Þungi fargi var létt af Pep Guardiola, stjóra Manchester City, eftir að liðinu tókst að binda enda á sjö leikja taphrinu með því að vinna Nottingham Forest, 3-0, í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Man City fór í gegnum versta kafla sinn síðan Guardiola tók við árið 2016.
Liðið hafði tapað fjórum deildarleikjum í röð og ekki unnið í síðustu sjö en sigurinn kom loks í gær.
„Við þurftum svo mikið á þessu að halda eftir að hafa farið í gegnum marga leiki án þess að vinna,“ sagði Guardiola.
Kevin de Bruyne skoraði og lagði upp en þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur hans síðan í september.
„Kevin De Bruyne var magnaður, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Hann er okkur svo mikilvægur þegar hann er í formi og hefur verið í mörg ár síðan hann kom frá Þýskalandi,“ sagði Guardiola sem hrósaði einnig Jack Grealish. „Hann var góður. Grealish hjálpaði okkur með þessar aukasendingar og þegar hann átt að taka á rás þá gerði hann það. Mjög góður og mikil barátta í honum.“
Varnarmaðurinn Nathan Aké meiddist í leiknum en Guardiola segist óviss með stöðuna.
„Ég veit það ekki. Við munum skoða það betur á morgun (í dag). Hann er ótrúlega mikilvægur leikmaður og við höfum verið í miklu basli með þau (meiðslin) á þessu tímabili.“
Annars var spænski stjórinn ánægður og vonar að liðið haldi áfram að skila úrslitum í næstu leikjum.
„Við verðum að halda áfram að sanna það. Þetta var bara einn leikur, en samt mjög mikilvægt að binda endi á taphrinuna,“ sagði Guardiola í lokin.
Man City er í 4. sæti deildarinnar með 26 stig, níu stigum frá toppliði og erkifjendum sínum í Liverpool.
Athugasemdir