Unai Emery, stjóri Aston Villa, var í skýjunum með frammistöðu liðsins í 1-0 sigrinum á Bayern München í Meistaradeild Evrópu í kvöld.
Þetta var fyrsti heimasigur Aston Villa í Meistaradeild Evrópu, en það var Jhon Duran sem gerði fallegt sigurmark liðsins aðeins nokkrum mínútum eftir að hafa komið inn á.
„Við viljum halda stöðugleika til þess að spila í Evrópu,“ sagði Emery, sem hrósaði Duran eftir leikinn.
„Við erum að vinna með honum. Það mikilvægasta er viðhorf hans. Hann er klár í að spila 90, 60 eða 30 mínútur. Hann er með einbeitinguna á þessum mínútum sem hann spilar. Í dag vorum við með tvo góða framherja, þannig þetta er bara frábært fyrir hann og liðið.“
Emiliano Martínez var maður leiksins, en hann hafði í nógu að snúast og átti mikilvægar vörslur.
„Það er mikilvægt að vera sterkur gegn liðum eins og Bayern. Martínez gerði frábærlega í markinu. Þetta voru stórkostlegar vörslur.“
„Við verðum að reyna að spila hvern einasta leik. Við börðumst vel í þessum leik og unnum. Kannski getum við endað deildarkeppnina meðal átta efstu,“ sagði Emery í lokin.
Tók Kompany í kennslustund
Blaðamaðurinn Christian Falk, sem sérhæfir sig í fréttum um Bayern, segir Emery hafa tekið Vincent Kompany, þjálfara Bayern, í kennslustund í kvöld.
„Bayern München er lið sem er vant því að vera með öll völd á leikjum, en Emery þekkir þá vel. Hann kastaði þeim út úr keppninni árið 2022 og vann þá aftur í dag. Vincent Kompany er mjög ungur þjálfari og í dag tók Emery hann í kennslustund,“ sagði Falk.
Athugasemdir