Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   lau 03. ágúst 2019 10:00
Magnús Már Einarsson
Spáin fyrir enska - 13. sæti
Aston Villa endurheimti sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni í vor.
Aston Villa endurheimti sæti sitt í ensku úrvalsdeildinni í vor.
Mynd: Getty Images
Jack Grealish.
Jack Grealish.
Mynd: Getty Images
Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason spilar með Aston Villa
Íslenski landsliðsmaðurinn Birkir Bjarnason spilar með Aston Villa
Mynd: Getty Images
Dean Smith er við stjórnvölinn hjá Aston Villa.
Dean Smith er við stjórnvölinn hjá Aston Villa.
Mynd: Getty Images
Tyrone Mings.
Tyrone Mings.
Mynd: Getty Images
Það styttist í að enska úrvalsdeildin hefjist á nýjan leik. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 13. sætinu eru nýliðar Aston Villa.

Um liðið: Aston Villa er komið aftur í deild þeirra bestu eftir þriggja ára dvöl í Championship deildinni. Aston Villa er sögufrægt félag og hefur blásið í herlúðra fyrir endurkomuna í ensku úrvalsdeildina. Eigendur félagsins hafa gefið mikið fjármagn til leikmannakaupa og allt kapp verður lagt á að festa sig aftur í sessi í úrvalsdeildinni.

Staða á síðasta tímabili: 3. sæti í ensku Championship deildinni.

Stjórinn: Dean Smith tók við Aston Villa af Steve Bruce í október í fyrra þegar liðið var í fimmtánda sæti í Championship deildinni. Smith vann einungis þrjá af fimmtán leikjum frá nóvember fram í febrúar en þá fór lið Aston Villa heldur betur í gang og endaði á að fara upp eftir sigur á Derby í úrslitum umspilsins. Hinn 48 ára gamli Smith fær nú að spreyta sig í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa stýrt Walsall og Brentford í neðri deildunum.

Styrkleikar: Nýliðar Aston Villa hafa slegið öllum öðrum liðum í ensku úrvalsdeildinni við þegar kemur að fjárhæðum í leikmannakaup í sumar. Félagið hefur bætt fjölmörgum leikmönnum við hópinn og ljóst er að liðið er mun sterkara en á síðasta tímabili. Breiddin er líka góð og ef allt smellur saman ætti Aston Villa ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af falldraugnum.

Veikleikar: Leikmannahópurinn er nokkuð ungur og á meðal sumarkaupa eru leikmenn sem þekkja ekki ensku úrvalsdeildina. Einhverjir hafa líkt kaupæði sumarsins við Fulham sem verslaði mikið í fyrrasumar og féll á endanum. Stuðningsmenn Aston Villa vilja meina að styrkingar félagsins séu á allt annan hátt en hjá Fulham og að liðið eigi eftir að halda sjó á þessu tímabili. Markaskorun er spurningamerki en Tammy Abraham, sem skoraði 26 mörk á síðasta tímabili, er farinn aftur til Chelsea.

Talan: 4. Aston Villa spilaði með fjóra mismunandi markverði í Championship deildinni á síðasta tímabili. Tom Heaton stendur væntanlega í markinu í vetur en hann kom frá Burnley í vikunni.

Lykilmaður: Jack Grealish
Grealish er í guðatölu hjá stuðningsmönnum Aston Villa. Hann var að brjótast inn í aðalliðið af fullum þunga þegar Aston Villa féll árið 2016. Síðan þá hefur Grealish verið í lykilhlutverki hjá Aston Villa og haldið tryggð við félagið þrátt fyrir áhuga úr úrvalsdeildinni. Tottenham reyndi við Villa í fyrra en Aston Villa vildi ekki selja Grealish. Það borgaði sig því Grealish átti stóran þátt í að koma Aston Villa aftur upp í úrvalsdeildina.

Fylgstu með: Wesley
Brasilíski framherjinn Wesley kom til Aston Villa frá Club Brugge í sumar og bundnar eru miklar vonir við hann á Villa Park. Wesley hefur þurft að hafa fyrir því að ná í fremstu röð en saga hans er virkilega áhugaverð eins og kom fram í grein á Fótbolta.net á dögunum.

Tómas Þór Þórðarson - Ritstjóri enska boltans hjá Símanum
„Það er alveg ljóst að Villa-menn hafa nákvæmlega engan áhuga á að fara aftur niður um deild miðað við innkaupin. Miklu hefur verið til tjaldað til að halda sæti sínu en nú er bara að sjá hvort að Dean Smith sé starfi sínu vaxinn með glænýtt lið, miklar breytingar á milli tímabila og á sínu fyrsta tímabili sem stjóri í sterkustu deild heims. Vonandi okkar vegna fær Birkir Bjarnason að láta ljós sitt skína.“

Undirbúningstímabilið:
Minnesota United 0 - 3 Aston Villa
Shrewsbury Town 0 - 1 Aston Villa
Walsall 1 - 5 Aston Villa
Charlton Athletic 1 - 4 Aston Villa
RB Leipzig 1 - 3 Aston Villa

Komnir:
Trezeguet frá Kasimpasa - 8,5 milljónir punda
Matt Targett - Southampton - 11 milljónir punda
Jota frá Birmingham City - Kaupverð ekki gefið upp
Anwar El Ghazi frá Lille - Kaupverð ekki gefið upp
Wesley frá Club Brugge - 22 milljónir punda
Ezri Konsa frá Brentford - 12 milljónir punda
Kortney Hause frá Wolves - Kaupverð ekki gefið upp
Tyrone Mings frá Bournemouth - 20 milljónir punda
Bjorn Engels frá Stade Reims - Kaupverð ekki gefið upp
Tom Heaton frá Burnley - 9 milljónir punda
Marvelous Nakamba frá Club Brugge - Kaupverð ekki gefið upp

Farnir:
Mile Jedinak - Samningslaus
Alan Hutton - Samningslaus
Tommy Elphick - Samningslaus
Albert Adomah - Samningslaus
Glenn Whelan - Samningslaus
Ritchie De Laet - Samningslaus
Mark Bunn - Samningslaus
Micah Richards - Hættur
Ross McCormack - Látinn fara
Gary Gardner til Birmingham City - Kaupverð ekki gefið upp

Þrír fyrstu leikir: Tottenham (Ú), Bournemouth (H), Everton (Ú)

Þeir sem spáðu: Arnar Helgi Magnússon, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.


Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. ?
13. Aston Villa, 65 stig
14. Southampton, 59 stig
15. Crystal Palace, 53 stig
16. Burnley, 39 stig
17. Newcastle, 33 stig
18. Brighton, 23 stig
19. Norwich, 19 stig
20. Sheffield United, 13 stig

Skráðu þig í Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net
Verðlaun í boði Budweiser eftir allar umferðir.
Kóðinn til að skrá sig er: sjkbpw
Skráðu þitt lið til leiks!
Athugasemdir
banner
banner
banner