Palace opið fyrir því að selja enska tvíeykið - Real Madrid vill að Man Utd nýti endurkaupsrétt sinn á Alvaro - Vardy orðaður við Leeds
   lau 03. maí 2025 16:00
Brynjar Ingi Erluson
Besta deild kvenna: Auðvelt hjá Blikum - Fram vann nýliðaslaginn
Kvenaboltinn
Agla María skoraði tvö í flottum sigri Blika
Agla María skoraði tvö í flottum sigri Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alda Ólafs skoraði seinna mark Fram
Alda Ólafs skoraði seinna mark Fram
Mynd: Toggi Pop
Breiðablik náði í þriðja deildarsigur sinn á tímabilinu er liðið vann Víking, 4-0, í 4. umferð Bestu deildar kvenna í dag. Fram vann þá sinn fyrsta leik á tímabilinu er það lagði FHL, 2-0, í nýliðaslag í Úlfarsárdal.

Blikaliðið hefur liðið ótrúlega vel út í byrjun leiktíðar og hafði þegar unnið tvo stórsigra á tímabilinu áður en það bætti þeim þriðja við í dag.

Það tók Blika aðeins tíu mínútur að komast í forystu en það gerði Heiða Ragney Viðarsdóttir eftir hornspyrnu Öglu Maríu Albertsdóttur. Boltinn datt í teignum og eftir mikinn darraðardans féll boltinn fyrir Heiðu sem skoraði annað mark sitt í deildinni.

FImm mínútum síðar fengu Blikar vítaspyrnu er Birta Georgsdóttir var tekin niður í teignum og skoraði Agla María af vítapunktinum.

Agla var í ham í dag og náði að bæta inn öðru marki sínu á 38. mínútu er hún hamraði boltanum fyrir utan teig og í netið. Geggjað mark og Blikar með þriggja marka forystu þegar haldið var til búningsherbergja.

Seinni hálfleikurinn var ekki alveg jafn fjörugur en það kom þó eitt mark í hann.

Það gerði Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Birta sendi Hrafnhildi í gegn sem kláraði vel framhjá Sigurborgu í markinu.

4-0 sigur Blika staðreynd og liðið á toppnum með 10 stig eftir fjórar umferðir en Víkingur í 7. sæti með 3 stig.

Fram komið á blað

Fram vann sinn fyrsta sigur í Bestu deildinni er FHL kíkti í heimsókn á Lambhagavöllinn í Úlfarsárdal.

Framarar eru að spila í fyrsta sinn í efstu deild í 37 ár, en þær hafa þurft að bíða þolinmóðar eftir fyrsta sigrinum, sem kom loks í dag.

Heimakonur skoruðu tvö mörk á fyrsta stundarfjórðungi leiksins. Sara Svanhildur Jóhannsdóttir skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Öldu Ólafsdóttur.

Alda gerði annað markið á 13. mínútu eftir hornspyrnu. Boltanum var hreinsað í burtu en beint á Öldu sem skoraði með laglegu skoti og tvöfaldaði forystu Framara.

Fram var með öll völd á leiknum og fór með sanngjarna tveggja marka forystu inn í hálfleikinn.

Áfram héldu Framarar í stjórnartaumana í þeim síðari og sköpuðu sér nokkur góð færi en voru sáttar í leikslok með að landa sigri fyrir framan stuðningsmenn sína.

Lokatölur 2-0 og Fram komið á blað í Bestu og upp úr neðsta sætinu í það 9. með 3 stig á meðan FHL er án stiga á botninum.

Breiðablik 4 - 0 Víkingur R.
1-0 Heiða Ragney Viðarsdóttir ('10 )
2-0 Agla María Albertsdóttir ('17 , víti)
3-0 Agla María Albertsdóttir ('38 )
4-0 Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir ('80 )
Lestu um leikinn

Fram 2 - 0 FHL
1-0 Sara Svanhildur Jóhannsdóttir ('4 )
2-0 Alda Ólafsdóttir ('13 )
Lestu um leikinn
Besta-deild kvenna
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 4 3 1 0 19 - 4 +15 10
2.    FH 4 3 1 0 8 - 1 +7 10
3.    Þróttur R. 4 3 1 0 7 - 3 +4 10
4.    Valur 4 2 1 1 5 - 1 +4 7
5.    Þór/KA 4 2 0 2 6 - 8 -2 6
6.    Stjarnan 4 2 0 2 6 - 13 -7 6
7.    Tindastóll 4 1 0 3 3 - 5 -2 3
8.    Víkingur R. 4 1 0 3 7 - 11 -4 3
9.    Fram 4 1 0 3 4 - 12 -8 3
10.    FHL 4 0 0 4 1 - 8 -7 0
Athugasemdir
banner
banner
banner