„Þetta er skrýtið en ég held að það hafi verið kominn tími á þetta," sagði framherjinn Jóhann Helgi Hannesson við Fótbolta.net í dag en hann hefur ákveðið að yfirgefa uppeldisfélag sitt Þór og ganga til liðs við Grindavík.
Hinn 27 ára gamli Jóhann hefur spilað með Þór allan sinn feril og er með tattú með merki félagsins. Hann hefur nú ákveðið að söðla um.
Hinn 27 ára gamli Jóhann hefur spilað með Þór allan sinn feril og er með tattú með merki félagsins. Hann hefur nú ákveðið að söðla um.
„Ég áttaði mig á því í sumar þegar ég spilaði minn tvöhundraðasta leik með Þór að ferillinn er ekki endalaus og að það sé kominn tími á að gefa Pepsi-deildinni alvöru séns áður en maður verður of gamall í þetta," sagði Jóhann.
Jóhann Helgi spilaði sinn fyrsta leik með Grindavík í 3-3 jafntefli gegn Njarðvík í gærkvöldi.
„Þeir gerðu mér greiða því við spiluðum í bláa varabúningnum. Ég fór því ekki strax í gult og blátt," sagði Jóhann léttur en erkifjendur Þórs í KA spila í gulu og bláu.
„Fyrst að Orri Hjaltalín gat farið að elska gult og blátt þá hlýt ég að geta það líka. Þetta verður fljótt að venjast. Þetta er gult, blátt, blátt en ekki gult, blátt, gult."
KA-menn hafa reynt að krækja í Jóhann Helga undanfarin ár en án árangurs. Þeir gerðu ekki tilraun til þess núna. „Þeir heyrðu ekki í mér. Þeir eru búnir að gefast upp á mér. Þeir hafa reynt aðeins en ég held að ég hafi sagt of oft nei við þá," sagði Jóhann léttur í bragði.
Fleiri félög höfðu áhuga á Jóhanni en hann var fljótur að velja Grindavík. „Konan á skyldmenni þarna og þetta lítur vel út. Ég talaði við Óla (Stefán Flóventsson, þjálfara) og hann seldi mér þetta í 20 mínútna símtali. Eftir það langaði mig ekki að fara neitt annað."
Jóhann Helgi fær stórt verkefni hjá Grindavík en hann fær að fylla skarð Andra Rúnars Bjarnasonar sem jafnaði markametið í efstu deild með því að skora 19 mörk í sumar. „Ef þú myndir segja að það væri ekki pressa þá værir þú ruglaður. Ég held að þeir búist ekki við að ég skori 19 mörk. Auðvitað er þetta pressa en það er gaman. Það verður einhver að taka það á sig að fylla í skarðið og af hverju ekki ég?" sagði Jóhann ákveðinn að lokum.
Athugasemdir