Stjarnan tilkynnti í dag að félagið hefði gert samning við Þorstein Má Ragnarsson.
Í vikunni fór Ólafur Karl Finsen yfir í Val og Garðabæjarfélagið var ekki lengi að fylla í hans skarð.
Í vikunni fór Ólafur Karl Finsen yfir í Val og Garðabæjarfélagið var ekki lengi að fylla í hans skarð.
Þorsteinn kemur frá Víkingi Ólafsvík en hann segir að eftir fall liðsins niður í Inkasso-deildina í sumar hafi hann viljað færa sig um set.
„Ég vil spila í Pepsi-deildinni og þegar Stjarnan hringdi ákvað ég að slá til. Ég er gríðarlega ánægður með þetta," sagði Þorsteinn við Fótbolta.net.
Með Stjörnunni spilar Þorsteinn aftur með Brynjari Gauta Guðjónssyni en þeir tveir vöktu mikla athygli þegar þeir voru í stórum hlutverkum hjá Víkingi Ólafsvík ungir að árum.
„Það er langt síðan ég spilaði með Brynjari og frábært að gera það aftur. Svo eru fleiri í þessu liði sem ég þekki vel."
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, hefur lengi verið hrifinn af Þorsteini.
„Rúnar hefur nokkrum sinnum reynt að fá mig og nú var rétti tímapunkturinn til að kíkja yfir. Ég er að fara í allt annað umhverfi, ég er að fara í lið sem vill berjast um titla og í þannig umhverfi vel ég vera."
Þrátt fyrir að fall hafi verið niðurstaðan hjá Ólsurum í sumar er Þorsteinn nokkuð stoltur af tímabilinu.
„Við gerðum miklu meira en allir bjuggust við og vorum á lífi fram í lokaumferðina. Þið og aðrir höfðuð ekki spáð því."
Útlit er fyrir talsverðar breytingar hjá Víkingi Ólafsvík en ekki er vitað hvort Ejub Purisevic verði áfram með liðið.
„Það er rosalega mikil óvissa í Ólafsvík og enginn veit hver þjálfar liðið næsta tímabil. Meðan óvissa er með þjálfaramálin eru leikmannamálin líka í óvissu. En það eru flottir menn í brúnni hjá félaginu sem munu örugglega gera þetta vel," segir Þorsteinn Már.
Athugasemdir