Engilbert Aron Kristjánsson skrifar:
Á síðustu árum hefur fjöldi belgískra gæðaleikmanna streymt inn í ensku úrvalsdeildina og er það vel. Raunar er það svo að af 25 leikmönnum í síðasta landsliðshópi Belga leika 12 í Englandi (ef með eru taldir Chelsea-mennirnir Kevin De Bruyne sem er í láni hjá Werder Bremen og Thibaut Courtois sem dvelur hjá Atletico Madrid).
Auk þeirra eru þetta þeir Simon Mignolet, Vincent Kompany, Thomas Vermaelen, Jan Vertonghen, Moussa Dembele, Marouane Fellaini, Kevin Mirallas, Eden Hazard, Romelu Lukaku og Christian Benteke. Það er því ljóst að þessir leikmenn gætu myndað ágætis byrjunarlið a.m.k á pappír.
Það sem vekur athygli strax er gríðarlega lágur meðalaldur þessa liðs. Aðeins Kompany og Vermaelen eru eldri en 25 ára og eru þeir nú ekki eldri en 26 og 27 ára. Aðrir í þessum hópi eru fæddir á árunum 1987-1993 og má því með sanni segja að upp sé komin sannkölluð gullkynslóð hjá landi sem hingað til hefur ekki talist stórveldi í Evrópuboltanum.
En lítum nú ítarlega á hvern þessara leikmanna og byrjum á markverðinum Mignolet. Hann er fæddur 1988 og kom til Sunderland árið 2010 fyrir u.þ.b. 2 milljónir punda. Síðan þá hefur hann staðið sig vel, og raunar svo vel að Sunderland lét fyrrum dýrasta markvörð Bretlandseyja, Craig Gordon, fara frítt síðastliðið vor. Mignolet er nú orðinn lykilmaður hjá Sunderland og aðalmarkvörður belgíska landsliðsins.
Miðverðirnir Kompany, Vermaelen og Vertonghen eru allir mjög áþekkir leikmenn, en auk þess að spila sömu stöðu eru þeir allir mjög teknískir, sterkir og einstaklega góðir fram á við sem sést best í því að þeir skora reglulega með sínum liðum. Auk þess eru þeir miklir leiðtogar og eru þeir Kompany og Vermaelen nú fyrirliðar Manchester City og Arsenal. Jan Vertonghen er sá eini af þeim sem er nýliði í deildinni en hann gekk til liðs við Tottenham í sumar. Hann er gríðarlega fjölhæfur leikmaður sem getur leyst stöðu miðjumanns, sem og allar stöður í vörn. Enn sem komið er lítur allt út fyrir að hann muni gegna lykilhlutverki hjá Spurs á næstu árum.
Á síðustu dögum félagaskiptagluggans gekk landi Vertonghen, Moussa Dembele til liðs við Tottenham frá Fulham fyrir 15 milljónir punda, og er honum í raun ætlað að taka við hlutverki Luka Modric hjá liðinu þ.e. að byrja sóknir liðsins þegar liðið vinnur boltann. Dembele, sem byrjaði feril sinn sem framherji, er með frábæra tækni og á það til að skauta framhjá leikmönnum eins og að drekka vatn. Einnig er hann gríðarlega sterkur og tapar sjaldan boltanum. Eftir að þjálfari Fulham, Martin Jol, ákvað að prófa Dembele í stöðu miðjumanns hefur hann ekki horft um öxl og leikur nú við hvurn sinn fingur á miðjunni hjá Tottenham og skoraði m.a. í sínum fyrsta leik gegn Norwich.
Hinn hárprúði Marouane Fellaini hefur farið mikinn í frábæru liði Everton í byrjun tímabils og sýndi mátti sinn og megin þegar hann pakkaði liði Manchester United saman strax í opnunarleik tímabilsins. Hann gekk til liðs við þá bláklæddu sumarið 2008 fyrir 15 milljónir punda, sem var þá metfé fyrir belgískan leikmann og er hann enn dýrasti leikmaður í sögu Everton. Fellaini er djúpur miðjumaður að upplagi og eins og flestir hafa tekið eftir eru hans helstu styrkleikar gríðarlegur líkamsstyrkur, jafnvægi og mikil færni í háloftunum. Hann tapar nánast aldrei skallaeinvígi og flestir leikmenn hrynja af honum eins og mýflugur er þeir reyna að fara á móti honum í návígi.
Þegar Everton glímdi við mikil meiðsli og manneklu á síðustu leiktíð (m.a. hjá Tim Cahill) prófaði David Moyes að nota Fellaini í stöðu sóknarsinnaðs miðjumanns í sínu fastmótaða 4-4-1-1 leikkerfi. Í stað þess að vera þessi týpíski „holuleikmaður“ eða „playmaker“ sem spilar fyrir aftan framherjann og treystir á tækni og góða sendingagetu má segja að belginn sé einn af fáum í heiminum í dag sem spilar sem afturliggjandi Target-man. Liðið beitir gjarnan löngum boltum fram sem Fellaini vinnur í yfirgnæfandi meirihluta tilvika og hefur hann þá val um að senda framherjann í gegn með stungusendingu eða skýla boltanum í augnablik og bíða eftir liðsfélögum sínum eins og Leighton Baines, Steven Pienaar og Leon Osman sem þá geysast fram í hraða sókn.
Afraksturinn á þessari stöðubreytingu hans er besta byrjun Everton í deildinni í um áratug og eins og staðan er núna eiga þeir jafnvel möguleika á Meistaradeildarsæti.
En þessi frábæra byrjun Fellaini þar sem hann hefur skorað 3 mörk og lagt upp 1 í fyrstu 5 leikjunum fellur hún þó í skuggann af landa hans Eden Hazard, nýjum liðsmanni Chelsea. Sá hefur lagt upp 6 mörk og skorað 1 í þessum 5 leikjum, en raunar komu þau öll í fyrstu þremur umferðunum. Þessi ungi snaggaralegi leikmaður kom frá Lille í sumar fyrir 32 milljónir punda og getur leikið á báðum köntum eða fyrir aftan framherjann. Hann býr yfir gríðarlegum hraða, leikni og jafnvægi og ótrúlega góðri yfirsýn og ákvarðanatöku m.v. ungan aldur. Þá virðist hann ekkert láta það pirra sig að vera ítrekað sparkaður niður af hinum ýmsu fautum deildarinnar.
Hann var kjörinn efnilegasti leikmaðurinn í frönsku úrvalsdeildinni árin 2008-9 og 2009-10 og besti leikmaðurinn næstu tvær leiktíðir þar á eftir og er yngsti leikmaðurinn til að vinna þau verðlaun. Ekki svo slæmt hjá 21 árs gutta. Í sumar var hann duglegur við að gefa óljósar vísbendingar um hvaða liðs hann vildi fara til og voru flestir fótboltaáhugamenn löngu búnir að missa áhugann á hans málum. Á endanum valdi hann svo Chelsea fram yfir Tottenham og bæði Manchesterliðin. Hazard hefur hingað til verið notaður á vinstri kantinum og virðist ætla verða hverrar krónu virði ef hann heldur áfram á sömu braut.
Kevin Mirallas er 25 ára gamall framherji/hægri kantmaður sem gekk nýlega til liðs við Everton. Hann hefur byrjað ágætlega og skoraði sitt fyrsta deildarmark í 3-0 sigri á Swansea um síðustu helgi. Áður spilaði hann með Olympiakos í Grikklandi þar sem hann lék 52 leiki og gerði 34 mörk og var m.a. kjörinn besti leikmaður Grísku Úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Af fyrstu leikjum hans að dæma er hann kraftmikill og vinnusamur leikmaður sem er óhræddur við að skjóta á markið og gæti orðið fínasta viðbót við sóknarleik Everton sem hefur verið akkilesarhæll liðsins undanfarin ár.
Romelu Lukaku og Christian Benteke eru báðir stórir og stæðilegir framherjar en Lukaku gekk til liðs við Chelsea síðasta sumar frá Anderlecht meðan Benteke er nýkominn til Aston Villa. Lukaku sem lengi hefur verið lýst sem hinum nýja Drogba byrjaði að spila með aðalliði Anderlecht einungis 16 ára gamall og skoraði 33 mörk í 73 leikjum þar. Þessa dagana er hann í láni hjá W.B.A. og hefur byrjað vel þar og gert 2 mörk í 4 leikjum.
Benteke er eins og Lukaku algjört tröll að burðum þrátt fyrir að vera einungis 22 ára gamall. Hann er eins og áður sagði nýkominn til Villa frá Genk fyrir um 7 milljónir punda og skoraði strax í sínum fyrsta leik. Ef vel gengur gætu stuðningsmenn Villa jafnvel farið að syngja um „hinn nýja Heskey“. Vonum samt ekki.
Þeir einu sem eru þá eftir á listanum eru Chelsea-mennirnir Kevin De Bruyne og Thibaut Courtois. Þar sem við höfum lítið fengið að sjá af þeim er í raun lítið um þá að segja annað en vitað er að þeir eru báðir gríðarlega efnilegir enda ekki hver sem er sem kemst á samning hjá Lundúnaliðinu. De Bruyne er sóknarsinnaður miðjumaður sem er fæddur árið 1991 og Thibaut Courtois er markvörður sem er fæddur ári seinna og er hugsaður sem eftirmaður Petr Cech.
Þessi belgísku áhrif eru orðin vel áþreifanleg í enska boltanum og það besta við þau er að þetta eru í flestum tilvikum frábærir teknískir leikmenn sem gefa sig alla í leikina og er gaman að fylgjast með. Þeir Vermaelen, Hazard, Fellaini og Hazard eru meðal stærstu stjarnanna í ensku deildinni m.v. uppganginn í Belgíu munum við fá fleiri landa þeirra í bestu deild heims innan skamms.
Smelltu hér til að lesa greinina og taka þátt í umræðum á nr7.is
Hefur þú áhuga á því að skrifa greinar um enska boltann? Hafðu samband á [email protected]
Athugasemdir