Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   mið 30. apríl 2025 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Flick búinn að ákveða hver verður í markinu
Mynd: EPA
Hansi Flick, þjálfari Barcelona á Spáni, er búinn að taka ákvörðun um það hver mun standa í markinu í þeim leikjum sem liðið á eftir í Meistaradeild Evrópu.

Marc-Andre ter Stegen hefur verið aðalmarkvörður Börsunga síðustu ár en hann sleit krossband í byrjun tímabils og neyddist spænska félagið til að sækja annan í hans stað.

Félagið leitaði til Wojciech Szczesny sem hafði lagt hanskana á hilluna nokkrum mánuðum áður og tók hann vel í það. Hann var á bekknum í fyrstu leikjunum eftir komu sína, en tók síðan sætið af Inaki Pena og hefur haldið því síðan.

Ter Stegen snéri aftur úr meiðslum í síðasta mánuði og var í hóp í fyrsta sinn í bikarúrslitaleiknum gegn Real Madrid um helgina, en hann mun hins vegar ekki spila í síðustu leikjum liðsins í Meistaradeildinni.

„Szczesny mun spila í Meistaradeildinni. Það er ákveðið. Hvað með Ter Stegen? Við munum sjá hvort við getum breytt einhverju í La Liga,“ sagði Flick á blaðamannafundi, en Barcelona mætir Inter í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld.

Pólski markvörðurinn hefur verið frábær frá því hann spilaði sinn fyrsta leik með Barcelona í janúar og reynst þeim afar traustur, svo traustur að félagið hefur ákveðið að framlengja samning hans út næsta tímabil.
Athugasemdir
banner
banner