Mexíkói orðaður við Liverpool og Kólumbíumaður við Man Utd - David Datro Fofana færist nær AEK Aþenu
   lau 29. júlí 2006 06:00
Hafliði Breiðfjörð
Dennis Siim: Lofaði stuðningsmönnunum að koma aftur
Dennis Siim.
Dennis Siim.
Mynd: Stafræna prentsmiðjan
Siim í leik með FH á æfingatímabilinu í fyrra.
Siim í leik með FH á æfingatímabilinu í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Danski miðvallarleikmaðurinn Dennis Siim er að ganga í raðir FH á ný en hann lék með liðinu á síðustu leiktíð og gekk svo í raðir Randers í Danmörku í lok leiktíðar.

Hann kom hingað til lands í gær og komst í gegnum læknisskoðun hjá FH og komst að samkomulagi um helstu atriði samnings við félagið til ársins 2008 sem verður skrifað undir um helgina eftir að búið er að ganga frá nokkrum smáatriðum.

,,Við eigum bara nokkur smá atriði sem við þurfum að ganga frá og svo skrifum við undir samninginn," sagði Siim í samtali við Fótbolti.net í gærkvöld.

,,Samkvæmt nýja samningnum verð ég hérna til ársins 2008. Ég kom bara hingað í dag (í gær) svo ég hef ekki æft með liðinu ennþá en æfi á morgun (í dag)."

Siim mun ekki verða með FH í leiknum gegn ÍA í tólftu umferð Landsbankadeildarinnar á morgun og verður ekki löglegur í leiknum gegn Legia Varsjá í Meistaradeildinni á miðvikudag. Hans fyrsti leikur verður því væntanlega gegn Fylki í Kaplakrikanum 10. ágúst.

,,Ég var ánægður hérna í fyrra og því kom ég aftur hingað. Ég spila samt ekki á sunnudag þó það verði skrifað undir samninginn því ég þarf að fara aftur til Danmerkur og ganga frá málum þar."

Í Danmörku gekk Siim í raðir Randers sem vann sér sæti í efstu deild þar í landi á síðustu leiktíð en hann hefur glímt mikið við meiðsli síðan hann fór þangað eins og hann reyndar gerði er hann var hjá FH í fyrrasumar.

,,Ég lenti í meiðslum fljótlega eftir að ég kom frá Íslandi. Svo spilaði ég síðustu sex leikina áður en við fórum upp úr Superligunni. Ég er góður núna svo meiðsli verða ekkert vandamál."

Randers mætti ÍA í UEFA Cup í tveimur leikjum, sá síðari var í fyrrakvöld. Danska liðið hafði betur í þeim viðureignum en samanlögð úrslit voru 2-2 en Randers komst áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Siim gat ekki leikið þá leiki.

,,Því ég var að koma aftur úr meiðslum en ég átti að hefja æfingar í Danmörku á mánudag svo það verður bara á Íslandi nú þegar ég er kominn í FH."

Þrátt fyrir að ná ekki að láta ljós sitt mikið skína á fótboltavelllinum í fyrrasumar er hann var hjá FH var öllum það ljóst sem sáu hann að þarna var fær fótboltamaður á ferð sem getur gefið langar sendingar sem meira að segja David Beckham gæti verið stoltur af. Hann sagði eina ástæðu þess að hann vildi snúa aftur hafa verið loforð sem hann gaf stuðningsmönnum FH.

,,Þegar við unnum Íslandsmeistaratitilinn í fyrra og vorum að skemmta okkur eftir það lofaði ég eiginlega nokkrum stuðningsmönnum því að ég kæmi aftur. Nú er ég kominn hingað til að standa við þau loforð."
Athugasemdir
banner
banner
banner