Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   lau 03. ágúst 2019 17:00
Magnús Már Einarsson
Spáin fyrir enska - 12. sæti
Bournemouth
Callum Wilson er lykilmaður hjá Bournemouth.
Callum Wilson er lykilmaður hjá Bournemouth.
Mynd: Getty Images
Eddie Howe hefur gert magnaða hluti á suðurströndinni.
Eddie Howe hefur gert magnaða hluti á suðurströndinni.
Mynd: Getty Images
Norski landsliðsmaðurinn Joshua King fagnar marki.
Norski landsliðsmaðurinn Joshua King fagnar marki.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það styttist í að enska úrvalsdeildin hefjist á nýjan leik. Við kynnum liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Í 12. sætinu er Bournemouth.

Um liðið: Bournemouth hefur tekið stór stökk undanfarin ár. Árið 2008 var liðið í ensku D-deildinni en ferðalag liðsins hefur verið líkast ævintýri síðan þá. Bournemouth hefur fest sig í sessi í ensku úrvalsdeildinni og er nú á leið í fimmta tímabil sitt í röð í ensku úrvalsdeildinni.

Staða á síðasta tímabili: 14. sæti

Stjórinn: Eddie Howe er gífurlega vinsæll hjá stuðningsmönnum Bournemouth eftir að hafa leitt liðið upp í ensku úrvalsdeildina og fest það í sessi þar. Howe hefur áður verið orðaður við Arsenal og fleiri félög en hann er enn á sínum stað hjá Bournemouth að gera góða hluti.

Styrkleikar: Eddie Howe hefur búið til mjög sterka liðsheild hjá Bournemouth þar sem menn þekkja leikstílinn inn og út. 4-4-2 með spræka kantmenn og Callum Wilson og Joshua King klára inni á vítateig til að skora mörk. Bournemouth hefur sýnt að liðið getur unnið öll lið í deildinni á sínum degi.

Veikleikar: Markverðirnir Asmir Begovic og Artur Boruc voru í basli á síðasta tímabili og Howe hefur ekki styrkt markvarðarstöðuna í sumar. Stöðugleikinn hefur verið óvinur Bournemouth en liðið hefur átt erfitt með að tengja sigra og fylgja eftir öflugum úrslitum sem liðið nær í inn á milli.

Talan: 46. Bournemouth hefur mest náð 46 stigum í ensku úrvalsdeildinni en stigin hafa verið á bilinu 42-46 síðustu fjögur tímabil. Nær liðið hærri stigafjölda í ár?

Lykilmaður: Callum Wilson
Skoraði fjórtán mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili þrátt fyrir að missa af átta leikjum. Myndar öflugt sóknarteymi með Joshua King og getur strítt öllum varnarmönnum deildarinnar á góðum degi. Wilson var orðaður við Chelsea síðasta vetur en á endanum skrifaði hann undir nýjan samning við Bournemouth.

Fylgstu með: Lloyd Kelly
Tvítugur vinstri bakvörður sem kom frá Bristol City á þrettán milljónir punda í sumar. Leikmaður sem stuðningsmenn Bournemouth eru spenntir að sjá í eldlínunni. Gæti farið í miðvörðinn þegar Charlie Daniels verður klár eftir meiðsli. Líkamlega sterkur og góður í loftinu.

Tómas Þór Þórðarson - Ritstjóri enska boltans hjá Símanum
„Það voru varla margir sem bjuggust við því að Eddie Howe væri að fara með þetta smálið inn í fimmtu leiktíðina í efstu deild í röð eftir komuna upp 2015. En, þetta stórmerkilega batterí við ströndina heldur áfram að gera flotta hluti og er ávallt nær miðri deild en falli. Viðskiptin á markaðnum benda ekki til þess að þeir rauðu og svörtu ætli sér eitthvað um of og stefna á Evrópu eða neitt slíkt. Þarna eru hlutirnir gerðir hægt en örugglega.“

Undirbúningstímabilið:
AFC Wimbledon 2 - 3 Bournemouth
Girona 2 - 1 Bournemouth
WBA 0 - 0 Bournemouth
Brentford 1 - 3 Bournemouth
Bournemouth 3 - 4 Lazio
Bournemouth 3 - 0 Lyon

Komnir:
Arnaut Danjuma Groeneveld frá Club Brugge - 13,7 milljónir punda
Lloyd Kelly frá Bristol City - 13 milljónir punda
Philip Billing frá Huddersfield - 18 milljónir punda
Jack Stacey frá Luton - Kaupverð ekki gefið upp

Farnir:
Emerson Hyndman til Atlanta United - Á láni
Lys Mousset frá Sheffield United - 10 milljónir punda
Tyrone Mings til Aston Villa - 20 milljónir punda

Þrír fyrstu leikir: Sheffield United (H), Aston Villa (Ú), Manchester City (H)

Þeir sem spáðu: Arnar Helgi Magnússon, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Ívan Guðjón Baldursson, Magnús Már Einarsson, Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson og Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Stigagjöfin er reiknuð út frá þeirri formúlu sem gefin var upp þegar spáð var. Hún tengist á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.


Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ?
11. ?
12. Bournemouth, 66 stig
13. Aston Villa, 65 stig
14. Southampton, 59 stig
15. Crystal Palace, 53 stig
16. Burnley, 39 stig
17. Newcastle, 33 stig
18. Brighton, 23 stig
19. Norwich, 19 stig
20. Sheffield United, 13 stig

Skráðu þig í Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net
Verðlaun í boði Budweiser eftir allar umferðir.
Kóðinn til að skrá sig er: sjkbpw
Skráðu þitt lið til leiks!
Athugasemdir
banner
banner
banner