„Ég tel að lið sem hafa karlalið, góðan fjárhag og gott samstarf milli karla- og kvennaliða munu taka miklum framförum næstu árin og taka yfir eins og sést í ensku deildinni. Frá árinu í fyrra hefur PSV sett mikinn metnað í að auka fagmennsku hjá kvennaliðinu með miklum fjárfestingum, til að mynda er nýbúið að stofna U19 ára lið," sagði Anna Björk Kristjánsdóttir, þáverandi leikmaður PSV og núverandi leikmaður Selfoss, í viðtali í nóvember á síðasta ári.
Þessi orð Önnu svipa til þeirra sem Sandra María Jessen, leikmaður Leverkusen, sagði í hlaðvarpsviðtali fyrr í vikunni þegar hún lýsti umgjörðinni hjá Leverkusen.
Sandra segir að kvennalið Leverkusen njóti góðs af því hversu gott karlalið félagsins er. Viðtalið í heild sinni má hlusta á neðst í fréttinni.
„Umgjörðin er upp á tíu hjá Leverkusen. Kvennaliðið græðir rosalega mikið á því hvað karlaliðið er gott. Ég vildi koma mér í þannig umhverfi að ég gæti bætt mig sem íþróttamaður og hjá félaginu er allt til alls," sagði Sandra um Leverkusen.
Sæbjörn Þór Þórbergsson ræddi við Söndru og mundi eftir ummælum Önnu Bjarkar hér að ofan og spurði hvort það væru miklar tengingar á milli kvenna- og karlaliðsins hjá Leverkusen.
„Við leikmenn erum kannski ekki í beinum samskiptum en erum með sömu aðstöðu ef við þurfum á einhverri meðhöndlun að halda þá förum við á sama svæði og karlaliðið. Svæðið er á heimavelli karlaliðsins og það eru einu skiptin þar sem nálægðin milli liðanna er mikil. Ég veit að það er mikill hugur að gera vel bæði kvenna- og karlamegin og félagið hefur verið að leggja meiri pening í kvennaboltann heldur en áður. Kvennaliðið nýtur góðs af því að félagið hefur áhuga á að kvennaliðið geri vel."
Karlalið Leverkusen er mjög öflugt og var í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á liðinni leiktíð. Í vor endaði karlaliðið í fimmta sæti af átján liðum í þýsku Bundesliga og kvennaliðið í tíunda sæti af tólf liðum.
Sjá einnig:
Sandra María: Þakklát fyrir að fá að upplifa drauminn
Athugasemdir