Gleðilegt fótboltasumar lesandi góður. Mikið er nú skemtilegur tími í vændum hjá okkur sem höfum gaman að íslenska boltanum. Langur dimmur en samt svo ágætur vetur að baki og nú tekur gleðin öll völd. Ég er alveg viss um að sumarið í sumar verði skemmtilegt og heillandi.
Efsta deildin hefst um helgina og ég er fullviss um að baráttan í sumar verði hörð og skemmtileg. Ómögulegt er fyrir mig að spá til um hvernig þetta fer. Enda er ég einhver allra lélegasti spámaður sem til er en samt reynir maður að hanga með og þá með diplómatískum aðferðum sem eru reyndar mjög íslenskar því þær fara hvorn veginn sem er. Ekki flókið!
Það er eðlilegt og sanngjarnt að spá FH efsta sætinu. Liðið er nýjasta stórveldið í íslenska boltanum. Hafa verið í toppbaráttu síðan þessi öld hóf reið sína. En ég held að fleiri lið geri sér gott til glóðarinnar og ætli sér efsta sætið og hirða nafnbótina af FH-ingum. Fyrir mér koma lið eins og Breiðablik, Stjarnan og KR vel til greina. Flott lið allt saman með góða leikmannahópa og töluvert tjaldað til.
Fyrir neðan þessi fjögur sett ég síðan önnur fjögur lið sem gæti vel gert tilkall til baráttunnar og líka dottið niður í næstu grúbbu. Lið eins og Valur, ÍBV, ÍA og Víkingur Ólafsvík munu koma þar fyrir neðan. Kannski reka einhverir upp stór augu að sjá nafn Víkings þarna en ég er þess fullviss (allavega fyrir mót) að Ólafsvíkingar munu stimpla sig vel inn. Mín trú er sú að þeir munu ekki tapa mörgum stigum á heimavelli og ef þeir ná nokkrum góðum stigum á útivelli sigla þeir þessu örugglega og vel í land. Svona alveg eins og þeir eru þekkastir fyrir vestan að sigla aflanum í land og skapa okkur Íslendingum góðar tekjur.
Fyrir neðan þessi lið berjast síðan önnur fjögur um að forða sér frá kjallaranum. Engin nennir að standa í því að vera þarna í slorinu og spóla í fjötrum þess. Keflavík, Fylkir, Fram og Þór eru að mínu mati þau lið sem gætu lent þarna. En eins kerlingin sagði eitt sinn ,„Hvað veit ég?" Engum vil ég svo illt að spá falli en spennandi verður þetta.
Ég veit að við eigum í væntum flott og gott sumar.
Landsbyggðin kemur sterk inn og á fimm flotta og góða fulltrúa. Höfuðborgin á sína fjóra og svo Kraginn sína þrjá.
Einnig verður líka fróðlegt og skemmtilegt að sjá að kempur eins og Hermann Hreiðarsson, Brynjar Björn Gunnarsson og Veigar Pál Gunnarsson sem eru komnir heim. Allt frábærir og flottir einstaklingar sem eiga eftir að setja mark sitt á deildina og býð ég þá alla velkomna heim! Hafa verið landi og þjóð mikil sómi undanfarna áratugi eða svo. Davið James er stærsta nafn sem komið hefur hingað til að spila í okkar deild. Koma hans hingað til að spila og þjálfa er bara himnasending fyrir okkur. Ef fólk sér ekki ástæðu að fara á völlinn til að sjá einn af betri markvörðum heims undanfarin ár þá veit ég ekki hvað.
Síðan vil ég hrósa fjölmiðlum landsins sem fjalla um fótbolta almennt. Við eigum góða og flotta fjölmiðla sem standa sig mjög vel hvað öll umfjöllun varðar. Ég er ekkert hlutlaus þegar kemur að þessu. Þekki allfesta íþróttafjölmiðlamenn landsins frá Hádegismóum, við Grafarvoginn og niður í Hlíðar. Umfjöllunin um boltann er mikil og góð. Allt saman toppfólk sem skilar sínu til áhugamannsins sem þyrstir í allt svona. Enda eru fótboltafréttir jákvæðar, skemmtilegar og uppbyggilegar annað en pólitískar fréttir eða fréttir frá miðausturlöndun.
Styðjum okkar lið, mætum á völlinn og verum góð við hvort annað. Við eigum það öll skilið. Líka þú!
Tómas Úlfar Meyer
Athugasemdir