Amorim með áhugaverða klásúlu - Man City sýnir Mainoo áhuga - Juve vill Silva - Liverpool gæti gert tilboð í Araujo
   fim 18. september 2025 18:20
Kári Snorrason
Vongóðir fyrir undanúrslitaleikinn - „Einhver tóm hólf þarna í bikarhillunni í Ólafsvík“
Ingvar Freyr Þorsteinsson, fyrirliði Víkings Ó.
Ingvar Freyr Þorsteinsson, fyrirliði Víkings Ó.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli.
Úrslitaleikurinn fer fram á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur Ólafsvík mætir Gróttu í undanúrslitum Fótbolta.net bikarsins á laugardag. Bæði lið léku í 2. deild í sumar, fyrri viðureign liðanna endaði með jafntefli en í þeim síðari fór Grótta með sigur af hólmi.

Fótbolti.net ræddi við Ingvar Frey Þorsteinsson fyrirliða Víkings Ólafsvíkur fyrir undanúrslitaleikinn.

„Mér líst mjög vel á það að mæta þeim aftur. Báðir leikirnir við Gróttu í sumar hafa verið fjörugir og skemmtilegir leikir þrátt fyrir úrslit í fyrstu tveimur. Gaman að fá séns um helgina til þess að bæta fyrir þessi úrslit fyrr í sumar. Ég býst við hörkuleik, tvo góð lið að mætast sem vilja spila á háu tempói. Fyrri leikirnir hafa verið mikið fram og til baka og mikið af mörkum svo ég býst við skemmtilegum og hröðum leik.“

Víkingur Ó. endaði í 8. sæti í 2. deildinni í sumar. Ingvar segir liðið hafa horft til Fótbolta.net bikarsins þegar úrslitin í deildinni voru ljós.

„Við þurfum að mæta bara vel gíraðir í þennan leik með hátt orkustig og spila okkar leik þá verðum við mættir á Laugardalsvöll. Það er hrikalega gaman að eiga séns á að ljúka tímabilinu á Laugardalsvelli. Við duttum frekar snemma út úr baráttunni í deildinni og lítið til að spila upp á, þannig við höfum svolítið verið að líta í þennan leik og beðið spenntir eftir undanúrslitum.“

Ingvar segir bikarhólfin í Ólafsvík geta tekið við nýjum bikar.

„Stefnan hefur alltaf verið að komast alla leið í þessum bikar og enda með hann heima. Það eru einhver tóm hólf þarna í bikarhillunni í Ólafsvík þar sem bikarinn kæmi sér vel fyrir, kominn tími til að fylla aðeins upp í hilluna.“

Leikurinn hefst klukkan 14:00 á Vivaldivellinum á laugardag og tryggir sigurliðið sér farseðil á Laugardalsvöll í úrslitaleik Fótbolta.net bikarsins.
Athugasemdir
banner
banner