Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 27. nóvember 2019 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Anna Björk: Vildi komast í topplið þar sem samkeppnin er mikil
Anna Björk á landsliðsæfingu í ágúst.
Anna Björk á landsliðsæfingu í ágúst.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik með Stjörnunni árið 2011.
Úr leik með Stjörnunni árið 2011.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Í leik með Stjörnunni 2014.
Í leik með Stjörnunni 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr landsleik árið 2014.
Úr landsleik árið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir leik á EM.
Eftir leik á EM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tækling á EM 2017.
Tækling á EM 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnað eftir leik gegn Lettlandi í haust.
Fagnað eftir leik gegn Lettlandi í haust.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selfie með Hörpu Þorsteinsdóttur.
Selfie með Hörpu Þorsteinsdóttur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anna Björk Kristjánsdóttir leikur í dag með PSV í hollensku úrvalsdeildinni. Hún er uppalin hjá KR en lék lengstum með Stjörnunni í meistaraflokki á Íslandi.

Anna er 30 ára miðvörður sem leikið hefur 43 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún lék sinn fyrsta deildarleik með KR á fimmtánda aldursári. Árið 2009 gekk hún í raðir Stjörnunnar og lék með félaginu til ársins 2016 þegar hún hélt til Svíþjóðar.

Í Svíþjóð lék hún með Örebro og Limhamn Bunkeflo (LB07). Snemma á þessu ári hélt hún svo til Hollands. Fótbolti.net hafði samband við Önnu í síðustu viku og fór yfir stöðuna með landsliðskonunni.

Atvinnumennskan hófst í Svíþjóð
Fyrsta spurningin á Önnu tengdist tíma hennar hjá sænsku félögunum sem hún lék með á árunum 2016-19. Hvernig var tíminn í Svíþjóð?

„Örebro var fyrsta liðið mitt sem atvinnukona í fótbolta. Þetta var virkilega lærdómsríkt ár, við vorum með flott lið en úrslitin voru ekki að falla með okkur," sagði Anna við Fótbolta.net.

„Ég spilaði næstum allar mínútur en fjárhagur liðsins var ekki góður og nánast engir útlendingar sömdu við liðið árið eftir."

„Mér bauðst þá að fara í ungt og spennandi lið í Malmö, LB07. Ég taldi það gott skref fyrir mig að reyna á leiðtogahæfnina - vera með elstu leikmönnum liðsins. Okkur gekk vonum framar á fyrsta árinu, í liðinu voru margir ungir og efnilegir leikmenn."

„Ég taldi að liðið hafði metnað í að gera betur og ákvað að vera annað ár þar, fannst ég bæta mig sem leikmann, það var nóg að gera í vörninni. Sænska deildin er einnig virkilega skemmtileg deild, nánast allir leikir spennandi og oft óvænt úrslit. Seinna árið var talsvert erfiðara en það fyrra og vorum við nánast allan tímann í fallsæti."

„Ég lærði gríðarlega mikið seinna árið - við náðum að bjarga okkur í síðasta leik deildarinnar. LB er lítill klúbbur og eftir tvö ár taldi ég að ég þyrfti aðra áskorun og jafnvel að prufa aðra deild. Ég vildi komast í topplið með góðar aðstæður þar sem æfingar og æfingatími væri í takt við atvinnumannalið, þar sem samkeppni var um sæti í liðinu. Í Svíþjóð var ég nánast alltaf með öruggt sæti í byrjunarliði."


Fór í hollenskt stórlið sem vill vinna titla
Næsta skref var PSV í Hollandi, hollenska landsliðið sigraði EM árið 2017. Anna sagði aðeins frá því hugsununum sem komu upp þegar PSV stóð til boða.

„Daði Rafnsson (knattspyrnuþjálfari) heyrði í mér eftir seinna tímabilið hjá LB. Daði var með sambönd við PSV Eindhoven í Hollandi og spurði hvort ég hefði áhuga á að fara þangað. Ég vissi ekki mikið um hollensku deildina en hollenska landsliðið var búið að taka gríðarlegum framförum síðustu árin og er ríkjandi Evrópumeistari."

„Ég ákvað því að skoða þetta aðeins betur og mér leist vel á liðið og aðstæður. Spurningin var þó hvernig deildin og önnur lið voru. Ég skrifaði fyrst undir hálft ár og àkvað svo að framlengja samninginn um ár í viðbót í vor."


PSV er þekkt stærð í karlaboltanum en hvernig er umgjörðin og umhverfið í kringum kvennaliðið?

„Ég tel að lið sem hafa karlalið, góðan fjárhag og gott samstarf milli karla- og kvennaliða munu taka miklum framförum næstu árin og taka yfir eins og sést í ensku deildinni."

„Frá árinu í fyrra hefur PSV sett mikinn metnað í að auka fagmennsku hjá kvennaliðinu með miklum fjárfestingum, til að mynda er nýbúið að stofna U19 ára lið. Markmiðið er að vinna deildina og þar af leiðandi komast í Evrópukeppnina."

„Umgjörðin hjá kvennaliðinu er betri en ég hef vanist, við æfum á daginn, erum allar í liðinu atvinnukonur, erum með góðan hóp af starfsfólki og ýmislegt gert fyrir okkur svo við hámörkum frammistöðuna."

„Það er þó enn hægt að bæta ýmislegt og erum við með sterka karaktera sem krefjast að betur sé gert og stefna á að taka liðið lengra. Við æfum á sama svæði og karlaliðið þó þeir séu með sitt hús og sína velli. Við æfum á sama stað og akademían og allt er til staðar."


PSV efst í deildinni en missti af titlinum í úrslitakeppni
PSV var efst í hollensku deildinni á síðasta tímabili en Twente varð Hollandsmeistari eftir úrslitakeppni. Anna var spurð út í fyrirkomulagið á úrslitakeppninni í Hollandi.

„Að sigra deildarkeppnina er enginn áfangi þannig lagað, engir bikarar eða neitt. Ég tel þó að þetta sé besta leiðin, að hafa úrslitakeppni. Með því fáum við fleiri góða leiki því neðri liðin eru ekki nógu góð og leikir gegn þeim eiga að vera algjörir skyldusigrar."

Níu lið voru í deildinni í fyrra og fimm efstu liðin fóru í úrslitakeppni. Neðstu fjögur spiluðu um öruggt sæti í efstu deild. Helmingur stiganna sem liðin höfðu á þeim tímapunkti unnið sér inn voru tekin af þeim við upphaf úrslitakeppninnar.

Forskot PSV var fjögur stig en eftir helmingunina var það einungis tvö stig. Á þessu tímabili fara einungis fjögur lið í úrslitakeppnina, vegna fækkunar í deildinni (Achilles ákvað að senda ekki lið til keppni á þessari leiktíð), í úrslitakeppninni er leikið heima og að heiman.

„Helmingur stiganna er tekinn af öllum liðum fyrir úrslitakeppnina og því minnkar forskotið eins og gerðist hjá okkur í fyrra"

„Ég held að liðið hafi lært mikið af síðasta tímabili. Við vorum í svipaðri stöðu í fyrra, unnum nánast alla leikina í deildarkeppninni og fjölmiðlar fóru snemma að tala um að við yrðum meistarar."

„Það umtal fór í höfuðið á einhverjum okkar, við urðum hræddar við að tapa stóru og mikilvægu leikjunum í úrslitakeppninni og spiluðum því langt undir getu. Núna hefur liðið hins vegar lært að þetta er langt tímabil og að margt getur breyst, bæði eftir að skorið er á stigin sem og í sjálfri úrslitakeppninni."


Hvernig komst Anna inn í hlutina og hvar var hún að spila á vellinum?

„Ég kom inn og spilaði strax nokkra leiki, misjafnt í hvaða stöðu, hafsent, vinstri bakvörð eða djúp á miðju. Ég vissi alveg mitt hlutverk þegar ég kom inn í lið á miðju tímabili sem var búið að vinna nánast alla leikina. Maður gengur ekki svo hæglega inn, en ég var hinsvegar að spila meira en ég bjóst við."

„Ég lendi svo í meiðslum og rétt náði að spila síðasta leikinn í deildinni. Það voru mikil vonbrigði að ganga frá tímabilinu með enga titla og fannst mér spennandi að halda áfram með liðið og reyna að gera betur."


Lítið spilað á leiktíðinni og glímt við meiðsli - Leitaði sjálf í samkeppnina
Hvernig hefur yfirstandandi tímabil verið hjá Önnu?

„Tímabilið í ár hefur verið vonbrigði fyrir mig persónulega. Ég spilaði mikið á undirbúningstímabilinu, byrjaði alla leiki og það var mikill stígandi í mínum leik."

„Ég var búin að æfa vel sjálf á undirbúningstímabilinu og líka með liðinu. Mér fannst ég vera að komast í mitt besta form á mínum ferli. Spila svo fyrsta leikinn í deild sem við vinnum örugglega en er svo óvænt tekin úr byrjunarliðinu í næsta leik."

„Á þeim tímapunkti hafði ég mestmegnis heyrt jákvæða hluti frá þjálfaranum og því klárlega ekki sátt með þessa ákvörðun. Ég ákvað að vera ekki að kvarta heldur sinna mínu hlutverki og koma mér aftur í liðið, enda vildi ég komast í lið með meiri samkeppni."

„Ég finn fyrir því að þjálfarinn treystir mér og það hjálpar alltaf þegar maður er ekki að byrja alla leiki. Ég hef verið að koma inn á í leikjum og spila mig í gang hægt og rólega þar sem ég hef lenti í að rífa kálfann í vetur og hef því verið í svolitlu veseni með það og hásinina."


Hvernig hefur PSV gengið á leiktíðinni?

„Liðinu gengur virkilega vel og við erum með stóran og sterkan hóp, með flotta blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum og öðrum reyndari. Það er mikil samkeppni um stöður en virkilega góð stemning, mikil einbeiting á verkefnið og metnaður. Við eigum klárlega að berjast um titla í ár og það er pressa á liðinu að standa sig."

Mikil samkeppni í landsliðinu - Forréttindi að vera hluti af liðinu
Anna hefur undanfarið ekki gengt lykilhlutverki í byrjunarliði íslenska landsliðsins. Hún er í mikilli samkeppni við Glódísi Perlu Viggósdóttur, Sif Atladóttur og Ingibjörgu Sigurðardóttur um miðvarðastöðurnar. Síðasta spurningin á Önnu tengdist hennar sýn á landsliðið í dag.

„Samkeppnin er að sjálfsögðu erfið eins og á að vera í landsliðinu og síðan á EM 2017 hef ég verið á eftir þeim í röðinni, ég naut mín mjög vel að spila með Glódísi í undankeppninni og voru það mínir bestu landsleikir hingað til."

„Ég veit að ég á nóg eftir og lít á það sem algjör forréttindi að vera hluti af landsliðinu. Ég er nokkuð viss um að það voru ekki margir sem trúðu því þegar ég var yngri að ég myndi ná 43 leikjum."

„Ég er í þessu til að spila leiki en þjálfarinn velur liðið og eina sem hægt er að gera er að standa sig á æfingum, með sínu liði og nýta tækifærið þegar það gefst."

„Við leikmennirnir höfum ávallt hjálpast að og stutt hvor aðra utan sem innan vallar og því heilbrigð samkeppni í liðinu sem hjálpar manni að vaxa og þroskast sem leikmaður. Ég vil gera valið erfitt fyrir þjálfarann og setja pressu á að fá fleiri mínútur,"
sagði Anna Björk að lokum.

Sjá einnig: „Gott fyrir liðið og leikmennina að það sé samkeppni"
Athugasemdir
banner
banner