Palace opið fyrir því að selja enska tvíeykið - Real Madrid vill að Man Utd nýti endurkaupsrétt sinn á Alvaro - Vardy orðaður við Leeds
   lau 03. maí 2025 22:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Óskar Hrafn: Má búast við 100 kílómetra hraða hvirfilbyl
'Ég er bara mjög sáttur hérna í sólinni í Vesturbænum'
'Ég er bara mjög sáttur hérna í sólinni í Vesturbænum'
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
KR vann öruggan sigur gegn ÍA í síðasta leik.
KR vann öruggan sigur gegn ÍA í síðasta leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er með niu stig eftir þrjá leiki.
Breiðablik er með niu stig eftir þrjá leiki.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jamie Brassington, markmannsþjálfari KR.
Jamie Brassington, markmannsþjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'En ég er bara ekki þar í dag'
'En ég er bara ekki þar í dag'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á mánudag heimsækir KR Íslandsmeistara Breiðabliks í 5. umferð Bestu deildarinnar. Leikurinn hefst klukkan 19:15.

Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara KR, í aðdraganda leiksins. KR liðið er ósigrað með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina og Breiðablik er á toppnum með níu stig.

„Ég er fáránlega vel stemmdur fyrir þessum leik. Ég held að það megi búast við 100 kílómetra hraða hvirfilbyl. Ég á von á því að bæði lið muni stíga á bensíngjöfina og fara 'all-in'," segir Óskar.

Mín tilfinning er sú að það skipti ekki öllu máli á móti hvaða liði KR er að spila, liðið ætli bara að spila sinn leik. Er það rétt metið?

„Auðvitað er það ekki þannig að við lokum bara augunum fyrir því hvað aðrir eru að gera. Við berum auðvitað virðingu fyrir andstæðingum okkar, skiptir engu máli hvort það sé Breiðablik, Skaginn, Valur eða KA, en við höfum tekið þá ákvörðun að láta það ekki stjórna okkur, en reynum samt að vera meðvitaðir um styrkleika og veikleika andstæðinga okkar."

Munu refsa grimmar en Skagamenn
Er eitthvað sérstakt sem þarf að passa í leik Breiðabliks?

„Þeir eru með mikil einstaklingsgæði, gríðarlegan hraða á köntunum, Tobias (Thomsen) er virkilega góður alhliða senter og þeir eru með miðjumenn sem eru með þeim allra bestu að koma í seinni bylgjunni. Þeir eru með svo margar ógnir að við höfum ekki tíma í að telja þær allar upp. Það sem helst snýr að okkur er að reyna forða að koma okkur í þær stöður sem við vorum að koma okkur í fyrstu 20 mínúturnar á móti ÍA, þar sem við misstum boltann kannski frekar fyrir okkar eigin klaufaskap heldur en að andstæðingurinn hafi sett okkur undir svo mikla pressu. Ef við gerum það á mánudaginn þá eru Blikar með lið sem ég held að muni refsa grimmar heldur Skagamenn náðu að gera."

Fylgifiskur hugmyndafræðinnar
Hvernig metur þú byrjunina á mótinu, sex stig eftir fjórar umferðir? Skiptir frammistaðan meira máli heldur en stigafjöldinn?

„Já, það gerir það auðvitað. Frammistaðan skiptir okkur í dag meira máli, kannski aðallega það hvort liðið sé að þróast á jákvæðan hátt; eru leikmenn að tengjast betur? Er sameiginlegur skilningur manna á því hvaða leið sé að fara að aukast? Ég er mjög sáttur við byrjunina. Við gætum verið með fleiri stig og gætum verið með færri stig ef við horfum á þetta með úrslitagleraugunum. Það er ekkert sem við erum endilega að dvelja við."

„Tölfræðilega erum við fínir, það þarf ekki að koma á óvart að við fáum mikið á færum á okkur, en við sköpum líka mikið. Það er líka fylgifiskur þessarar hugmyndafræði. Mér líður þannig að þegar við náum meiri stöðugleika í liðsvalið og náum að stilla sama liðinu nokkra leiki í röð að þá verði takturinn ennþá betri og frammistaðan betri. Ég er bara mjög sáttur hérna í sólinni í Vesturbænum."


Meinti þetta fullkomlega
Ummæli Óskars eftir leikinn gegn ÍA, þar sem KR vann 5-0, vöktu athygli. Hann sagði að honum gæti í raun ekki verið meira sama um að liðið hafi haldið hreinu. Meintirðu þetta fullkomlega eða misstirðu þetta smá út úr þér?

„Ég meinti þetta fullkomlega. Þegar lið spilar svona sóknarleik eins og liðið gerði á löngum köflum í Skagaleiknum þá skiptir það bara engu máli hvort við höldum hreinu. Hugarfarið er það að sækja í 90 mínútur og þá getur alltaf eitthvað komið upp á."

„Auðvitað veit ég það samt, og sagði það, að það er mikilvægt fyrir ákveðinn hluta liðsins að halda hreinu. Það er mikilvægt fyrir markmannsþjálfarann okkar að halda hreinu, og ég ber alveg virðingu fyrir því."

„Ég var ekkert brjálaður yfir því að við héldum hreinu, alls ekki þannig, en það er bara ekki eitthvað núna sem ég er að spá í. Við erum að fara örlítið ótroðnar slóðir í því hvernig við erum að reyna byggja þetta lið upp. Við byggjum það frá sóknarleiknum og niður úr. Á meðan við erum að huga að sóknarleiknum og fá hann til að ganga eins og við viljum að hann gangi, þá erum við ekki að fókusera mikið á varnarleikinn. Þá eyðir maður kannski ekki miklum tíma í að hugsa um hvort við höldum hreinu."

„En ég átta mig á því, og ber virðingu fyrir því, að það eru margir sem eru áhugamenn um að halda markinu sínu hreinu enda einfaldar það að vinna leiki. En ég er bara ekki þar í dag,"
segir Óskar.
Meira úr viðtalinu við Óskar verður birt á morgun og í aðdraganda leiksins.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 4 3 0 1 7 - 5 +2 9
2.    Víkingur R. 4 2 1 1 7 - 2 +5 7
3.    Vestri 4 2 1 1 4 - 2 +2 7
4.    ÍBV 4 2 1 1 6 - 5 +1 7
5.    KR 4 1 3 0 12 - 7 +5 6
6.    Fram 4 2 0 2 8 - 6 +2 6
7.    Valur 4 1 3 0 8 - 6 +2 6
8.    Stjarnan 4 2 0 2 7 - 7 0 6
9.    Afturelding 4 1 1 2 1 - 5 -4 4
10.    KA 4 1 1 2 6 - 11 -5 4
11.    ÍA 4 1 0 3 2 - 9 -7 3
12.    FH 4 0 1 3 5 - 8 -3 1
Athugasemdir
banner
banner
banner