Víkingur Ólafsvík mætir Gróttu í undanúrslitum Fótbolta.net bikarsins á laugardag. Bæði lið léku í 2. deild í sumar, fyrri viðureign liðanna endaði með jafntefli en í þeim síðari fór Grótta með sigur af hólmi.
Fótbolti.net ræddi við Ingvar Frey Þorsteinsson fyrirliða Víkings Ólafsvíkur fyrir undanúrslitaleikinn.
Fótbolti.net ræddi við Ingvar Frey Þorsteinsson fyrirliða Víkings Ólafsvíkur fyrir undanúrslitaleikinn.
„Mér líst mjög vel á það að mæta þeim aftur. Báðir leikirnir við Gróttu í sumar hafa verið fjörugir og skemmtilegir leikir þrátt fyrir úrslit í fyrstu tveimur. Gaman að fá séns um helgina til þess að bæta fyrir þessi úrslit fyrr í sumar. Ég býst við hörkuleik, tvo góð lið að mætast sem vilja spila á háu tempói. Fyrri leikirnir hafa verið mikið fram og til baka og mikið af mörkum svo ég býst við skemmtilegum og hröðum leik.“
Víkingur Ó. endaði í 8. sæti í 2. deildinni í sumar. Ingvar segir liðið hafa horft til Fótbolta.net bikarsins þegar úrslitin í deildinni voru ljós.
„Við þurfum að mæta bara vel gíraðir í þennan leik með hátt orkustig og spila okkar leik þá verðum við mættir á Laugardalsvöll. Það er hrikalega gaman að eiga séns á að ljúka tímabilinu á Laugardalsvelli. Við duttum frekar snemma út úr baráttunni í deildinni og lítið til að spila upp á, þannig við höfum svolítið verið að líta í þennan leik og beðið spenntir eftir undanúrslitum.“
Ingvar segir bikarhólfin í Ólafsvík geta tekið við nýjum bikar.
„Stefnan hefur alltaf verið að komast alla leið í þessum bikar og enda með hann heima. Það eru einhver tóm hólf þarna í bikarhillunni í Ólafsvík þar sem bikarinn kæmi sér vel fyrir, kominn tími til að fylla aðeins upp í hilluna.“
Leikurinn hefst klukkan 14:00 á Vivaldivellinum á laugardag og tryggir sigurliðið sér farseðil á Laugardalsvöll í úrslitaleik Fótbolta.net bikarsins.
Athugasemdir