Tottenham í bílstjórasætinu um Akanji - Chelsea undirbýr tilboð - Verður Rogers arftaki Elliott hjá Liverpool?
   sun 31. ágúst 2025 08:40
Ívan Guðjón Baldursson
Mikilvægir hlekkir framlengja við Þór/KA
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hulda Ósk Jónsdóttir og Agnes Birta Stefánsdóttir eru búnar að framlengja við Þór/KA og eru núna samningsbundnar félaginu út keppnistímabilið 2027.

Þær eru báðar fæddar 1997 og hafa verið mikilvægir hlekkir í byrjunarliðinu á tímabilinu.

Hulda Ósk er á sínu tíunda ári með Þór/KA og hefur hún spilað 258 keppnisleiki fyrir félagið. Hún leikur á hægri kanti og hefur verið dugleg að skora og leggja upp á ferlinum.

„Það er frábært fyrir okkur í Þór/KA að Hulda Ósk skrifi undir nýjan samning. Hulda er einn af þessum leikmönnum sem hefur varðað leið Þór/KA í fjöldamörg ár. Ólíkindatól með boltann og gefur liðinu alltaf einhverja spennandi kosti í sókninni. Gríðarleg reynsla, hæfileikar og frábær karakter sem á klárlega eftir að hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum á næstunni,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þórs/KA um Huldu Ósk.

Agnes Birta er miðvörður sem er uppalin hjá Þór og hefur leikið fyrir Þór/KA stærstan hluta ferilsins. Hún á 104 keppnisleiki að baki fyrir félagið, en hún hefur einnig stoppað við hjá Tindastóli og Hömrunum á ferlinum auk þess að hafa misst af hluta sumars í fjögur ár þegar hún lék í bandaríska háskólaboltanum.

„Agnes Birta er jaxl sem gefur aldrei neitt eftir. Það er mjög gott fyrir Þór/KA að hún skrifi undir nýjan samning og við njótum því krafta hennar áfram. Gefur sig alltaf alla í leiki og æfingar og verður bara betri með hverjum deginum. Hún er klárlega ein af þessum stoðum sem eru að styrkjast undir þeirri vegferð sem Þór/KA ætlar sér að feta áfram í átt að settum markmiðum,“ segir Jóhann Kristinn um Agnesi.

Þór/KA er í fimmta sæti í Bestu deild kvenna sem stendur, með 21 stig eftir 15 umferðir.
Athugasemdir