sem forseti CONCACAF af Jack Warner í maí 2012. Strax eftir að hafa tekið við tilkynnti hann að breytingar yrðu gerðar á starfseminni. Ekkert breyttist þó og sú spillta starfsemi sem einkennti forsetatíð Warner hélt áfram.

Webb, ásamt Costas Takkas, þáði mútugreiðslur að verðmæti 3 milljóna dollara frá Traffic USA og öðru fyrirtæki til að tryggja þeim sjónvarpsréttindin að leikjum í undankeppni HM 2018 og 2022 innan CFU, þó hann hafi á endanum "aðeins" fengið helming þeirrar upphæðar. Takkas sá um að taka við greiðslunum og millifæra þær síðan áfram á Webb. Ein af þessum greiðslum var send til fyrirtækis sem sá um að koma upp sundlaugum, en Webb var einmitt að láta setja upp eina slíka við hús sitt í Bandaríkjunum.

Traffic USA greiddi Webb mútur fyrir réttindin að 2013 Gold Cup og tveimur tímabilum af meistaradeild CONCACAF. Webb bað um, og fékk, 1.1 milljónir dollara.

Um ári síðar fékk Webb aðra greiðslu til að framlengja samninginn að þessum keppnum við Traffic USA. Þessi greiðsla var upp á 2 milljónir dollara, þó Webb hafi í raun beðið um meira.

Eugenio Figueredo
Tók við af Leoz sem forseti COMNEBOL og einn af varaforsetum FIFA. Ásamt CONCACAF þáði hann mútur fyrir ýmis verðmæt réttindi frá knattspyrnusambandinu. Þetta ónefnda fyrirtæki borgaði 110 milljónir dollara í mútur.

Er kærður fyrir að hafa logið þegar hann sótti um, og fékk, bandarískan ríkisborgararétt. T.a.m. laug hann til um sjúkrasögu sína þegar hann sagðist þjást af vitglöpum (e. dementia) til þess að sleppa við að taka enskt tungumálapróf ásamt öðru.

Rafael Esquivel
Er forseti knattspyrnusambands Venesúela.

Fékk mútugreiðslur vegna Copa America 1991-2011, líkt og Leoz.

Árið 2007 var keppnin haldin í Venesúela. Í kringum hana bað Esquivel um, og fékk, mútur í kringum eina milljón dollara frá Traffic. Þetta var til þess að tryggja stuðnings hans við það að Traffic héldi sjónvarpsréttindunum að keppninni.

Hann fékk einnig aðra greiðslu frá fyrirtækinu í tengslum við keppnina, sú var upp á 700 þúsund dollara.

Fjórum árum síðar fékk Esquivel aðrar greiðslu frá Traffic, upp á eina milljón dollara, í tengslum við gróða Traffic á keppninni 2007. Fyrirtækið hugsaði þessa greiðslu sem tryggingu fyrir því að Esquivel myndi styðja það í baráttunni við annað fyrirtæki um framtíðar sjónvarpsréttindi að Copa America.

Jose Maria Marin
Var forseti knattspyrnusambands Brasilíu 2011-2015.

Fékk mútugreiðslur í tengslum við sjónvarpsréttindin að Copa do Brasil. Hann ásamt tveimur öðrum fengu í kringum eina milljón dollara á ári frá fyrirtækinu sem átti réttindin, þessum pening var skipt á milli þeirra.

Julio Rocha
Er forseti knattspyrnusambands Níkaragva og fulltrúi þróunarstarfs innan FIFA.

Fékk mútugreiðslur frá Traffic fyrir sjónvarpsréttindi vegna leikja Níkaragva í undankeppnum HM. Hann fékk í kringum 100.000 dollara.

Traffic International - hluti Traffic sem áður hefur komið fram hér að ofan

Frá tíunda áratug síðustu aldar hefur fyrirtækið borgað argentíska knattspyrnusambandinu milljónir dollara, fyrir hvert mót, til þess að Argentína noti alla sínu bestu leikmenn á Copa America.

Stundum báðu menn innan sambandsins fyrirtækið að borga inn á reikninga tengdum þeim.

Datisa
Fyrirtæki sem var stofnað af nokkrum aðilum með tengsl við COMNEBOL og CONCACAF.

Fengu t.a.m réttindin að Copa America 2015, 2016, 2019 og 2023.

Í tengslum við kaup á þessum réttindum samþykkti fyrirtækið að borga í kringum 110 milljónir dollara í mútur yfir líftíma samningsins. Þeir sem fengu pening voru m.a. Jeffrey Webb, Eugenio Figueredo, Rafael Esquivel, Jose Maria Marin og Nicolas Leoz.

Að minnsta kosti 40 milljónir dollara hafa verið greiddir út hingað til.

Forsetakjör FIFA 2011
Mohamed Bin Hammam bað Jack Warner um að kalla til fundar þar sem allir CONCACAF myndu mæta svo hann gæti kynnt framboð sitt. Á endanum tókst það ekki, en Warner í staðinn kallaði til fundar fyrir alla aðila CFU. Hammam samþykkti beiðni Warner um að borga allan kostnað við framkvæmd fundarins - til þess borgaði hann rétt rúmlega 363 þúsund dollara inn á reikning CFU, sem var stjórnað af Warner.

Í lok fundarins tilkynnti Warner öllum þeim sem sátu fundinn að þeir gætu komið síðar um kvöldið á visst hótelherbergi til að sækja "gjöf". Þeir áttu að koma inn í herbergið einn í einu og þar inni fékk hver og einn umslag, merkt sínu knattspyrnusambandi, sem innihélt 40 þúsund dollara. Hann tilkynnti þeim síðar að þetta væri peningur frá Bin Hammam. Einn af þeim sem fékk pening hafði látið háttsettan aðila innan CONCACAF vita af þessu. Þetta gerði Warner reiðan sem sagði: „Það eru sumir hér sem halda að þeir séu betri en þið. Ef þið eruð betri, opnið frekar kirkju. Okkar viðskipti eru okkar viðskipti."

Pistillinn birtist upphaflega á Sportblogginu
Athugasemdir
banner
banner