Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   þri 28. júlí 2015 10:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Stjarna í dag - gleymdur á morgun
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Einar Áskelsson.
Einar Áskelsson.
Mynd: Úr einkasafni
Fyrir leikinn gegn Manchester United.
Fyrir leikinn gegn Manchester United.
Mynd: Úr einkasafni
Með George Best og fleirum á liðsmynd.
Með George Best og fleirum á liðsmynd.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Úr einkasafni
Inngangur – Ég birti þennan pistil fyrst í byrjun apríl 2015. Ótengt honum hafa þekktir íþróttamenn stigið fram og lýst reynslu sinni að takast á við andlega sjúkdóma. Í ljós hefur komið að lítill gaumur er gefinn að andlegum sjúkdómum innan íþróttahreyfingarinnar – falið vandamál. Hljómar eins og hálfgert „tabú“. Það þarf hugrekki að stíga fram og viðurkenna að maður eigi vandamál að stríða og vera tilbúinn að deila reynslunni. Ég dáist af slíku fólki. Í kjölfarið af umræðunni datt mér í hug hvort þessi pistill væri ekki enn gott innlegg í þessa umræðu?

Frá fyrstu minningu var ég í fótbolta og þótti snemma mikið efni. Fæddur á Húsavík en flutti til Akureyrar 6 ára gamall. Á Húsavík var ég tuðruna límda við mig. Strax þótti eitthvað varið í mig því ég var að spila með miklu eldri strákum. Á þessum árum kom fram kynslóð af mörgum frábærum fótboltamönnum, örlítið eldri en ég. Þar fer fremstur Arnór nokkur Guðjohnsen sem var alltaf mín hetja og fyrirmynd. Ég flutti í Þorpið á Akureyri og gekk í Þór. Lífið snérist um fótbolta. Draumurinn var að verða atvinnumaður þó það væri erfiðara þá en nú. Í pistlinum ætla ég að fjalla um hvernig fótboltadraumur getur orðið að martröð og reynsluna við að skapa sér nýja von og drauma.

Fljúgum hærra! –.Þegar ég gekk upp úr 3. flokki tók ég þá djörfu ákvörðun að skipta úr uppeldisfélaginu Þór yfir í erkióvininn KA! Það þótti tíðindi í þá daga. Ég man ekki ástæðuna en það var einhver „unglingahundur“ í mér. Eftir þetta vissi ég hverjir voru vinir mínir í Þór og hverjir ekki. Þeir voru í raun ekki svo margir! 16 ára er ég tekinn inn í meistaraflokk KA sem spilaði í efstu deild. Það var vissulega upphefð mér fannst það samt eðlilegt! Hafði notið velgengni og fannst ég ekki einungis nógu góður til að spila í efstu deild 16 ára, heldur betri en flestir aðrir í liðinu. Ég varð því fúll að vita að ég ætti að setja á bekknum í fyrsta leik íslandsmótsins á móti Val á Laugardalsvelli. Í þokkabók látinn hita upp allan seinni hálfleik. Þetta lýsir hugarfarinu í mér. Metnaður en á móti mikið óþol gegn „mótlæti“. Þetta var á mótunarskeiði mínu sem unglingur þar sem ég var bæði „töff“, drakk og reykti, og fótboltadrengur sem þráði að verða dáður fyrir það. Þarna byrjuðu tveir „persónuleikar“ að takast á! Þrátt fyrir að mér gengi vel í fótboltanum þá leið mér aldrei vel inn í mér sem unglingur! Ég lærði ungur að fela það og leika hlutverk. Af gefnu tilefni. Ekki láta neinn sjá hvernig mér leið!

Í minningunni var þetta sumar fótbolti og skemmtun. Ég fékk mikla athygli og lifði fyrir hana. Ég var valinn í unglingalandsliðið og æfði og spilaði með því þetta sumar. Það virtist allt ganga upp. Hápunkturinn var þegar ég spilaði á móti Manchester United. Spilaði í sama liði og George Best og hetjan mín Arnór Guðjohnsen. 4 þúsund manns á vellinum og þetta var og er stórkostleg minning. Mér gekk frábærlega í leiknum og fékk mikla athygli í kjölfarið. Mér allir vegir færir að láta drauminn minn rætast. Ég var í hæstu hæðum!

Hafin lækkun.- Leikurinn á móti Manchester United varð hápunkturinn á fótboltaferlinum!! Ótrúlegt! Ég flaug hátt upp en stutt í brotlendingu. Ég kynntist áfengi 14 ára og í gegnum íþróttir!. Í fótboltanum var skemmt sér við hvert tækifæri. Ég kynntist líka öðrum vímuefnum og fannst það í lagi. Ég lék mér að eldinum allt sumarið án þess gera mér grein fyrir því. Ég notaði áfengi og vímuefni til að geta verið svona „svalur“ gaur og vera ófeiminn við t.d. stelpur!. Ég var allgjörlega blindur á hversu mikið ég skemmti mér. Í lok sumarsins tóku dökk ský að myndast. Ég skipti yfir í uppeldisfélagið eftir að ég reiddist á æfingu. Ég kom úr landsliðsferð á föstudegi, liðið átti leik á laugardegi og venjulega varstu boðaður með símtali. Það var ekki og ég fór á djamm um kvöldið. Áttaði mig á því daginn eftir að ég átti að spila. Þjálfarinn las yfir mér á æfingu fyrir framan hópinn. Ég þoldi ekki mótlætið, brjálaðist og skipti um félag! Dauðsá eftir því! Svona var ég. Uppi eða niðri. Stuttu síðar fór ég að missa flugið og fótanna.

Brotlending – Á mettíma tókst mér að klúðra glæstum fótboltaferli. Brotlending! Ég reyndi að spyrna við fótum en áfengi og vímuefni tosuðu í mig ! Að klúðra fótboltanum varð mér áfall. Ég ákvað það ekki né vildi. Fíknin náði tökum á mér. Ég varð þunglyndur og læddist á milli veggja þegar ég var ekki undir áhrifum. Ég þráaðist við að reyna að vera með í 2 – 3 ár í viðbót en þar orðinn svo þunglyndur og með lélegt sjálfstraust að ég gat ekki lengur sýnt hvað ég gat. Eftir það varð fjandinn laus. Ég fór í óstjórnlega neyslu á áfengi og vímugjöfum stefnulaus og ábyrgðarlaus. Orðinn þræll fíkninnar Ég forðaðist gömlu vinina úr fótboltanum því þeir voru „að slá í gegn“ og ég þoldi það ekki. „Skömmin“ stýrði mér. Fyrir mér var lífið búið fyrst fótboltinn var farinn! Á 2-3 árum klúðraði ég lífinu og var heppinn að hafa lifað það af.

Björgun – Ég leit í spegil og sá alltaf flottan fótboltatöffara. Spegillinn sýndi það ekki. Hann sýndi ungan mann í tómu tjóni. Haustið 1989 fór ég í meðferð eftir svakalegt rugl. Man tímasetninguna því þá varð liðið sem ég lék með á móti Manchester United, Íslandsmeistari í fótbolta. Ég kominn á slopp og félagarnir að fagna titli. Aðdragandinn að meðferðinni var hræðilegur. Ég fór því ég gat hvorki réttlætt eða logið. Ég kláraði meðferðina og fór að reyna að lifa án „hjálparmeðala“.

Að fóta sig!. Eftir meðferð komst ekkert annað að en sýna að ég gæti komist í fótboltann aftur! Varð þráhyggja. Ég fór að mæta á æfingar. Var á undirbúningstímabili og mikið um þrekæfingar. Ég mætti en þótti það erfitt. Var langt á eftir hinum og var að gefast aftur upp! Þá meiðist ég í hnénu og beint undir hnífinn í uppskurð. Stuttu síðar var hitt hnéð á mér skorið. Mér var sagt að þakka fyrir að getað að lifa venjulegu lífi en gleyma öllu sem heitir keppnisíþróttir! Þetta varð mér annað áfall sem ég réði ekki við og gat ekki sætt mig við.

Afneitun - Ég varð enn þunglyndari og dró mig í skel. Ég stóð frammi fyrir enn einu valinu. Að vinna úr málunum? Eða að þrjóskast við? Í þessu tilfelli valdi ég það síðarnefnda. Svo mikil „skömm“ í mér að hafa klúðrað ferlinum þrátt fyrir úrskurð lækna um hnén. Ég reyndi margt, alltaf í von um að ég gæti skellt mér á æfingu og byrjað að spila í efstu deild! Það var engin rökrétt hugsun á bak við þetta. „Afneitun“. Léleg „sjálfsvirðing“. Ég þorði ekki og vildi ekki horfast í augu við „staðreynd“. 24 ára gamall. Útbrunninn. Lúser! Þannig leið mér. Ég var aftur kominn í „rússnesku rúllettuna“.

Sáttin! –Ég fór langt niður andlega og eyddi heilu sumri í að hugsa út leiðir til að stytta mér aldur. Ég var hrokafullur í framkomu og sumt fólk forðaðist mig! Ég stóð frammi fyrir fyrir valinu að lifa eða...deyja! Fyrst vildi ég deyja. Losna við þjáninguna. En með góðra manna hjálp valdi ég betri kostinn. Ég gafst upp. Ekki átakalaust! Vanmáttugur þáði ég hjálparhönd. Ég var 28 ára þegar ég hóf gönguna að því ómögulega, að öðlast sátt. Eftir 10 ára flótta! Sáttin náðist samhliða því að ég sættist við „sjálfan mig“ sem manneskju. Að geta horft í augun á mér í spegli og sjá réttu spegilmyndina. Tala og hlusta. Vera tilbúinn að bjarga sér.

Sigurvegarinn er sá sem sýnir auðmýkt í að leita sér hjálpar! Það gerði ég og fylgdi ráðleggingum. Enda fóru kraftaverkin að gerast. Engin flugeldasýning heldur hægt og rólega. Nánast eins og að læra að ganga á ný því ég þurfti að læra frá grunni mannleg samskipti og skilgreina eigin tilfinningar!

Nýta reynsluna - Í dag er þetta minning. Særir ekki og stjórnar ekki minni líðan. Ég er stoltur að hafa spilað á móti Manchester United og með George Best. Mér tókst alla vega það. Á þessum árum, og greinilega enn i dag, þótti bara væl að ræða um að manni liði illa. Ég gat aldrei rætt við neinn um mína líðan. Eftir á að hyggja hefði það verið frábært og hægt að kippa fyrr í spotta og ég getað haldið áfram. En þýðir ekki að fást um það í dag. Um leið og ég gat talað um mín mál, við aðila sem skildu mig, þá var auðveldara að vinna úr þeim. Ég kunni þetta ekki og þurfti að læra.

Hjálpaðu sjálfum þér – Ástæðan fyrir því að ég get gefið þessa sögu, er að ég er laus við „skömm“, „afneitun“ og öðlast „sátt“ og „hugarró“. Þó við gerum mistök þá eigum við ekki að vera brennimerkt alla ævi. Ég fékk tækifæri sem ég nýtti mér og var stálheppinn að hafa fengið það. Ég kynntist því að vera á barminum að deyja. Fyrir það verð ég ævinlega þakklátur mínum æðri mætti. Þess vegna verð ég alltaf að minna mig á, viðhalda þakklætinu og um leið sáttinni.

Síðan fór ég að rækta aðra hæfileika. Það var enginn hörgull á þeim! Það var ævintýralegt að komast úr hugarfarinu að vilja enda líf sitt, yfir í að sjá ljós í enda ganganna og trúa að ég gæti öðlast líf. Bara venjulegt líf. Ég var búinn að útiloka þann möguleika. Síðan hef ég menntað mig, unnið við mitt fag, eignast börn og buru og gengið í gegnum hefðbundnar sorgir og gleði lífsins. Í dag bý ég í Hafnarfirði eftir að ég flutti þangað til að hefja sambúð og við slitum sambúðinni á þessu ári. Áður var ég giftur til fjölda ára og á með þeirri konu börnin mín tvö. Ég hef margt til að vera þakklátur fyrir. Vanlíðan dró mig nærri því til dauða. Nánast í miðri velgengni. Óska engum þess að þurfa að ganga í gegnum mín spor.

Takk fyrir – Eins og í fyrra pistli þá er ég að skrifa um mína reynslu eins einlæglega og heiðarlega og ég get. Það er tilgangurinn. Enginn annar. Svo er öllum frjálst að nýta sér mína reynslu. Eða ekki. Það er líka val!

Með ljúfustu kveðju, Einar Áskelsson
Athugasemdir
banner
banner
banner