Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 02. maí 2017 15:30
Magnús Már Einarsson
Guðjón Árni leggur skóna á hilluna - Margir meiddir hjá Keflavík
Guðjón Árni Antoníusson.
Guðjón Árni Antoníusson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bakvörðurinn reyndi Guðjón Árni Antoníusson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna af heilsufarsástæðum.

Hinn 33 ára gamli Guðjón hóf feril sinn með Keflavík árið 2002 og hefur síðan spilað 270 leiki með meistaraflokki, 233 með Keflavík og 37 með FH í deild og bikar, og skorað í þeim 20 mörk.

Guðjón fékk tvívegis höfuðhögg sumarið 2013 með FH og síðan þá hefur hann verið mikið frá keppni af þeim sökum. Hann hefur nú ákveðið að leggja skóna á hilluna.

„Hann fékk högg á höfuðið í vetur og tók þá ákvörðun um að þetta væri komið gott," sagði Guðlaugur Baldursson, þjálfari Keflavíkur,

Keflavík tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Víði Garði í 2. umferð Borgunarbikarsins um helgina. Einar Orri Einarsson meiddist í þeim leik og þau meiðsli líta illa út.

„Það lítur ekki vel út. Hann fékk stífleika í hásin og það er spurning hvað þetta verður langt," sagði Guðlaugur.

Sigurbergur Elísson var öflugur með Keflavík í fyrra en hann var á bekknum í liði ársins í deildinni. Hann missir af fyrstu leikjum tímabils.

„Sigurbergur fór í aðgerð og er ekki byrjaður að æfa ennþá. Við vonumst til að hann verði klár í júní," sagði Guðlaugur.

Miðjumaðurinn reyndi Hólmar Örn Rúnarsson fer að snúa aftur eftir að hafa slitið krossband í fyrra. Þá hafa Hörður Sveinsson og Frans Elvarsson einnig verið að glíma við meiðsli en það styttist í endurkomu þeirra.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner