Fjölmiðlamaðurinn Sigurjón M. Egilsson fer ekki fögrum orðum um umgjörð og aðstöðu knattspyrnufélagsins KR í pistli sem birtur er á miðjan.is.
„Þrátt fyrir velgengni síðustu ára er ekki að sjá, að hvorki eitt né neitt hafi gerst í aðbúnaði eða umgjörð hjá KR. Vera má að bætt hafi verið við stólum í stúkuna. Man það ekki, en ef svo er, er það það eina," skrifar Sigurjón sem er umsjónarmaður útvarpsþáttarins Sprengisandur á Bylgjunni og stuðningsmaður KR.
„Enn er snyrtiaðstaða fyrir vallargesti hreint ömurleg. Hlandfúinn skúr við enda stúkunnar, sem aldrei hefur verið til sóma, er nú sautján árum eldri en hann var þegar upprisann varð og árangur jókst með mörgum glæstum sigrum og aukinni velvild víða í samfélaginu. Einu breytingarnar eru að á nokkurra ára fresti er sett ný tréplata á gólf skúrsins svo það láti ekki undan vallargestum. Þessar tréplötur eru sýnilegustu framkvæmdirnar á KR-vellinum frá stóra afmælinu árið 1999. Þær eru í raun táknrænar."
Sigurjón segir að krafturinn sem var vorið 1999 sé greinilega ekki til staðar lengur.
„Þá stofnuðum við Útvarp KR, svarthvíta útvarpið. Það er enn í gangi og þjónar vel sínu hlutverki. Útvarpið er það sem KR hefur framyfir önnur félög," skrifar Sigurjón sem segir að KR sem eitt sinn hafi verið fyrirmynd annarra félaga sé fjarri því nú.
Athugasemdir