Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Upp er komið fáránlegt mál í íslenska boltanum. Einn af reyndustu dómurum landsins segist ekki hafa sagt starfi sínu lausu ólíkt því sem formaður dómaranefndar KSÍ hefur haldið fram í fjölmiðlum. Víðast hvar eru knattspyrnusambönd í erfiðleikum með að vekja áhuga á dómgæslu. Óvægin gagnrýni hefur ekki síst verið ástæðan fyrir því að fáir vilja spila lykilhlutverk mannsins með flautuna. Í þetta sinn virðist málið snúast um eitthvað allt annað.
Upphafið – Gylfi staðfestir uppsögn Jóhannesar
Það kom mörgum á óvart þann 17. febrúar þegar frétt birtist á Fótbolta.net þess efnis að Jóhannes Valgeirsson væri hættur dómgæslu. Þar staðfesti Gylfi Þór Orrason formaður dómaranefndar og varaformaður KSÍ að Jóhannes hefði sagt upp með formlegum hætti.
,,Við tókum það fyrir og lítum alvarlegum augum þegar svona mál koma upp en við gátum ekkert annað en samþykkt þá ákvörðun hans sem hafði borist með formlegum hætti.”
Ekki annað hægt að lesa úr þessu en að Gylfi sjái eftir Jóhannesi. Síðan eru liðnar fjórar vikur og annað komið á daginn.
Yfirlýsing Jóhannesar
Í vikunni sendi Jóhannes svo frá sér ítarlega yfirlýsingu. Þar segist hann aldrei hafa sagt af sér með formlegum hætti.
,,Allt þetta er byggt á samtali í síma við Birki Sveinsson mótastjóra KSÍ og starfsmann dómaranefndar. Þar lýsti ég fyrir honum í löngu máli hvaða upplifun ég hefði af þróun mála að undanförnu og ef það væri stemmingin að bola mér út og enginn vildi ræða það, þá væri eflaust rétt að ég léti það eftir mönnum.”
Þá virðist hann giska á ástæður þess að dómaranefnd KSÍ hafi snúist gegn honum og losað sig við hann.
,,Ég hef verið gagnrýninn og ég hef ekki alltaf verið sáttur við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Ég hef gert mistök, hlaupið og á mig og þurft að biðjast afsökunar. Er það brottrekstrarsök að vera gagnrýninn? Er það brottrekstrarsök að bregðast ekki vel við því að vera tekinn af lista þeirra sem dæma fyrir Íslands hönd í Evrópu, þegar einkunnir og frammistaða gefa tilefni til annars?“
Að loknum lestri þessarar yfirlýsingar má álykta að Jóhannes hafi látið dómaranefndina heyra það þegar honum var kippt út úr teymi Kristins Jakobssonar í Evrópudeildinni. En ætli það sé ástæðan fyrir því að dómaranefndin vilji losna við Jóhannes úr dómgæslu? Uh, nei pottþétt ekki.
Gylfi Þór tjáir sig
Fótbolti.net leitaði viðbragða hjá Gylfa Þór fljótlega eftir birtinguna á yfirlýsingu Jóhannesar. Gylfi segir Jóhannes hafa sagt af sér á dómaraæfingu norðan heiða og staðfest uppsögnina í símtali við starfsmann mótanefndar (innsk: Birki Sveinsson mótastjóra). Hann segir Jóhannes hafa sagt að símtalið jafngilti skriflegri uppsögn. Jóhannes hafi svo séð að sér og viljað byrja aftur að dæma en dómaranefndin ekki fallist á að leyfa honum það. Gylfi segist svo ekki munu tjá sig meir um málið við fjölmiðla.
Eitthvað er ósagt
Þetta mál er nokkuð einstakt því dómarastéttin á Íslandi hefur virkað nokkuð heilsteypt og haldið sig sem mest fjarri sviðsljósi fjölmiðlanna síðan ég byrjaði að fylgjast með. Þær fjórar vikur sem Jóhannes virðist hafa reynt að leysa málið án þess að svara fyrirspurnum fjölmiðla eru til marks um það. Eftir árangurslausar sáttartilraunir hefur hann gefið þær tilraunir upp á bátinn og farið í fjölmiðlana.
Þessi deila er hið týpíska orð gegn orði rifrildi. Hins vegar hlýtur að vera deginum ljósara að eitthvað hefur komið upp á sem hvorugur aðilinn hefur viljað minnast á opinberlega. Sagan getur ekki verið öll sögð. Reyndar finnst mér Jóhannes í raun hvetja dómaranefndina til að segja frá því ósagða:
,,…því segi þeir satt og rétt frá okkar samskiptum þolir mín persóna og mitt mannorð að þær skýringar komi fram í dagsljósið."
Ef ég ætti að endursegja þetta væri það einhvern veginn svona:
,,Mér er alveg sama þótt þið segið frá því sem gerðist á meðan þið segið satt frá.“
Getur verið að þriðji aðili komi að málinu sem hvorki Gylfi Þór eða Jóhannes hafa viljað nefna á nafn hingað til? Dómari kannski? Getgátur af minni hálfu.
Málið þarf að leysa
Eitt er víst. Til eru dómarar sem dæma mótsleiki á vegum KSÍ sem eru mun slakari dómarar en Jóhannes. Skortur á dómurum hefur hins vegar verið svo mikill að ekki hefur þótt ráðlegt að neita þeim um það sem sækjast eftir að dæma leiki. Það er því stórskrýtið að dómaranefnd KSÍ vilji ekki að Jóhannes haldi áfram dómgæslu hvort sem hann sagði formlega upp eða ekki. Ættu þeir ekki að taka honum fagnandi fyrst ,,hann sá að sér“?
Nei eitthvað hefur komið upp á og eins og svo oft á Íslandi er líklegt að vandamálið snúist um eitthvað allt annað en frammistöðu í starfi. En persónuleg vandamál eru ekki ný af nálinni í íslenska boltanum. Umtalað framhjáhald liðsfélaga í íslensku félagsliði kom ekki í veg fyrir að báðir leikmenn léku stórt hlutverk í gullaldarliði félagsins. Þrátt fyrir sárindi tókst mönnum að vinna sig út úr því og því hlýtur á sama hátt að vera hægt að leysa þetta mál.
Ég er alls ekki að gefa í skyn að þetta tiltekna mál snúist um bólfimi dómara eða eitthvað því um líkt. Málið lyktar bara af persónulegum deilum sem eiga ekki að hafa áhrif á að reyndir dómarar heltist úr starfi. Það er sjálfsögð krafa knattspyrnuáhugamanna á Íslandi að jafnreyndir aðilar innan hreyfingarinnar og hér deila finni lausn á þessu fáránlega máli.
Smelltu hér til að taka þátt í umræða um greinina á Sammarinn.com