Man Utd vill Vlahovic - Al Nassr vill Casemiro - Real Madrid vill Van de ven
   fös 19. september 2025 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Allir vita það en hin liðin vilja ekki viðurkenna það"
Óskar hefur skorað þrjú mörk í átta deildarleikjum eftir komuna í Víking.
Óskar hefur skorað þrjú mörk í átta deildarleikjum eftir komuna í Víking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stórsigur gegn KR í síðasta leik.
Stórsigur gegn KR í síðasta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það er svo ógeðslega gaman að vera mættur aftur til Íslands og spila fótbolta. Það skemmtilegasta sem ég geri er að spila fótbolta á þessu landi.'
'Það er svo ógeðslega gaman að vera mættur aftur til Íslands og spila fótbolta. Það skemmtilegasta sem ég geri er að spila fótbolta á þessu landi.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Topplið Bestu deildarinnar, Víkingur, tekur á móti Fram á sunnudag í fyrstu umferð efri hlutans. Víkingur er með tveggja stiga forskot á Val og Stjörnuna og þrettán stig eru niður í Fram situr í sjötta sæti.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 og fer fram á Víkingsvelli. Fótbolti.net ræddi við Óskar Borgþórsson, leikmann Víkings, í aðdraganda leiksins.

„Fyrsti leikur í úrslitakeppninni og við erum ótrúlega spenntir. Framarar eru með gott lið og góðan þjálfara og við þurfum að spila okkar besta leik til þess að vinna þann leik. Fram er líka með góða leikmenn með gæði sem við þurfum að stoppa," segir Óskar.

Víkingur vann 0-7 sigur á KR í síðustu umferð. Þurfti að jarðtengja menn eftir þann leik?

„Virkilega sterkur útisigur í sóðasta leik á móti KR þar sem leikplanið heppnaðist fullkomlega. En annars erum við alltaf vel jarðtengdir."

Ákváðu að gleyma leiknum og einbeita sér að Íslandsmeistaratitlinum
Víkingur hefur spilað vel eftir erfitt tap gegn Bröndby í Danmörku þar sem danska liðið kom til baka og vann stórsigur í Kaupmannahöfn og vann upp forskot Víkings frá fyrri leiknum. Víkingur hefur fengið tíu stig af síðustu tólf mögulegum. Var eitthvað gert eða sagt eftir þann leik?

„Það var náttúrulega smá þungt og mikið sjokk að tapa þessum Bröndby leik svona stórt. En eftir þann leik að þá var bara markmiðið að taka einn leik í einu og fyrsti leikur eftir það var erfiður útileikur á Skaganum sem var mikilvægt að vinna eftir svona stórt tap. Við ákváðum bara að gleyma þessum leik og einbeita okkur 100% að vinna titilinn."

„Skemmtilegasta sem ég geri er að spila fótbolta á þessu landi"
Óskar var keyptur til Víkings frá norska félaginu Sogndal í glugganum. Hvernig er að vera mættur aftur til Íslands og er hann sáttur með sitt framlag til þessa?

„Það er svo ógeðslega gaman að vera mættur aftur til Íslands og spila fótbolta. Það skemmtilegasta sem ég geri er að spila fótbolta á þessu landi. Mér finnst mér sjálfum hafa gengið vel eftir að ég kom, þurfti aðeins að komast í gang og fá leiki sem var mjög mikilvægt eftir að hafa verið mikið a bekknum í Noregi."

Langbestu stuðningsmenn á landinu
Stuðningsmenn Víkings fjölmenntu í Vesturbænum í síðustu umferð og sungu um Skara Boggu. Hvaða þýðingu hefði það fyrir Víkingsliðið að fá öflugan stuðning gegn Fram?

„Það er náttúrulega búinn að vera sturlaður stuðningur frá stuðningsmönnunum okkar í allt sumar og geðveikt að spila fyrir framan þá. Þeir eru syngjandi stanslaust alla leikina og ótrúlega margir sem mæta á alla leiki. Þannig ég er 100% á því að það haldi áfram og að við fáum geggjaðan stuðning á móti Fram. Því við erum með LANGbestu stuðningsmennina á landinu, allir vita það en hin liðin vilja ekki viðurkenna það," segir Óskar.
Athugasemdir
banner