Alexis Mac Allister, leikmaður Liverpool, segist hæst ánægður með að félagið hafi landað sænska framherjanum Alexander Isak, en að leikmenn hafi verið orðnir þreyttir á sögunni endalausu.
Sagan um Isak hófst af alvöru í lok júlí. Isak neitaði að fara í æfingaferð með Newcastle og þá lagði Liverpool fram fyrsta tilboðið nokkrum dögum síðar.
Newcastle hafnaði því um leið og beið Liverpool með að leggja fram nýtt tilboð fram að lokadegi gluggans sem var samþykkt og varð hann þar með dýrasti leikmaður í sögu Liverpool.
Mac Allister er ánægður með að félagið landaði Isak, en að sagan hafi verið þreytandi.
„Í byrjun var þetta kannski rosalega stórt en eftir smá tíma varð þetta svolítið þreytandi því þetta tók svo langan tíma!“ sagði Mac Allister við TNT.
„Kannski er hitt félagið óánægt, en svona er fótboltinn. Þegar allt kemur til alls fengu þeir fullt af peningum, þannig þetta reyndist gott fyrir báða aðila.“
„Þetta er líka gott fyrir hann því þetta er það sem hann vildi og við erum svo ótrúlega ánægðir að fá hann hingað. Við þurftum líka nokkrum sinnum að þjást gegn honum! sagði hann í lokin.
Athugasemdir