Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   fös 04. febrúar 2022 09:12
Elvar Geir Magnússon
Vanda staðfestir framboð - Sendi hreyfingunni aðgerðarlista
Vanda Sigurgeirsdóttir á Laugardalsvelli.
Vanda Sigurgeirsdóttir á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vanda Sigurgeirsdóttir hefur staðfest að hún muni bjóða sig fram til áframhaldandi setu sem formaður KSÍ. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem hún hefur sent frá sér.

Ársþing sambandsins fer fram þann 26. febrúar en ekki hefur annar aðili tilkynnt um formannsframboð. Páll Magnússon fyrrum alþingismaður og Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA íhuga þó framboð.

Skila þarf inn framboði í síðasta lagi eftir viku.

„Ég er mjög stolt af þeirri vinnu sem hefur átt sér stað innan KSÍ síðustu mánuði, verkefnin hafa verið mörg og krefjandi og samtöl og samvinna skilað okkur aftur á réttan kjöl. Þá vinnu vil ég halda áfram að leiða," segir Vanda.

„Verkefnin framundan eru mörg og spennandi, að efla knattspyrnufélögin í landinu og styrkja barna og unglingastarfið. Við þurfum að setja kraft í að bæta aðstöðuna um land allt, koma þjóðarleikvangsmálum á stað, styrkja landsliðin og efla orðspor KSÍ. Ég er ákaflega stolt af þeim grunni sem við í stjórn KSÍ og starfsfólk höfum lagt á undanförnum mánuðum til áframhaldandi uppbyggingar."

Ætlar að ráða yfirmann fótboltamála í fullt starf og fjölga gervigrasvöllum
Vanda hefur sent hreyfingunni aðgerðarlista sem hún hyggst vinna eftir.

„Með þessu gefst tækifæri á til að koma með tillögur, ábendingar, athugasemdir og spurningar um verkefnin framundan því samvinna okkar er lykillinn að árangri," segir Vanda í fréttatilkynningunni.

Meðal markmiða á aðgerðarlista Vöndu er að auka tekjur KSÍ, ráða yfirmann fótboltamála í fullt starf á þessu ári, opna samskiptaleiðir við félögin í landinu, fjölga iðkendum, styðja þær aðgerðir að fjölga gervigrasvöllum og halda áfram að vinna að jafnrétti allra kynja.

Staðan varðandi þjóðarleikvang er alvarleg
Varðandi þjóðarleikvang er markmið hennar að komin verði niðurstaða á þessu ári um framkvæmdina.

„Það er ljóst að ákveðin pattstaða hefur verið í gangi varðandi uppbyggingu Þjóðarleikvangs. Staðan er alvarleg og mikilvægt er að grípa til aðgerða. Við hjá KSÍ ásamt KKÍ og HSÍ höfum rætt
málið við Ásmund Einar Daðason ráðherra sem tók mjög vel í okkar málflutning, sem ég er þakklát fyrir. Ég hef þó einnig skoðað fleiri möguleika og tel að við þurfum að vera opin fyrir öðrum hugmyndum. Tímasetning framkvæmda skiptir þar miklu máli,"
segir í aðgerðarlistanum.

Þar segist Vanda ætla að funda með ríki og borg og reyna að fá fram ásættanlega niðurstöðu. Gangi það ekki eftir þurfi að leita annarra leiða og funda með aðilum sem eru með aðrar lausnir.

„Ég hef þegar fundað með einum slíkum hópi," segir Vanda en til umræðu hefur komið að nýr þjóðarleikvangur muni hugsanlega rísa utan Reykjavíkur.
Athugasemdir
banner
banner
banner