Alexander Isak skoraði mark Newcastle í 1-1 jafntefli gegn PSG í Meistaradeildinni í kvöld en Kylian Mbappe jafnaði metin í uppbótatíma úr vítaspyrnu en vítaspyrnudómurinn var ansi umdeildur.
„Því miður fengum við mark á okkur svona seint. Við byrjuðum að verjast aðeins of snemma og þeir fóru að skapa færi," sagði Isak.
„Fyrst fannst mér þetta ekki vera víti, ég hef ekki séð þetta aftur. Fyrst vítaspyrnan var gefin þá var þetta vonandi víti. Við verðum að treysta dómurunum."
Eddie Howe tjáði sig einnig um dóminn.
„Mér fansnt þetta ekki vera víti. Við vitum að þegar boltinn fer fyrst í líkamann og hendin er lágt niðri þá er þetta ekki víti," sagði Eddie Howe stjóri liðsins.
Isak er stoltur af liðinu og ánægður að hafa skorað sitt fyrsta Meistaradeildarmark fyrir Newcastle.
„Ég er mjög stoltur af liðinu þar sem það er ekki auðvelt að koma hingað því þeir hafa ekki tapaði hérna lengi. Við urðum þreyttir undir lokin út af því við vörðumst svo mikið og því miður gátum við ekki haldið þetta út. Við viljum alltaf vinna en ef þú vinnur ekki verðum við að hafa eitthvað að spila fyrir í síðustu umferð," sagði Isak.
Dortmund er komið áfram upp úr riðlinum en PSG er í 2. sæti tveimur stigum á undan Newcastle og Milan. Newcastle fær Milan í heimsókn í lokaumferðinni og PSG heimsækir Dortmund.