Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   lau 11. nóvember 2017 09:15
Magnús Már Einarsson
Emil Páls: Tel mig eiga fullt erindi í þetta lið
Emil Pálsson.
Emil Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Ég held að það sé draumur flestra ungra leikmanna að verða atvinnumaður einn daginn og í dag rættist það hjá mér og ég er virkilega ánægður með það," sagði Emil Pálsson við Fótbolta.net eftir að hann skrifaði undir tveggja ára samning við norska félagið Sandefjord.

Hinn 24 ára gamli Emil hefur spilað með FH síðan árið 2011. Samningur Emils rennur út um áramótin og þá mun hann ganga í raðir Sandefjord.

,Auðvitað er erfitt að yfirgefa liðið sem ég hef spilað með síðustu sjö tímabil, að undanskildu hálfu tímabili í Fjölni. Ég hef ekkert nema gott að segja um FH og ég naut þess að spila í Hafnarfirðinum. Ég fékk dýrmæta reynslu í Evrópukeppni og vann þrjá Íslandsmeistaratitla sem ég tel að muni nýtast mér vel í þessu skrefi."

Þjálfarinn spilaði á Englandi
Sandefjord er í 10. sæti í norsku úrvalsdeildinni þegar tvær umferðir eru eftir.

„Um leið og ég heyrði af áhuga liðsins þá fór ég á netið og skoðaði liðið, þjálfarann og bæinn og mér leist strax mjög vel á þetta. Liðið er nýbúið að tryggja sér áframhaldandi veru í úrvalsdeildinni í Noregi og er staðsett mjög sunnarlega. Lars Bohinen er þjálfarinn en hann átti mjög góðan feril sem miðjumaður. Hann spilaði í Premier League og með norska landsliðinu þannig ég tel að hann geti hjálpað mér mikið að bæta mig sem leikmaður."

„Hann sýndi einnig mikinn áhuga á að fá mig og það spilar alltaf stóran part í svona ákvörðunum. Ég hef ekki horft mikið á norska boltann en þegar ég fór út að skoða aðstæður sá ég þá spila við Vålerenga þar sem þeir unnu 2-0 og ég tel mig eiga fullt erindi í þetta lið."


Ræddi mikið við Ingvar
Ingvar Jónsson er í markinu hjá Sandefjord og Emil ræddi mikið við hann um liðið áður en hann ákvað að semja. „Já ég get alveg viðurkennt að ég var í miklu sambandi við Ingvar. Ég þekkti hann ágætlega áður en þetta kom upp og hann hafði samband við mig af fyrra bragði. Hann sýndi mér allt í kringum klúbbinn og kynnti mig fyrir leikmönnunum og staffinu. Það munaði mikið um að hafa hann þarna," sagði Emil sem er bjartsýnn á að Sandefjord geti gert ennþá betur á næstu árum.

„Mér líst bara virkilega vel á þetta félag. Þeir eru búnir að standa sig vel á þessu tímabili sem er að klárast og ég tel að við getum endað ennþá ofar á því næsta," sagði Emil að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner