Chelsea blandar sér í baráttu við Arsenal um Isak - Real Madrid hyggst lána eftirsóttan Guler - Mourinho ekki að reyna við Ronaldo
   þri 04. júní 2013 14:15
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Stígum upp sem fótboltaþjóð
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið hefur átt mjög flotta undankeppni.
Íslenska landsliðið hefur átt mjög flotta undankeppni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland er ansi léleg fótboltaþjóð ef ekki verður setið í hverju einasta sæti Laugardalsvallar þegar landsliðið leikur við Slóveníu. Loksins eigum við lið sem skyndilega á möguleika á að komast á stórmót og leikurinn á föstudag er einn af úrslitaleikjunum.

Útileikurinn gegn Slóveníu var einn skemmtilegasti fótboltaleikur sem ég hef farið á og vonandi kemst heimaleikurinn líka í sama flokk.

Nú þegar íslenskur fótbolti hefur stigið skref fram á við og landsliðið orðið betra væri gaman að sjá stuðningsmenn og alla umgjörð á leikdegi fylgja með. Með tilkomu Tólfunnar hefur orðið bæting á en við eigum enn langt í land hvað þetta varðar.

Fækka stuðningsmönnum sem eru að leggja bílnum fyrir utan þegar fimm mínútur eru búnar af leiknum og eru svo að fara á 80. mínútu til að forðast „traffíkina", sama hver staðan er í leiknum.

Hjá alvöru fótboltaþjóðum er leikdagur svo miklu meira en leikurinn sjálfur. Þetta er alvöru viðburður þar sem fjölskyldur eða vinahópar koma saman og gera sér glaðan dag. Gíra sig upp í leikinn og svo sameinast fólk í söngvum og köllum þegar búið er að fá sér sæti í stúkunni.

Allir sem hafa farið á stórleiki eða stórmót erlendis þekkja stemninguna sem myndast þegar áhorfendur safnast saman á torgum eða annarstaðar og hita upp fyrir komandi leik, ræða málin eða bregða á leik. Þeir sem vilja fá sér nokkra kalda gera það eins og tíðkast fyrir flesta menningarviðburði og oft eru hljómsveitir og önnur skemmtiatriði.

Íslendingar virðast hræddir við breytingar, þó þær séu jákvæðar. Þrótturum gengur erfiðlega að fá leyfi fyrir bjórtjaldi við félagsheimili sitt þrátt fyrir loforð um strangar reglur og gæslu. Það kemur mér mest á óvart frá Reykjavíkurborg með Besta flokkinn við völd. Flokk sem auglýsti sig sem flokk sem ætlaði að gera borgina skemmtilegri.

Allstaðar eru svartir sauðir. Stuðningsmaður HK sem lét ófriðlega á Kópavogsvelli um daginn er dæmi. Ekki var bjórtjald fyrir utan völlinn þar. Þórunn Þrastardóttir (sem ég þekki reyndar ekkert) komst vel að orði á ummælakerfi Fótbolta.net:

„Hvað þetta bjórtjald varðar þá er mín skoðun sú að þar geti myndast ákveðin og peppandi stemning sem gæti ef til vill orðið til þess að einstaklingar sem þangað sækja þjappist og taki jafnvel enn meiri þátt í söng og gleði í stúkunni, sem gæti þá jafnvel haldist á fleirum leikjum en bara þessum," og stuðlað að betri aðsókn.

En sama hvort tjaldað verður eða ekki, ef þú segist hafa áhuga á fótbolta þá mætirðu á leikinn á föstudag. Íslenska landsliðið er það lið sem stendur þér hvað næst.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner