Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fim 28. september 2023 12:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Áhyggjufull yfir stöðu landsliðsins - „Þurfum að fara í einhverja naflaskoðun"
Eftir leikinn gegn Þýskalandi.
Eftir leikinn gegn Þýskalandi.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Ásthildur hér til vinstri.
Ásthildur hér til vinstri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásthildur Helgadóttir, fyrrum fyrirliði íslenska landsliðsins, segir að landsliðsglugginn sem var að klárast hafi verið vonbrigði þrátt fyrir að liðið hafi tekið þrjú stig úr leikjum gegn Wales og Þýskalandi.

Stelpurnar byrjuðu Þjóðadeildina á því að vinna 1-0 sigur gegn Wales en þær töpuðu svo stórt, 4-0, gegn Þýskalandi.

Ásthildur, sem er goðsögn í íslenskum fótbolta, ræddi við Vísi um landsliðsgluggann en hún segir að Ísland sé að dragast aftur úr og hún segir að það þurfi að fara í naflaskoðun.

Ásthildur segir að það séu margir góðir leikmenn í liðinu en það sé ekkert sem einkennir liðið.

„Við erum að tapa návígjum. við getum ekki haldið bolta, sendingar, móttaka. Það er ekkert sem einkennir liðið okkar í dag," sagði fyrrum landslisðfyrirliðinn. „Við vorum með einkenni, barátta og við unnum okkar návígi. Við vorum vel skipulagt lið, spiluðum góðan varnarleik. Þetta er ekki til staðar í dag. Við þurfum virkilega að fara í einhverja naflaskoðun að mínu mati."

Hún segist ekki sjá stefnu eða leikplan hjá landsliðsþjálfaranum Þorsteini Halldórssyni. Hann þurfi að taka einhverja ábyrgð.

„Maður sér ekki leikplanið og maður sér enga stefnu. Það er áhyggjuefni að við getum ekki haldið bolta. Þegar við töpum boltanum og þegar við vinnum boltann, það er mjög ábótavant í okkar leik."

Stelpurnar vörðust nú að mörgu leyti vel á móti Wales og unnu þar 1-0 sigur, en leikurinn á móti Þýskalandi var algjör niðurlæging þar sem okkar liði tókst ekki að eiga eitt skot að marki allan leikinn. Þær voru aldrei líklegar til að skora á meðan Þýskaland sótti hvað eftir annað allan tímann.

Næsti landsliðsgluggi er í október þar sem okkar stelpur mæta Danmörku og Þýskalandi hér heima en það verður erfitt verkefni.

Hægt er að hlusta á Heimavöllinn frá því í gær í spilaranum hér fyrir neðan. Þar var mikið rætt um landsliðið.
Heimavöllurinn: Þrjú stig og ljótur skellur
Athugasemdir
banner
banner
banner