Liverpool 2 - 1 Everton
1-0 Ryan Gravenberch ('10 )
2-0 Hugo Ekitike ('29 )
2-1 Idrissa Gueye ('58 )
1-0 Ryan Gravenberch ('10 )
2-0 Hugo Ekitike ('29 )
2-1 Idrissa Gueye ('58 )
Englandsmeistarar Liverpool unnu nágranna sína í Everton, 2-1, í 5. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Anfield í dag. Liverpool er áfram með fullt hús stiga á toppnum.
Allir sigrar Liverpool fram að þessum leik höfðu komið eftir mörk í lok leikja.
Það varð breyting á því gegn Everton. Hollenski miðjumaðurinn Ryan Gravenberch skoraði frábært mark á 10. mínútu. Mohamed Salah átti hnitmiðaða fyrirgjöf inn á teiginn sem Gravenberch hljóp á, lyfti boltanum í fyrsta yfir Jordan Pickford og í netið. EInstaklega vel gert hjá Hollendingnum sem var að gera annað deildarmark sitt á tímabilinu.
Nítján mínútum síðar bætti franski sóknarmaðurinn Hugo Ekitike við öðru marki Liverpool. Gravenberch sendi hann í gegn á móti Pickford og var eftirleikurinn auðveldur. Ekitike að skora sitt þriðja mark í deildinni og að skapa alvöru hausverk fyrir Arne Slot, enda mikil samkeppni um framherjastöðuna.
Idrissa Gana Gueye fékk frábært færi til að minnka muninn undir lok hálfleiksins. Hann fékk boltann í teignum, en náði ekki að setja nægilega mikinn kraft í skotið og því auðvelt fyrir Alisson í markinu.
Staðan í hálfleik 2-0 fyrir heimamönnum sem gátu komist í þriggja marka forystu á 56. mínútu er Gravenberch kom löngum bolta út á Salah. Fyrsta snertingin leit vel út, en skot hans var laust og beint á Pickford.
Liverpool hefur verið í erfiðleikum með að halda í tveggja marka forystu á tímabilinu og kom smá skjálfti í liðið er Gueye minnkaði muninn á 58. mínútu.
Jack Grealish átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri og á fjær á Iliman Ndiaye sem lagði hann fullkomlega upp fyrir Gueye sem þrumaði honum efst í vinstra hornið. Frábært mark, en Milos Kerkez hefði getað gert betur.
Alexander Isak og Florian Wirtz, tveir dýrustu leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar, komu inn af bekknum í síðari hálfleik og fékk sá síðarnefndi dauðafæri til að koma Liverpool aftur í tveggja marka forystu, en fór illa að ráði sínu.
Salah kom með frábæra stungusendingu eftir skyndisókn og náði Wirtz að leika hressilega á Vitalii Mykolenko, en hann var allt of lengi að skjóta og tókst James Tarkowski að bjarga á síðustu stundu með glæsilegri tæklingu.
Spennan mikil á Anfield og sótt á báðum endum vallarins, en Liverpool þó líklegra til að bæta við þriðja markinu. Það kom aldrei og var það Liverpool sem fagnaði fimmta sigri sínum af fimm mögulegum.
Liverpool er á toppnum með fullt hús stiga en Everton með 7 stig í 7. sæti.
Athugasemdir