Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mið 05. júní 2013 11:05
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hermann Gunnarsson - kóngurinn fallinn frá
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Hermann Gunnarsson var fyrirliði Vals í Evrópuleik gegn Benfica í Lissabon 1968. Hér er hann fyrir leikinn ásamt Joseph Cassar-Naudi, dómara, og Coluna, fyrirliða Benfica og landsliðs Portúgals. Hermann skoraði eina mark Vals í leiknum, 8:1. Coluna skoraði einnig eitt mark.
Hermann Gunnarsson var fyrirliði Vals í Evrópuleik gegn Benfica í Lissabon 1968. Hér er hann fyrir leikinn ásamt Joseph Cassar-Naudi, dómara, og Coluna, fyrirliða Benfica og landsliðs Portúgals. Hermann skoraði eina mark Vals í leiknum, 8:1. Coluna skoraði einnig eitt mark.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Mynd: Guðmundur Karl
Einn mesti markvarðahrellir íslenskrar knattspyrnu, Hermann Gunnarsson, markakóngurinn mikli, er fallinn frá. Hermann varð bráðkvaddur í Tælandi, þar sem hann var í fríi, þriðjudaginn 4. júní.

Hermann, sem var í hópi marksæknustu knattspyrnumanna Íslands, varð Íslandsmeistari með Val fimm sinnum: 1966, 1967, 1976, 1978 og 1980 - og bikarmeistari þrisvar: 1965, 1974 og 1976.

Hermann var afar marksækinn leikmaður og það var ótrúlegur töframáttur í skóm hans. Hann varð markakóngur þrisvar - 1967 (Val), 1977 (ÍBA) og 1973 er hann bætti markamet Þórólfs Beck um eitt mark, skoraði 17 mörk fyrir Val.

Hermann skoraði 93 mörk í efstu deild og tvö mörk í aukaúrslitaleikjum - gegn Keflavík 1966 og Fram 1967.

Hermann er sá leikmaður sem hefur oftast sett þrennu á Íslandsmótinu - alls níu sinnum.

Landsliðsmaður í tveimur greinum
Hermann var bæði landsliðsmaður í handknattleik og knattspyrnu. Þegar hann lék sinn fyrsta landsleik í handknattleik - gegn Pólverjum 13. febrúar 1966 í Laugardalshöllinni, 23:21, lék hann við hliðina á Guðjóni Jónssyni og Sigurði Einarssyni, sem höfðu leikið landsleiki bæði í handknattleik og knattspyrnu. Hermann skoraði tvö mörk gegn Pólverjum.

Hermann fetaði í fótspor þeirra Guðjóns og Sigurðar og lék sinn fyrsta landsleik í knattspyrnu gegn Wales um sumarið, 15. ágúst, og skoraði jöfnunarmark örfáum sek. fyrir leikslok, 3:3.

Hermann klæddist landsliðspeysunni í 23 landsleikjum og skoraði sex mörk. Þar af tvö mörk í leik gegn Noregi, 2:0.

Hermann lék 15 landsleiki í handknattleik og skoraði 41 mark. Þar af 17 mörk í leik gegn Bandaríkjunum 1966, 41:19, sem var þá heimsmet og Íslandsmet þar til Gústaf Bjarnason bætti það 1997 er hann skoraði 21 mark í leik gegn Kína.
Hermann afrekaði það að skora mörk bæði í landsleikjum í knattspyrnu og handknattleik gegn Noregi og Vestur-Þýskalandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner