Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   þri 23. janúar 2018 14:13
Elvar Geir Magnússon
Orri: Byrjaði ekki að fagna fyrr en ég skrifaði undir
Orri lék æfingaleik með Sarpsborg í dag.
Orri lék æfingaleik með Sarpsborg í dag.
Mynd: Sarpsborg
Eftir undirskriftina í gær.
Eftir undirskriftina í gær.
Mynd: Sarpsborg
Orri Sigurður Ómarsson skrifaði í gær undir samning við norska félagið Sarpsborg og er spenntur fyrir þessari nýju áskorun á ferli sínum.

„Þetta er rólegur og lítill bær. Hér er mjög fínt að vera," segir Orri.

Þessi 22 ára leikmaður hefur verið einn besti miðvörður Pepsi-deildarinnar undanfarin ár og reglulega verið orðaður við atvinnumennsku og verið afskaplega nálægt því að fara út. Hann virtist á leið til Horsens í Danmörku í haust.

„Það er frábært að þetta sé frágengið. Maður var þokkalega svekktur yfir því að hafa verið nálægt því að fara út í eitt skipti og vera svo bara farinn út í annað skiptið en það klúðraðist á síðustu stundu. Ég var ekkert byrjaður að fagna því að vera kominn til Sarpsborg fyrr en ég var búinn að skrifa undir pappírinn."

Orri lék í 4-0 sigri gegn Fredrikstad í æfingaleik sem fram fór í dag.

„Ég er bara búinn að taka þennan eina leik en hef ekkert æft með þeim svo ég er ekki alveg búinn að sjá hvernig gæðin eru. En ef ég á að miða út frá þessum leik í dag þá er þetta fínt," segir Orri.

Hann varð Íslandsmeistari með Val í fyrra og bikarmeistari með liðinu árin tvö þar á undan. Hann taldi rétt fyrir sig að prófa eitthvað nýtt.

„Algjörlega. Ég er búinn að vinna allt sem hægt er að vinna á Íslandi og Valur er á mjög flottum stað í augnablikinu. Það er erfitt að fara því það eru ekki lítið spennandi tímar framundan hjá Val. En svo verður maður að hugsa um sjálfan sig og hvað er best fyrir mann sjálfan."

Orri lék með landsliðinu í Indónesíuferðinni fyrr í þessum mánuði.

„Sú ferð fékk mann til að hugsa enn frekar út í þetta. Næstu þrjú til fjögur ár hjá landsliðinu eru fáránlega spennandi og skemmtileg. Maður vill reyna að taka einhvern þátt í því," segir Orri.

Mun Valur ná að fylla skarð hans?

„Þeir eru með Rasmus og Eið þarna. Það verður ekkert mál fyrir þá, þeir þurfa kannski einn á bekkinn en þeir eru í mjög fínum málum."

Sarpsborg endaði í þriðja sæti í norsku deildinni í fyrra.

„Ég er bara búinn að vera hérna í tvo daga og það er ekkert búið að ræða um markmiðin í sumar. Þeir lentu í þriðja sæti í fyrra og vilja væntanlega vera á svipuðum slóðum ásamt því að komast sem lengst í Evrópukeppninni," segir Orri.
Athugasemdir
banner
banner