Grótta tekur á móti Víking Ólafsvík í undanúrslitum Fótbolti.net bikarsins á morgun. Liðið lenti í öðru sæti í 2. deildinni og tryggði sér upp í Lengjudeildina nýverið. Fyrirliði liðsins segir þeir vilja klára tímabilið með stæl og fara alla leið í bikarnum.
Fótbolti.net ræddi við Kristófer Melsted fyrirliða Gróttu fyrir undanúrslitaleikinn.
Fótbolti.net ræddi við Kristófer Melsted fyrirliða Gróttu fyrir undanúrslitaleikinn.
„Þetta verður hörkuleikur. Við eigum von á erfiðum leik gegn Ólsurum. Þeir eru líkamlega sterkir og skipulagðir en við viljum setja okkar svip á leikinn, spila hratt og beinskeytt og halda okkur við leikskipulagið sem hefur skilað okkur góðum úrslitum í sumar. Þeir hafa verið meira með boltann í leikjunum í sumar, en við höfum sýnt að við getum refsað. Þetta verður barátta frá fyrstu mínútu.“
Kristófer telur að leikurinn muni ráðast á smáatriðum og segir að reynsla Rúnars Páls, þjálfara Gróttu, muni koma að góðum notum.
„Við þurfum við að vera agaðir, halda fókus allan leikinn og nýta færin sem við fáum. Við vitum að þetta mun ráðast á smáatriðum, þannig að allir þurfa að vera hundrað prósent klárir. Svo er líka ómetanlegt að hafa þjálfara eins og Rúnar Pál, hann hefur gríðarlega reynslu sem nýtist okkur í svona leikjum.“
Grótta tryggði sér upp í Lengjudeildina á dögunum og vilja kóróna gott tímabil.
„Núna viljum við bara klára tímabilið með stæl. Að fá lokaslag á Laugardalsvelli væri draumur og frábær endir á sumrinu. Það gerir okkur bara enn ákveðnari í að vinna þennan bikar. Það væri stórt fyrir félagið, leikmenn og stuðningsmenn.“
Flautað verður til leiks klukkan 14:00 á Vivaldivellinum á laugardag. Sigurliðið tryggir sér farseðil á Laugardalsvöll í úrslitaleik Fótbolta.net bikarsins.
Athugasemdir