Man Utd vill Vlahovic - Al Nassr vill Casemiro - Real Madrid vill Van de ven
   fös 19. september 2025 15:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sigurður Arnar: Önnur lið geta prísað sig sæl að gúmmíið á gervigrasið tafðist svona
Sigurður Arnar er í lykilhlutverki hjá ÍBV.
Sigurður Arnar er í lykilhlutverki hjá ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik ÍBV og Aftureldingar í Mosó.
Úr leik ÍBV og Aftureldingar í Mosó.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV var spáð botnsæti deildarinnar fyrir tímabilið.
ÍBV var spáð botnsæti deildarinnar fyrir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gervigrasið á Hásteinsvelli var klárt eftir tapið gegn Aftureldingu í júní.
Gervigrasið á Hásteinsvelli var klárt eftir tapið gegn Aftureldingu í júní.
Mynd: ÍBV
Á sunnudag tekur ÍBV á móti Aftureldingu í fyrstu umferð neðri hlutans í Bestu deildinni. ÍBV situr í 7. sæti deildarinnar, átta stigum fyrir ofan Aftureldingu sem er á botnsætinu þegar fimmtán stig eru í pottinum. Afturelding vann fyrri leik liðanna í Eyjum á þessu tímabili, eini útsigur Mosfellinga til þessa í mótinu og jafnframt síðasti sigurleikur liðsins.

Fótbolti.net ræddi við Eyjamanninn Sigurð Arnar Magnússon í aðdraganda leiksins.

Slökktu síðast á sér í fimm mínútur
„Leikurinn leggst vel í okkur, við höfum verið á fínu skriði, það er sjálfstraust í liðinu og við hlökkum til að fara út á völl. Við þurfum að mæta vel stemmdir í þennan leik og halda einbeitingu allan leikinn."

„Afturelding er vel spilandi, þeir eru góðir á boltann og með vopn sem geta meitt hvaða lið sem er ef menn eru ekki á tánum. Við sáum það fyrr í sumar þar sem við vorum 1-0 yfir og með nokkuð föst tök á leiknum en slökktum á okkur í fimm mínútur og allt í einu vorum við komnir 2-1 undir. Ef við erum á tánum og náum okkar leik þá er ég samt alltaf sigurviss, alveg sama hver andstæðingurinn er."


Svekkelsi en horfa núna í að klára 7. sætið
ÍBV var ekki langt frá sigri gegn Breiðabliki á mánudag, ÍBV komst yfir í leiknum en Breiðablik náði að jafna í seinni hálfleik og leikurinn endaði með jafntefli. Ef ÍBV hefði unnið hefði liðið farið upp í efri hlutann og verið öruggt um að falla ekki úr deildinni þegar fimm umferðir eru eftir.

„Það var klárlega svekkelsi að klára ekki þann leik. Áttum samt þegar öllu er á botninn hvolft ekki meira skilið en stig þar. Við náðum okkar leik ekki upp og þjáðumst fullmikið þó við höfum gert það vel. Þetta hefði svo sem geta dottið öðru hvoru megin en stig á hvort lið var líklega sanngjarnt. Það var svekkjandi að ná ekki topp sex sem hafði verið markmiðið í allt sumar og maður horfir í nokkra leiki þar sem manni fannst maður eiga að taka fleiri stig úr. Deildin er bara mjög jöfn og líklega mörg lið sem gætu verið hærra í töflunni með ef og hefði. Við höfum svo sem ekki sest niður og rætt markmið fyrir neðri hlutann. Ég reikna með að það sé bara gamla tuggan: fara í hvern leik til að vinna hann. Mér þætti gaman að enda efstir í neðri hlutanum og hirða þann titil."

„Annars værum við að keppa um Evrópusæti"
Hvernig líður Sigurði með tímabilið til þessa?

„Mér líður bara vel með tímabilið til þessa. Þó að við höfum ekki náð markmiðinu þá erum við búnir að spila þokkalega, og gefið leik í nánast öllum leikjum tímabilsins. Svo geta önnur lið í deildinni prísað sig sæl að gúmmíið á gervigrasið tafðist svona því annars værum við að keppa um Evrópusæti núna. Svo segir allavega tölfræðin, þó að það sé skemmtilegra að spila á grasi."

ÍBV spilaði fyrstu heimaleiki sína á Þórsvelli á meðan beðið var eftir því að gervigrasið á Hásteinsvelli yrði klárt. ÍBV tapaði þremur leikjum á Þórsvelli, vann tvo og gerði eitt jafntefli. Það varð töf á því að gúmmíið, uppfyllingarefnið á gervigrasið, kæmi til Vestmannaeyja. Eftir að ÍBV fór á Hásteinsvöll hefur ÍBV fengið 13 af 15 mögulegum stigum á heimavelli.

Leikur ÍBV og Aftureldingar hefst klukkan 16:00 á sunnudag og fer fram á Hásteinsvelli.

„Það hefði mikla þýðingu að sjá sem flesta mæta á völlinn á sunnudaginn og hvet ég alla til þess að láta sjá sig. Við þurfum á fólkinu og stuðningi að halda ef við ætlum að enda efstir í efri hlutanum," segir Sigurður.
Athugasemdir