Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 05. september 2019 08:00
Heiðar Birnir Torleifsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þjálfun barna og unglinga í knattspyrnu
Heiðar Birnir Torleifsson
Heiðar Birnir Torleifsson
Mynd: Eyþór Árnason
Við þjálfum barna og unglinga í knattspyrnu er mikilvægt að leiðarstef þjálfunarinnar sé tæknileg færni iðkenda.

Fyrir það fyrsta eiga allar æfingar að hefjast á einhversskonar knattstjórnunar(ball mastery) æfingum. Að hlaupa í hringi eða þess háttar upphitunaræfingar hafa engan tilgang og eiga ekki að vera hluti af þjálfun yngriflokka í knattspyrnu.

Æfingauppbygging þarf að vera með þeim hætti að færni sé kennd á yfirvegaðan hátt. Erfiðleikastigið og hraðann á svo að auka smá saman þar til komið er í leikrænar aðstæður undir fullri pressu.

Í framhaldinu er mikilvægt að leikmenn séu hvattir til að reyna sig við þá færni sem kennd hefur verið í leikspili sem allar æfingar eiga að enda á.

Þannig helst rauður þráður út í gegnum æfinguna og er hún sem ein heild.

Það sem þjálfarar gera stundum er að kenna of mikið eða „over coach”(hefur undirritaður fallið í þá gryfju oftar en hann kærir sig um). Það reynist aldrei vel og of mikið af upplýsingum er aldrei af hinu góða að mínu mati.

Þegar spilað er á æfingum(ég notaði orðið leikspil áðan) mega ekki vera of margir í liði eða of miklar pásur. Mikilvægt er að hafa nóg af boltum(1 bolti á hvern iðkanda) og sleppa föstum leikatriðum sem taka óratíma og hafa engan tilgang í þjálfun ungra iðkenda.

Viðhalda þannig pressunni og hafa iðkendafjöldann þannig að allir hafi möguleika á að vera með boltann og reyna sína færni. Ef barn hefur ekki boltann. Hvernig getur það náð framförum?

Það er gríðarlega mikilvægt að þjálfarar geti sýnt æfingarnar og leyfi iðkendum svo að prófa. Eftir það á að útskýra með örfáum orðum. En alltof margir snúa þessu við eða sleppa jafnvel að sýna æfingarnar og tala eingöngu.Svo er máttur endurtekningarinnar gríðarlega mikilvægur og ekki er hægt að kenna allt á einni æfingu :)

Heimaverkefni á einnig að vera stór hluti af starfinu. Mikilvægt er að setja iðkendum fyrir og hvetja þau til að æfa sig sjálf. Hjá mörgum félögum á Íslandi er fyrirtaks aðstaða fyrir iðkendur til að æfa sig sjálf.

Knattstjórnunnar æfingar eða ball mastery eru frábærar æfingar fyrir iðkendur að nota við heimaæfingar. Það sem við gerum í Coerver Coaching, er að við setjum fyrir þær knattstjórnunar æfingar sem voru notaðar í upphituninni á viðkomandi æfingu. Þannig kunna leikmenn æfingarnar og æfa sig heima.

Hér er dæmi um heimaæfingu

Iðkendur sem eru duglegir að æfa knattstjórnun fá betri fyrstu snertingu á bolta, verða betri í að hlaupa með bolta, senda bolta, klára marktækifæri o.frv.

Þetta er ekki eingöngu skoðun okkar í Coerver Coaching heldur einnig Xavi Hernandes fyrrum stjörnuleikmanns FC Barcelona og Spánar. Xavi sem er af mörgum talinn einn besti sendingamaður allra tíma lét hafa eftir sér fyrir nokkrum árum „knattstjórnun er grunnurinn að sendingafærni”.

Eins og áður segir á aðaláhersla í þjálfun barna og unglinga að vera færni einstaklingsins. Það er að minnsta kosti skoðun okkar í Coerver Coaching.

Pep Lijnders þjálfari hjá Liverpool FC hefur þetta að segja um hæfileikamótun ungra leikmanna.

„Ungir leikmenn þurfa ekki gagnrýni, heldur fyrirmyndir. Í augnablikinu sé ég fullt af þjálfurum sem

einblína eingöngu á taktík og úrslit leikja. Þeir sætta sig við núverandi tæknilega færni leikmanna sinna og einblína á að þróa taktík liðsins með það fyrir augum að vinna fleiri leiki. Ég vil líka vinna fótboltaleiki en ég vil gera það vegna færni einstaklinganna í liðinu”.

Alvarlegt gaman eða „serious fun” er hlutur sem við í Coerver Coaching reynum alltaf að skapa.

Okkar skoðun er sú að ef börnum finnst gaman þá læra þau betur.

Fyrirmyndir hafa einnig frá fyrstu tíð verið mikilvægur hlutur af æfinga og kennsluáætlun Coerver Coaching. Í yfir 35 ár höfum við notað bæði fyrirmyndir í formi leikmanna og einstakra liða.

Með því að hjálpa einstaklingnum að ná eins miklum framförum og mögulegt er gerist eftirfarandi.

Leikmaðurinn/iðkandinn nýtur fótboltans betur og hefur meira gaman af og er meira tilbúin að læra nýja hluti.

Foreldrarnir verða ánægðari og leikmaðurinn verður betur í stakk búinn til að takast á við áskoranir framtíðarinnar og verða góður leikmaður með alhliða færni.

Knattspyrnukveðjur,
Heiðar Birnir Torleifsson,
Yfirmaður Knattspyrnumála hjá Coerver Coaching á Íslandi
Athugasemdir
banner
banner