Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
   fös 13. júní 2003 00:00
Hafliði Breiðfjörð
Skoraðu á Guðna að hætta við að hætta!
Guðni Bergsson var besti maðurinn á vellinum í síðustu tveimur landsleikjum Íslands gegn Færeyjum og Litháen. Að þeim leikjum loknum er íslenska liðið í 2. sæti í sínum riðli og á góða möguleika á að tryggja sér þáttökurétt á EM 2004 í Portúgal með hagstæðum úrslitum í síðustu þremur leikjum riðilssins. Það væri í fyrsta sinn sem Íslenska landsliðið kemst á alvöru stórmót og því ættu allir að leggjast á eitt og láta það verða að veruleika.

Guðni Bergsson hefur tekið ákvörðun um að hætta knattspyrnuiðkun í kjölfar leiksins gegn Litháen 11. júní síðastliðinn. Við hér á fótbolti.net viljum hvetja Guðna til að endurskoða ákvörðunina og leika síðustu þrjá leikina í riðlinum, gegn Færeyjum ytra 20. ágúst, gegn Þjóðverjum 9. september á Laugardalsvelli og svo aftur ytra 11. október.

Við ætlum að setja af stað undirskrifarlista þar sem lesendur síðunnar geta sent okkur inn fullt nafn, kennitölu og jafnvel smá texta með þar sem Guðni verður hvattur til að endurskoða ákvörðunina. Við munum taka saman listann og afhenda Guðna 15. júlí næstkomandi en frá og með þeim degi á hann kost á að ganga til liðs við félag í íslensku deildinni til að halda sér í leikhæfu formi fyrir leikina.

Sendu okkur tölvupóst á [email protected] með fullu nafni, kennitölu og smá texta. Öll mailin verða prentuð út og afhent Guðna persónulega 15. júlí.

Við hvetjum alla sem vilja að Guðni leiki áfram þessa leiki til að taka þátt í undirskriftarsöfnuninni, hvort sem þú ert félagi hans í landsliðinu, hátt settur innan Knattspyrnusambandsins, þekkt nafn í þjóðfélaginu, eða bara óþekktur einstaklingur úti í bæ. Hver sem þú ert, taktu þátt og sendu áskorun á [email protected] Nöfnin verða ekki birt opinberlega heldur einungis afhent Guðna beint, hver tölvupóstur prentaður á blað og því er líklegt að um verði að ræða góðan bunka.


Athugasemdir
banner
banner