fim 03. september 2020 10:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Hafði miklu meira gaman að því að horfa á Fulham en United"
Stuðningsmaður Fulham - Ásgeir Eyþórsson
Ásgeir Eyþórsson.
Ásgeir Eyþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Steed Malbranque.
Steed Malbranque.
Mynd: Getty Images
Josh Onomah eða Josh Maradonomah.
Josh Onomah eða Josh Maradonomah.
Mynd: Getty Images
Scott Parker stýrir Fulham.
Scott Parker stýrir Fulham.
Mynd: Getty Images
Fótbolti.net hitar vel upp fyrir nýtt tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem hefst 12. september næstkomandi. Við kynnum liðin í ensku úrvalsdeildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.

Fulham er spáð 19. sæti deildarinnar.

Ásgeir Eyþórsson, miðvörður Fylkis, er stuðningsmaður Fulham og hann svaraði nokkrum laufléttum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Fulham af því að... Hélt áður með United en þegar ég var svona ca. 12 ára fannst mér ég þurfa að halda með einhverju liði í neðri helmingnum líka. Man nú ekki nákvæmlega af hverju Fulham varð fyrir valinu en fýlaði bæði Chris Coleman sem var að þjálfa liðið og Steed Malbranque sem var aðalmaðurinn þá. Komst fljótt að því að ég var farinn að hafa miklu meira gaman af því að horfa á Fulham spila en United og þá varð Fulham bara mitt lið.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Virkilega sáttur með síðasta tímabil. Það tók okkur nokkur ár að komast aftur upp í efstu deild þegar við féllum 2014 og var skíthræddur að það yrði sama sagan aftur, sérstaklega þar sem manni fannst liðið á frekar slæmum stað eftir endalaus félagaskipti sem gengu ekki upp árið á undan. Tímabilið var upp og niður en komumst á alvöru skrið undir lokin og maður fór bjartsýnn inn í umspilið sem við náðum sem betur fer að klára.

Líst annars mjög vel á næsta tímabil, Parker er að henda saman flottu liði sem mun sýna það að Fulham á að sjálfsögðu heima í efstu deild.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Fékk ferð til London og miða á Fulham leik í fermingargjöf frá foreldrum mínum árið 2007. Fórum þá á Craven Cottage og sáum alvöru 2-2 jafntefli við Blackburn. Frábær völlur og löngu orðið tímabært að skella sér aftur. Tek vinahópinn fljótlega með mér á Cottage og mun Fulham stuðningsmönnum á Íslandi líklega fjölga eitthvað eftir þá upplifun.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Aleksandar Mitrovic og Tim Ream eru í uppáhaldi.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Jean Michael Seri. Eins spenntur og ég var fyrir honum þegar hann kom, þá sýndi hann ekki mikið í þeim leikjum sem hann spilaði fyrir okkur. Hef heldur ekki hrifist af Alfie Mawson.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Josh Onomah eða Josh Maradonomah eins og hann er oftast kallaður mun stimpla sig almennilega inn í vetur.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Tek Calum Chambers frá Arsenal. Var okkar besti maður í Premier League þegar hann kom á láni fyrir tveimur árum.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Mjög sáttur við Scott Parker og hef fulla trú á því að hann komi liðinu aftur á rétta braut. Alvöru þjálfari sem vill spila góðan bolta. Fékk líka nokkur aukastig fyrir viðtalið eftir að við tryggðum okkur upp.

Einhver ein merkileg saga eða minning sem tengist þér og félaginu? Bestu minningarnar sem maður á tengjast „run-inu“ okkar í Evrópudeildinni 2010. Þar stendur 4-1 sigur á Juventus upp úr. Dreymir ennþá reglulega um vippuna hjá Clint Dempsey í þeim leik, rosalegt mark.

Fulham verslaði ansi mikið síðast þegar félagið fór upp og fór beint niður. Hvað þarf að gerast til að niðurstaðan verði ekki sú sama núna? Man hvað maður var rosalega spenntur fyrir það tímabil og öllum nýju mönnunum sem voru að koma inn þá. Maður var farinn að horfa í að liðið yrði að berjast í efri hlutanum og henti í nokkur vel bjartsýn veðmál fyrir það tímabil. Það sýndi sig að þetta voru alltof miklar breytingar á stuttum tíma og Parker hefur talað um að það verði ekki jafn mikil leikmannavelta núna. Okkur vantar smá stöðugleika og við náum vonandi bara á að halda liðinu uppi og stimpla okkur aftur inn í efstu deild.

Í hvaða sæti mun Fulham enda á tímabilinu? 14.

Sjá einnig:
Draumaliðsdeild Budweiser og Fótbolta.net búin að opna


Athugasemdir
banner
banner
banner