Norski sóknarmaðurinn Jörgen Strand Larsen skrifaði undir nýjan samning við enska úrvalsdeildarfélagið Wolves í gær eftir miklar vangaveltur um framtíð hans.
Larsen kom til Wolves á láni frá Celta Vigo á síðasta ári og stóð sig frábærlega.
Hann skoraði 14 deildarmörk er Wolves tókst að tryggja áframhaldandi veru í deildinni.
Í sumar keyptu Úlfarnir Larsen frá Celta Vigo, en það kom upp heillandi tilboð á lokadögum gluggans frá Newcastle.
Larsen vildi fara til Newcastle en ákvað að gera þetta fagmannlega. Hann þrýsti ekki á félagið til að selja og fór svo að hann hélt kyrru fyrir, en Newcastle fékk Nick Woltemade og Yoane Wissa til að fylla í skörð Alexander Isak og Callum Wilson.
Eftir að glugginn lokaði fóru Úlfarnir beint í það að gera nýjan langtímasamning við Larsen og segist hann ánægður í Wolverhampton.
„Allir fótboltamenn eru með markmið og drauma í lífinu, og vilja taka stærri skref. Mér hefur liðið ótrúlega vel hér hjá Wolves, þannig þetta var svolítið snúið, en ég verð áfram glaður að vera hér. Það ég hafi skrifað undir nýjan samning sýnir skuldbindingu mína um að spila með félaginu næstu árin,“ sagði Strand Larsen.
„Ég er ánægður hér. Ég elska alla vini mína og liðsfélaga, stuðningsmennirnir eru frábærir og við viljum gera betur í ár en í fyrra. Við þurfum að byrja að vinna leiki og komast yfir þessa slæmu byrjun.“
Larsen hefur misst af nokkrum leikjum vegna meiðsla, en er nú klár í slaginn.
„Síðustu vikur hafa verið erfiðar bæði andlega og líkamlega. Ég meiddist eftir smá spark sem reyndist verra en það leit út fyrir og var það auðvitað mjög pirrandi
„Þetta er svo lítill hluti af líkamanum sem veldur svo ótrúlega miklum sársauka. Þetta er allt að koma til þannig sjáum hvað ég get spilað margar mínútur um helgina, en vonandi eins margar og möguleiki er á,“ sagði Norðmaðurinn.
Athugasemdir