
Kiddi Jóns ekki búinn að spila á þessu tímabili eftir að hafa fengið höfuðhögg í úrslitaleiknum í fyrra.
„Ég er hrikalega spenntur og fullur tilhlökkunar," segir Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, við Fótbolta.net þegar hann er spurður út í komandi leik gegn KR.
Liðin mætast á Kópavogsvelli á mánudagskvöldið. Leikurinn hefst klukkan 19:15.
Liðin mætast á Kópavogsvelli á mánudagskvöldið. Leikurinn hefst klukkan 19:15.
„Þetta verður pottþétt ógeðslega skemmtilegur leikur. Við erum mjög spenntir."
„Ég býst við gjörsamlega galopnum leik, alls staðar. Þetta verða mikil hlaup, opið og skemmtilegt. Ég held það sé fátt sem geti komið í veg fyrir það."
Lið sem hræðist ekki neitt
Hvernig KR liði býstu við og hvað finnst þér um KR liðið?
„Ég býst við KR liðinu eins og það hefur spilað í byrjun móts, býst við því mjög orkumiklu og duglegu, liði sem hræðist einfaldlega ekki neitt. Þeir munu pressa grimmt og reyna spila sig út úr meira og minna öllu."
„Það er mjög skemmtilegt að horfa á KR liðið, skemmtilegir og opnir leikir. Ég hef haft mjög gaman af því að horfa á leikina."
Svipar leikstíll KR eitthvað til Breiðabliks 2020/21?
„Kannski í einhverri grunnhugmyndafræði, en allt annað leikkerfi, öðruvísi týpur á vellinum. Grunnhugmyndin er kannski svipuð en öðruvísi fótbolti að mínu mati."
Þurfa að hlaupa meira en KR
Hvað þurfið þið helst að stoppa hjá KR?
„Ekki neitt, bara hlaupa með þeim. Við getum ekki mætt þannig að við ætlum að stoppa eitthvað hjá þeim. Við þurfum að hlaupa meira en þeir, átta okkur á því að leikurinn mun snúast um dugnað og vinnusemi. Við þurfum að mæta með það og vera klárir í að hlaupa meira en þeir."
Nýju leikmennirnir smellpassað
Hvernig metur þú stöðuna á Breiðabliki eftir fjóra deildarleiki?
„Hún er bara góð, auðvitað miklar breytingar á liðinu. Ef horft er til baka í lok síðasta tímabils þá eru þetta 3-4 leikmenn sem eru að spila flesta leikina núna og spiluðu flesta leikina í fyrra. Þótt kjarninn sé að einhverju leyti sá sami þá hafa verið miklar breytingar. Allir sem hafa komið nýir inn, hvort sem það eru ungir leikmenn að taka að sér stærri hlutverk, leikmenn sem eru nýir hjá félaginu eða eru að koma aftur til baka, þeir hafa allir komið hrikalega vel inn í þetta."
„Við höfum náð að halda í grunninn sem við vorum að gera í fyrra, bættum einhverju við og aðlöguðum eitthvað, en höldum að stóru leyti í það sama. Þeir leikmenn sem eru nýir hafa smellpassað inn í þetta. Heildarframmistaðan eftir fjóra leiki hefur verið mjög góð og fáar mínútur heilt yfir sem maður er eitthvað ósáttur við. Ég er bara sáttur heilt yfir, en við getum bætt okkur og ætlum að gera það, en þetta er ásættanlegt."
Styttist í meiddu mennina
Hvernig er staðan á hópnum?
„Það styttist alltaf í Davíð Ingvars og Kidda Jóns en við þurfum að bíða aðeins lengur eftir þeim. Kristófer (Ingi Kristinsson) er farinn að klára æfingar, en á aðeins í land þegar kemur að formi. Hann gæti farið að klæða sig í búninginn fljótlega, einhver upptröppun að því að komast í stærra hlutverk hjá okkur sem mun taka tíma eftir svona langa fjarveru. Þetta mjakast allt."
Frábært að vera með fyrirliða sem leiðir með slíku fordæmi
Höskuldur Gunnlaugsson er búinn að skora tvö sigurmörk í röð. Getur þú komið því í orð hversu mikilvægur hann er liðinu ykkar?
„Höskuldur er búinn að sýna það ítrekað hversu mikilvægur hann er. Jú, frábært að skora sigurmörk og gríðarlega mikilvægt, en hann er bara leiðtogi þessa liðs, innan og utan vallar, frábær alhliða leikmaður. Burtséð frá sigurmörkunum, þá er frammistaða hans í 90 mínútur í þessum leikjum, bæði varnar- og sóknarlega, frábær. Hann keyrir það áfram sem við viljum standa fyrir. Hann er frábær í fótbolta, tæknilega góður, með góðan leiksskilning, en fyrst og fremst ógeðslega duglegur og harður. Það er númer eitt og svo kemur hitt í kjölfarið. Það er það sem við þurfum og stöndum fyrir. Það er frábært að vera með fyrirliða sem leiðir með slíku fordæmi," segir Dóri.
Meira úr viðtalijnu við Dóra verður birt á morgun.
Athugasemdir