Benoný Breki Andrésson skoraði í lokaumferð ensku C-deildarinnar með liði sínu, Stockport County, í 3-1 sigri á Wycombe Wanderers í dag. Meistararnir í Birmingham City kláruðu mótið með 2-1 sigri á Cambridge United og enduðu því tímabilið með 111, sem er stigamet í EFL-deildarkeppninni.
Benoný var að skora sitt fyrsta mark fyrir Stockport síðan í byrjun mars.
Hann átti svakalega innkomu í tveimur leikjum í röð í mars en hafði ekki komist á blað síðan.
Framherjinn náði að klára deildarkeppnina á góðum nótum og styrkja sjálfstraustið fyrir umspilið sem fer fram á næstu dögum.
Stockport var marki undir er Benoný kom inn og jafnaði metin, en það var byrjunin á glæsilegri endurkomu. Stockport skoraði tvö til viðbótar og tryggði um leið 3. sætið.
Stockport mætir Leyton Orient í undanúrslitum umspilsins.
Willum Þór Willumsson byrjaði hjá Birmingham sem vann Cambridge, 2-1. Þetta hefur verið sturlað tímabil hjá Birmingham sem tók toppsætið með 111 stig. Alfons Sampsted var ekki með liðinu í dag.
Jason Daði Svanþórsson spilaði allan leikinn í 1-0 tapi Grimsby Town gegn Wimbledon. Tapið þýðir að Grimsby fer ekki í umspilið í ár og leikur því áfram í D-deildinni.
Óskar Borgþórsson kom inn af bekknum í 1-0 sigri Sogndal á Mjöndalen í norsku B-deildinni. Sogndal er í 6. sæti deildarinnar með 9 stig.
Hinrik Harðarson kom inn á sem varamaður hjá Odd sem gerði 1-1 jafntefli við Egersund. Odd er í 7. sæti með 7 stig eftir fimm leiki.
Ólafur Guðmundsson byrjaði inn á og þá kom Davíð Snær Jóhannssonn inn af bekknum er Álasund vann 3-1 sigur á Raufoss. Álasund er í 4. sæti með 9 stig.
Íslendingarnir í Fortuna Düsseldorf, þeir Ísak Bergmann Jóhannesson og Valgeir Lunddal Friðriksson gerðu 2-2 jafntefli við Braunschweig í þýsku B-deildinni.
Ísak lék allan leikinn fyrir Fortuna á meðan Valgeir var ónotaður varamaður. Liðið er í 5. sæti og á enn möguleika á að komast upp um deild en það situr aðeins tveimur stigum á eftir þriðja sætinu.
Málin eru að skýrast betur í dönsku B-deildinni. Daníel Freyr Kristjánsson og félagar í Fredericia gerðu 1-1 jafntefli í toppslag meistarariðilsins.
Daníel kom inn af bekknum og hjálpaði sínum mönnum að landa stigi en Fredericia er í öðru sæti með 55 stig, sex stigum fyrir ofan þriðja sætið þegar þrír leikir eru eftir. Liðið getur tryggt úrvalsdeildarsætið í næstu umferð.
Galdur Guðmunds kom þá inn á hjá Horsens sem vann Breka Baldursson og félaga í Esbjerg. Breki var ónotaður varamaður hjá Esbjerg. Horsens er í 3. sæti með 49 stig en Esbjerg í neðsta sæti riðilsins með 38 stig.
Athugasemdir