

'Við sáum ávöxtinn verða betri og betri, sáum möguleikann á því að taka skrefið sem enginn í Njarðvík hafi pælt í; að fara upp í Bestu deild'

'Þetta var frábært afrek fyrir klúbbinn, vorum einu marki frá því að fara beint upp í Bestu deildina'

Freysteinn Ingi Guðnason er mjög efnilegur kantmaður, unglingalandsliðsmaður, sem fékk stærra hlutverk eftir söluna á Amin Cosic.

Davíð Helgi Aronsson er efnilegur varnarmaður, unglingalandsliðsmaður sem var á láni hjá Njarðvík frá Víkingi.

'Ég held að rígurinn hafi ýtt meira undir þetta, þeir sáu að þeir voru einum leik frá því að missa Bestu deildar sætið til litla bróður í Njarðvík'

'Keflavík átti eitt skot að marki í fyrri hálfleik, það fór yfir, þetta var því allt að ganga upp hjá okkur'

Sigurjón Már átti tæklinguna til baka sem metin var sem sending á markmann og óbein aukaspyrna var dæmd þegar Aron Snær Friðriksson tók boltann upp. Keflavík komst í 2-0 í kjölfarið.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Njarðvík ákváðu að fara ekki í viðræður um frekara samstarf eftir rúmlega tveggja ára samstarf. Gunnar Heiðar tók við liðinu 2023 í erfiðri stöðu og náði að halda liðinu í Lengjudeildinni. Í fyrra var liðið hársbreidd frá umspilssæti og í ár endaði liðið í 2. sæt Lengjudeildarinnar en féll úr leik í undanúrslitum umspilsins.
Fótbolti.net ræddi við Gunnar Heiðar um tímann hjá Njarðvík. Langmest var rætt um tímabilið í ár, en þó byrjað á byrjuninni.
Fótbolti.net ræddi við Gunnar Heiðar um tímann hjá Njarðvík. Langmest var rætt um tímabilið í ár, en þó byrjað á byrjuninni.
Einu marki frá sæti í Bestu deildinni
„Ég kom inn 2023 náum við góðu skriði og höldum okkur uppi á einu marki, 2024 vorum við einu stigi frá umspili og einu marki frá því að fara upp í Bestu deildina á þessu tímabili. Síðan 1990 er Njarðvík búið að vera tíu sinnum í næstefstu deild, sjö ár af 32 þegar ég hef ekki verið hérna. Klúbburinn er kominn á góðan stað, orðinn mjög góður Lengjudeildarklúbbur. Ég talaði við stjórnina eftir 2023, það var fullt af fólki sem vildi fara hærra, og ég var hrikalega ánægður með það. Stjórnin keypti það að ég myndi koma reykspólandi inn, með fullt af hugmyndum og metnað til að drífa þetta áfram. Við sáum ávöxtinn verða betri og betri, sáum möguleikann á því að taka skrefið sem enginn í Njarðvík hafi pælt í; að fara upp í Bestu deild," segir Gunnar Heiðar.
„Við misstum úr hópnum eftir 2024 og fengum inn leikmenn sem okkur fannst passa betur inn í það sem við vildum gera. Við gerðum hrikalega vel i aðdraganda tímabilsins, gerðum fullt af hlutum sem félagið hafði aldrei gert áður, spennandi hluti."
„Við byrjuðum tímabilið vel, erum í baráttunni við ÍR á toppnum fyrri part móts. Seinni part mótsins höldum við áfram, ÍR fatast aðeins flugið og á meðan taka Þór og Þróttur skref fram á við. Þór gerði fyrir mér virkilega vel í sumarglugganum að ná í Greko. Hann var kannski þetta púsl sem vantaði fyrir Þór til þess að fara í efsta sætið og upp um deild. Við töpuðum ekki leik í 17 leikjum í röð sem er alveg fáránlegt í rauninni, sérstaklega hjá félagi sem er ekki stærri en þetta og leikmenn sem hafa ekki alltaf verið í toppbaráttu."
„Það sem svíður mest eftir þetta er að á þessu 17 leikja skriði þá erum við að keyra yfir mörg lið, náum ekki að nýta sénsa til að bæta við mörkum í þeim leikjum, fáum á okkur eitt mark í bakið og leikurinn endar með jafntefli. Það eða þá að það sé jöfn staða og við klikkum á vítaspyrnu sem kemur í veg fyrir sigur. Bara ef við hefðum snúið einum af þessum jafnteflum í sigur, þá hefðum við unnið deildina. Þetta var ekki lengra frá en það."
Óþarfi að selja hann á þessum tímapunkti
Það var stoppað við nokkrar vörður í gegnum tímabilið. Sú fyrsta var ákvörðun Njarðvíkur að selja Amin Cosic snemma móts og samþykkja að hann færi í KR í sumarglugganum. Hvernig sér þetta við þér, og fékkstu nógu öflugan mann inn í staðinn fyrir hann?
„Mér finnst Amin Cosic og sú vegferð hann tók hjá okkur algjörlega frábær. Ég held að þetta sé leikmaður sem á bara eftir að verða betri og betri. Hann var hjá mér og okkur 2024 líka, frekar óslípaður og maður fannst að það var svolítil reiði þar sem hann var ekki búinn að fá, að honum fannst, sanngjarna meðferð hjá félaginu sem hann var hjá á undan (HK). Hann kemur til okkar og það tekur svolítinn tíma að ná honum á þann stað sem maður sá að hann gæti farið. Svo gerist það í vetur að hann áttar sig betur á því hvað hann getur, hvernig hann þurfi að haga sér og hvað hann þurfi að gera. Það verður til þess að hann springur gjörsamlega út."
„Við vorum að spila á móti Breiðabliki, KA, Fram og KR á undirbúningstímabilinu og við gerðum hrikalega vel í öllum þessum leikjum. Hann var einn af þeim sem stóðu upp úr í þeim leikjum og Óskar Hrafn sér þar hversu góður hann er."
„Ég heyri svo af því að Njarðvík hafi fengið tilboð frá KR í hann. Ég sagði þá að það væri frábært, mjög góð viðurkenning, en mér datt aldrei í hug að þeir myndu selja hann á þessum tímapunkti þar sem við vorum nýbúnir að gera nýjan samning við hann; bæði hann og Freystein Inga - leikmenn sem ég hef miklar mætur á. Ég sá fyrir mér að þeir gætu verið tvær stórar framtíðarsölur hjá klúbbnum. Þess vegna náðum við að sannfæra þá um að semja, halda áfram hjá okkur og bæta sig, svo kæmi 100% að því að þeir fengju stóra tækifærið annars staðar frá."
„Ég fæ að vita af því að stjórnin sé búin að ákveða að selja Amin eftir bara fjóra leiki á tímabilinu, og færi á miðju tímabili. Það fannst mér skrítið, mér fannst óþarfi að selja hann á þessum tímapunkti því hann átti eftir að gera ógeðslega mikið í viðbót sem hefði getað hækkað verðmiðann ennþá meira og fengið fleiri félög inn í mixið. Ég veit, þar sem ég hef alls konar kontakta, að það hefði verið möguleiki á því að koma honum erlendis eftir tímabilið. Það hjálpaði ekki í baráttunni að selja hann."
„Ég sagði við stjórnina að hún yrði að átta sig á því að það væru að koma inn milljónir, en það myndi líka kosta einhverjar milljónir að fá inn mann í staðinn fyrir Amin. Ég veit að það er enginn svona leikmaður á Íslandi eins og Amin og það eru mjög fáir svona leikmenn í heiminum og kosta líka helvíti mikið. Við fórum í leit, tímapunkturinn var ekki góður, flestir af betri leikmönnunum voru búnir að finna sér lið."
„Það endaði á því að við fengum inn Tom (Thomas Boakye) sem var meira hugsaður sem leikmaður í bakverðina, en gæti líka hjálpað á kantinum. Kantmaðurinn kom eiginlega aldrei, sem við hefðum kannski þurft. Við þurftum að breyta smá breytingar á stílnum, við vorum búnir að slípa okkur vel saman með Amin í liðinu og aðrir fengu þá tækifæri. Freysteinn sem dæmi þurfti að taka stærri skref fram á við og svo vorum við með Viggó Valgeirs á láni frá ÍBV, mjög efnilegur og góður leikmaður, sem fékk stærra hlutverk. Það kom smá rót á hlutina, en mér fannst við samt vinna alveg fínt með þetta. Þú sem þjálfari vilt samt alltaf halda því liði sem þú ert búinn að byggja upp, allavega út tímabilið. Það er ekki oft sem menn eru seldir á miðju tímabili í Lengjudeildinni, mér finnst það skrítið."
Tvö töp gegn heitustu liðum deildarinnar
Önnur varða sem stoppað er við er fyrsta tap Njarðvíkur, tapleikur gegn Þrótti í 18. umferð. Hvernig fannst þér þið höndla þetta tap?
„Þróttararnir voru komnir á svakalegt skrið þarna, maður sá alveg að það var mikið sjálfstraust í liðinu, en við vorum líka með sjálfstraust í okkar liði, ekki búnir að tapa leik í 17 leiki. Það var snúið að halda öllum á tánum og öllum hungruðum. Við fáum á okkur tvö mjög lík mörk á okkur í leiknum út frá hlutum sem við vorum búnir að æfa og ræða dagana á undan, vissum hvað Þróttur kæmi með á borðið. Þróttur er flott lið, alltaf verið hörkuleikir og við vissum hvað við þurftum að gera. Mér fannst við svolítið slegnir þegar við fáum á okkur tvö mörk á stuttum kafla, eitthvað sem er mjög óvanalegt hjá okkur. Svo kemur hálfleikur, við ræðum hlutina og skorum svo strax í byrjun seinni og jöfnum leikinn í 2-2. En eiginlega beint eftir miðjuna skora þeir aftur og berja okkur aftur niður. Þetta gerðist líka 2024, þá varð það oft þannig að við urðum smá litlir í okkur í kjölfarið, ekki margir sem hafa spilað í toppbaráttu. Við töpum þarna fyrsta leiknum, viljum gera betur og næsti leikur útileikur gegn Þór."
„Þar mætum við Þórsurum á útivelli sem var á mjög góðum stað, mikið sjálfstraust í liðinu, Greko kominn inn og Einar Freyr á miðjunni að blómstra. Þetta var allt að smella hjá þeim. Við förum inn í Bogann þar sem Þórsarar höfðu tjaldað öllu til, sóttir gamlir Mjölnismenn og vel látið í sér heyra. Ég sagði við Sigga Höskulds að þetta væri alveg geggjað, maður væri sjálfur til í að spila þessa leiki. Boginn er skemmtilegur þegar það eru læti, en alls ekki jafn skemmtilegur þegar það er bara hljóð. Þá er þetta bara eins og inni í áldós, æfingaleikjabragur. Þórsarar skora mark snemma, mikill meðvindur með þeim. Svo gerist það að Davíð (Helgi) fer niður án þess að boltinn fer út af og Rafa (Rafel Victor) fær færi einn á móti markmanni og skorar þar, við slegnir, svolítið hægri krókur og svo vinstri krókur. Við vorum að reyna samt, reyndum að djöflast og Aron Birkir varði mjög vel í byrjun seinni hálfleiks frá Viggó. Þá hugsaði ég að þetta ætti ekki að detta inn hjá okkur."
„Þarna komu tveir tapleikir á móti liðunum í kringum okkur, við vorum svolítið slegnir. Eftir á að hyggja hafði þetta pottþétt meiri áhrif á leikmennina en ég bjóst við sjálfur."
Algjörlega galið að setja 18 ára stráka í þessa aðstöðu
Njarðvík vann svo Leikni í 20. umferð og var aftur komið í bílstjórasætið í deildinni. Framundan var leikur gegn grönnunum í Njarðvík í næstsíðustu umferð. Tveir leikmenn sem hafa verið nefndir, þeir Davíð Helgi Aronsson og Freysteinn Ingi Guðnason, gátu ekki spilað leikinn þar sem þeir voru í landsliðsverkefni með U19 landsliðinu. Báðir voru þeir á þessum tímapunkti byrjunarliðsmenn hjá Njarðvík.
„Það voru allskonar hlutir sem gerðust í kringum þann leik, mjög skrítnir og ósanngjarnir fyrir mig og félagið. Við erum í því að reyna hjálpa ungum leikmönnum í að verða betri leikmenn. Þessir ungu strákar voru teknir í burtu, látnir taka ákvörðun hvort þeir vildu spila fyrir landsliðið eða liðið sitt. "
Fengu þeir að ráða hvað þeir myndu gera?
„Við fáum meldingu frá Birki mótastjóra hjá KSÍ. Hann segir að það sé landsliðsverkefni framundan hjá U19 og það geti vel verið að það verið að leikmenn hjá okkar yrðu valdir. Hann spurði hvort við myndum vilja fresta þeim leikjum. Ég spurði hvenær þá, hugsaði að það yrði eflaust eitthvað ýtt fram í tímann, en það átti að færa allt fram í tímann. Það átti að færa leik á móti Leikni fram og spila svo á móti Keflavík - þrjá leiki á átta dögum eftir að hafa verið nýbúnir að spila þrjá leiki á níu dögum. Það var ekki hægt að færa leikina aftar af því eftir deildina tæki við umspil."
„Við vorum til í þetta, spila þrjá leiki á átta dögum og bíða svo í þrettán daga eftir lokaumferðinni, fengjum þá að vera með Davíð og Freystein í liðinu. Sagan er lengri og fleiri símtöl tekin, en á endanum vorum við tilbúin í þetta. Við teljum þá að þetta sé að fara í ferli. Ég lét leikmenn vita, ætlaði að gefa þeim helgarfrí þar sem langt yrði í næsta leik. Ég sagði samt við Birki að leikurinn á móti Keflavík væri á Ljósanótt, hann yrði að heyra í þeim. Hann sagði mér að hafa ekki áhyggjur af því, það yrði leyst. En svo fáum við að vita það einhverjum dögum að leikurinn gegn Keflavík stendur óhreyfður og þá kemur upp staða að annað hvort leyfa strákunum að fara út með U19 eða stoppa þá í því. Það er ömurlegt fyrir átján ára stráka að þurfa að velja á milli þess að spila fyrir landsliðið sitt eða spila fyrir liðið sitt í mjög mikilvægum leik upp á tímabilið. Þetta endaði á því að félagið ákvað að leyfa strákunum að velja sjálfir og þeir völdu báðir að fara með landsliðinu sem ég skil bara mjög vel. En að þurfa að setja þá í þessa aðstöðu finnst mér algjörlega galið."
Grátlegt
Keflavík vinnur leikinn og Njarðvík var þá ekki með örlögin í sínum höndum í lokaumferðinni. Liðið þurfti að treysta á jafntefli í leik Þróttar og Þórs og á sama tíma sigra Grindavík. Þór vann Þrótt og Njarðvík sat eftir í 2. sæti.
„Það er eiginlega grátlegt að við höfum ekki náð að klára þetta. En það var hrikalega gaman að sjá hversu vel við gerðum. Við endum með 43 stig, ÍBV vann deildina 2024 á 40 stigum, við skorum 50 mörk í 22 leikjum og fáum 25 á okkur, fæstu mörkin í deildinni. Við erum með færri mörk á okkur heldur en ÍR, og við spiluðum eins og allir vita mjög ólíkan fótbolta. Við spiluðum aðlaðandi bolta, erum mikið með boltann og pressum þegar við missum boltann. Gamla góða sókn er besta vörnin var okkar hugmyndafræði þetta tímabilið."
Ítarleg yfirferð á rauða spjaldi Oumar Diouck
Næst var komið að umspilinu. Njarðvík sem endaði í 2. sætinu fékk granna sína í Keflavík í undanúrslitaeinvígi. Fyrri leikurinn vannst, 2-1, en menn munu minnast leiksins vegna rauða spjaldsins sem Oumar Diouck sótti sér í lok leiks.
„Maður skilur það," segir og Gunnar Heiðar og hlær. Hann var svo spurður hvort að hann sem þjálfari myndi leggja það allt öðruvísi upp í dag ef sama staða kæmi upp. Þannig var mál með vexti að Oumar Diouck, besti leikmaður Njarðvíkur, var kominn með gult spjald í leiknum og á leið í leikbann. En leikbannið hefði ekki tekið gildi fyrr en eftir seinni undanúrslitaleikinn og hann yrði því í banni í úrslitaleiknum. Diouck tók þá ákvörðun að næla sér í gult spjald undir lok leiksins og fór því sjálfkrafa í bann fyrir seinni leikinn í einvíginu.
„Það var ákveðið að draga eitt gult spjald frá þeim sem voru komnir með þrjú eða færri spjöld eftir 22 leiki, ekki hjá mönum sem voru búnir að fara í fyrsta bannið (4 gul spjöld) eða fengið fleiri en það. Oumar var með sex gul spjöld og við vorum búnir að ræða að eitt gult í öðrum hvorum leiknum myndi þýða að hann yrði ekki með í úrslitaleiknum. Það er brútal finnst mér."
„Reynslan í mínu liði að spila stóra leiki er ekki mikil. Þarna var ég með besta leikmanninn minn, markahæsta manninn, og auðvitað vildi ég hafa hann með mér á Laugardalsvelli í risastórum leik. Við förum ekki inn í einhverja leiki til að fá gul spjöld, en það sem gerist, og mig grunar að Keflavík og Sindri Kristinn í marki Keflavíkur hafi vitað þetta, er að Oumar fær mjög ódýrt gult spjald á sig. Boltinn kom inn í teig, Sinrdri grípur hann og er að hlaupa af stað. Hann er að fara í skyndisókn og sér að Oumar er rétt hjá sér. Hann hleypur með boltann á Oumar, og Oumar er að reyna að fara í burtu til að koma í veg fyrir möguleikann á spjaldinu, en Sindri fer í hann, dettur og gerir vel. Oumar fær gula spjaldið."
„Við spjölluðum saman í hálfleik og ég sagði að við myndum ekki gera eitt né neitt, myndum bíða eftir því hvernig leikurinn væri að þróast. Þú sem þjálfari hugsar marga leiki og margar sviðsmyndir fram í tímann, ekki bara inn í þessum leik, heldur líka seinni leikinn. Við tölum um að mögulega látum við verða af þessu þar sem við værum yfir í einvíginu, værum góðir á heimavelli og treystum öllum hinum leikmönnunum til þess að spila, og sérstaklega til að spila eins og ég vildi spila í seinni leiknum. Svo nær hann í þetta seinna gula spjald, fær rautt og ljóst að hann missir af seinni leiknum."
„Auðvitað var leiðinlegt að þurfa að gera þetta, þurfa að fara einhverja svona leið til að eiga möguleika á að spila stærsta leikinn á tímabilinu, algjör hörmung finnst mér. En umræðan sem varð í kringum þetta allt saman fannst mér ótrúlega spes ef ég á að segja alveg eins og er. Þetta er ekki eins og það hafi verið í fyrsta skipti sem leikmaður ákveði hvenær hann tekur út leikbann. Menn hafa alveg gert það áður, og meira að segja í þessu umspili fyrir ári síðan. Mér fannst smá nornaveiðar fara í gang og allt gert vitlaust út af þessari ákvörðun okkar. Ákvörðunin var byggð á því að ég hafði fulla trú á hópnum til að klára seinni leikinn en ég vildi hafa Oumar í úrslitaleiknum. Ég myndi gera það nákvæmlega sama í dag, miðað við það sem ég hef séð og lært með hópnum, þá vissi ég að ég þyrfti alltaf á Oumar Diouck að halda í úrslitaleiknum. Það er eitt að vinna umspilið, en það er annað að vinna úrslitaleikinn."
Það var umræða um hvers vegna Gunnar Heiðar hefði viðurkennt að Diouck hefði fengið viljandi gult spjald og þar með rautt spjald. Reglur FIFA eru mjög harðar varðandi viljandi spjöld, strangt til tekið þarf að dæma menn í tveggja leikja bann ef þeir viðurkenna að hafa viljandi fengið spjald. Hugsaðir þú að þú eftir á að þú hefðir ekki átt að viðurkenna að það var ákveðið að hann myndi fá seinna gula spjaldið?
„Ég játaði þessu ekki, ég ýjaði vissulega að því að hann væri mögulega að ná sér í gult spjald til að eiga möguleika á því að spila mögulega úrslitaleikinn. Það er annað mál, og allir sjá hvað er í gangi. Það var vísað í tilfelli með Sergio Ramos, enginn vissi um það nema út af einhverjum nornaveiðum, þar fer Ramos sjálfur í viðtal eftir leik og viðurkennir að hafa fengið viljandi spjald. Oumar fékk sjálfur þetta gula spjald. Ég get alveg sagt honum alls konar hluti, en það er ekki ég sem geri þá. Það stendur að ef forráðamaður eða þjálfari játar, en ég játaði ekki neitt, ég ýjaði að einhverju. Ég var búinn að stilla upp lögfræðingum sem voru tilbúnir að fara í þennan slag ef KSÍ myndu vilja fara í það (með því að dæma Oumar Diouck í tveggja leikja bann)."
Áður en lengra er haldið er best að rifja upp hvað Gunnar Heiðar sagði nákvæmlega í viðtali við Fótbolta.net eftir að Oumar Diouck fékk rautt spjald.
„Menn þurfa bara að vinna með það sem þeir hafa. Hann fær frekar ódýrt gult spjald í fyrri hálfleik og þá vissum við það að hann yrði í banni í úrslitaleiknum. Seinna gula spjaldið þá er hann klárlega að reyna þetta til þess að gefa sér séns á að spila úrslitaleikinn ef við komumst þangað. Þetta er leiðinlegt að þurfa að fara í einhvern svona leik til þess að mögulega spila úrslitaleikinn. En ég er bara virkilega ánægður með Oumar og hann hefur verið fyrir mér besti leikmaðurinn í þessu móti," sagði Gunnar Heiðar við Sverri Örn Einarsson.
Þannig þú upplifir það ekki þannig að þú hafir viðurkennt að hann hafi viljandi fengið gult spjald?
„Ég segi ekki 'já, hann var að reyna gera þetta'. Ég sagði minnir mig 'ég held að allir sjái það að hann hafi verið að reyna fá spjald til þess að eiga möguleika á að spila úrslitaleikinn', það er tvennt ólíkt finnst mér."
Heldur þú að umræðan og kannski ákvörðunin sjálf að taka út bannið í seinni leiknum hafi kveikt í Keflvíkingum?
„Setjum þetta dæmi upp þannig að grannalið, þar sem er rígur, Þór og KA sem dæmi, væru að fara mætast fjórum sinnum á tímabili, þá veistu að það verða alltaf brjálaðir leikir og allt í gangi. Þetta er eins þegar Njarðvík og Keflavík mætast. Þetta er einn af fáum nágrannaslögum þar sem er svona mikil hefð fyrir ríg eins og hjá Keflavík og Njarðvík. Njarðvík hefur alltaf verið litli bróðirinn eins og hægt er að sjá með því að horfa í síðustu 35 ár, Njarðvík ekki oft í Lengjudeildinni. Keflavík hefur unnið allt, fá allt frá bæjarstjórninni, eru með frábæra aðstöðu og á meðan erum við með tvo klefa. Fyrir okkur að vera komnir á þann stað í fyrsta skiptið í sögunni að vera hærra en þeir í deildinni, og hafandi unnið þá fyrr um sumarið sem var í fyrsta sinn í 80 ára sögu Njarðvíkur, það sýnir hversu mikill Davíð á móti Golíat slagur þetta er. Við vorum komnir í þá stöðu að geta farið að rífa kjaft gegn stóra bróður."
„Þeir finna örugglega eitthvað hjá sér þegar við tökum þessa ákvörðun, en það var ekki gert til að kveikja eitthvað í þeim, hugsunin var að eiga möguleika á því að spila honum í úrslitaleiknum. Keflvíkingar búa allir í Reykjanesbæ, fara í sína vinnu og allt það og maður getur rétt ímyndað sér hvað gömlu karlarnir voru að nefna við þá. Auðvitað espast allir upp í kringum þetta. Það var talað um fyrr mót að þeir og Fylkir ættu að rústa mótinu, okkur var spáð 6. sætinu. Þeir höfðu verði svolítið ósannfærandi og jójó lið í gegnum tímabilið. Þetta var kannski einhver olía á eldinn, en ég held að rígurinn hafi ýtt meira undir þetta, þeir sáu að þeir voru einum leik frá því að missa Bestu deildar sætið til litla bróður í Njarðvík."
Draumamark og umdeild óbein aukaspyrna
Njarðvík vann 1-2 í Keflavík en Keflvíkingar unnu seinni leikinn í Njarðvík. Er einhver eftirsjá með seinni leikinn?
„Við förum inn í leikinn með plan, hvernig við ætluðum að spila. Þau sem horfðu á leikinn sáu að við vorum að spila virkilega vel, vorum með þetta í algjörri teskeið. Við vissum að ef við myndum halda markinu hreinu, þá færum við á Laugardalsvöll. Við vorum því ekki eins sókndjarfir og áður. Keflavík átti eitt skot að marki í fyrri hálfleik, það fór yfir, þetta var því allt að ganga upp hjá okkur."
„Svo komum við út í seinni hálfleik, þar kemur einbeitingarleysi í tvígang þar sem við komum ekki boltanum í burtu og hann dettur fyrir króatíska framherjann og hann klippir boltann viðstöðulaust upp í skeytin, algjört draumamark. Þá fá þeir augnablikið með sér og eins og hefur gerst áður hjá okkur, fáum vinstri krók í okkur og missum aðeins jafnvægið, þeir komast frekar auðveldlega í sóknarstöður, náum ekki að klukka þá nægilega vel. Við komumst svo aftur aðeins inn í þetta rétt áður en þeir skora annað markið. Þá erum við komnir í skyndisókn, Freysi er með boltann og honum er hrint niður við vítateiginn, augljóst brot en ekkert dæmt. Þeir fara upp og úr því kemur þessi umtalaða óbeina aukaspyrna."
„Sem dómari þarftu að vera helvíti viss í þinni sök að dæma þetta. Ég stóð þannig að ég sá þetta ekki nægilega vel og ég gat ekki mótmælt neitt, en ég fékk að sjá þetta eftir leik. Grjóni (Sigurjón Már) sem sparkar boltanum er aldrei að horfa á Aron (Snæ markmann) eða neitt svoleiðis, hann er að gefa alltof fastan bolta til þess að vera einhver sending aftur á markmann, það fastur að Aron getur ekki sparkað í boltann. Hann sagði við mig að hann hefði verið að reyna tækla boltann í hornspyrnu. Þetta er auðvitað matsatriði, ef dómarinn sér þetta svona þá dæmir hann bara, mér finnst það vera þannig og óbein aukaspyrna dæmd. Stefan Ljubicic gerir þetta svo vel, setur boltann alveg upp í skeytin eftir aukaspyrnuna, þeir komnir með eins marks forskot."
„Þá breytum við aðeins til, förum meira á þá og fengum alveg nægilega mörg og góð tækifæri til að jafna einvígið. Það snýst ekkert um hvort Oumar spilaði eða ekki. Við vorum bara ekki nægilega klínískari. Það er kannski af því að liðið er ungt og var að spila svona stóran leik í fyrsta sinn. Þá stundum ná menn ekki sínu besta fram í svona augnablikum, en ég veit að menn munu læra mikið af þessu tímabil."
Frábært afrek fyrir klúbbinn
Til að súmmera þetta upp, þá eru þetta þessu stóru leikir seint á tímabilinu sem fara með möguleikann á sæti í Bestu deildinni. Þú sérð þetta þannig að þetta sé tækifæri fyrir menn til að læra af þessu?
„Ég verð að gera það, eins mikið og mig hefði langð að vinna þessa leiki, og bara að hafa unnið einn af þessum leikjum, því þá væri þetta komið. Þetta risastóra markmið sem ég setti mér fyrir rúmum tveimur árum að koma þessum klúbbi upp í Bestu deildina hefði þá gengið upp á einhvern ótrúlegan hátt. Það hefði verið ógeðslega sætt að ná því og snúa svona klúbbi mikið við á stuttum tíma. Það hefði verið rosalegt afrek. Það gekk ekki upp, en við gerðum rosalega mikið gott, mikið jákvætt, spiluðum á mörgum ungum strákum, strákum sem eru af svæðinu. Þetta var frábært afrek fyrir klúbbinn, vorum einu marki frá því að fara beint upp í Bestu deildina."
„Svo er eitt í þessu, það er þetta umspil. Auðvitað vita allir reglurnar fyrirfram og fyrir óháða er algjör snilld að fá fullt af stórum leikjum í restina, þar sem ein mistök geta verið munurinn á því að fara upp eða ekki og þau geta skilgreint heilt tímabil, 22 leiki. Ég hefði alltaf frekar spilað þetta eins og í Svíþjóð og Noregi, að þriðja efsta sætið í 1. deild mætir þriðja neðsta sæti í efstu deild um eitt sæti í efstu deild á næsta tímabili, heima og að heiman. Það væri raunsærra í stærðargráðu og mun á liðum. Þetta er bara tólf liða deild, liðið sem fór upp í Bestu deildina með Þór er markatölunni frá miðri deild, 6. sætinu. Keflavík var ósannfærandi allt tímabilið, fá svo einhver undramörk með sér, fá sjálfstraust og enda á að vinna þetta., það finnst mér helvíti brútal," segir Gunnar Heiðar sem er án starfs og hungraður í að halda áfram að þjálfa.
Athugasemdir