Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   fim 06. mars 2014 11:00
Óli Stefán Flóventsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hvað er góður árangur?
Óli Stefán Flóventsson
Óli Stefán Flóventsson
Leikmenn Sindra fagna marki síðastliðið sumar.
Leikmenn Sindra fagna marki síðastliðið sumar.
Mynd: Gunnar Stígur Reynisson
Óli Stefán á hliðarlínunni hjá Sindra.
Óli Stefán á hliðarlínunni hjá Sindra.
Mynd: Gunnar Stígur Reynisson
Mynd: Gunnar Stígur Reynisson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Árangur í lífinu getur verið margvíslegur. Þú getur náð góðum árangri í skóla, verið í góðri vinnu og þér almennt vegnað vel.

Í knattspyrnu finnst mér örla á því að árangur sé mældur öðrvísi. Þar er takturinn annar og stundum er eins og klukkan sé alltaf að slá tólf. Ef þú fylgist með enska boltanum þá sérðu það að árangur þar er mældur í gulli. Þeir sem eru ríkastir eru bestir og eiga að vinna allt, það er það eina sem skiptir orðið máli. Mörg félögin hafa farið flatt á því að leggja allt í sölurnar til þess að ná í titil. Gamla stórveldið Leeds United er gott dæmi um það en þeir eru miðlungs lið í B deild á Englandi í dag vegna þess að þeir settu allt undir til að ná „árangri“. Hrunið var algjört og eru þeir ennþá að reyna að koma sér á fætur áratug seinna. Þetta á við fleiri lið um víða veröld.

Ég velti því fyrir mér þessa dagana hvað það er að ná árangri í íslenskum fótbolta. Eins og áður í mínum pistlum vitna ég í starf mitt sem þjálfari Sindra frá Hornafirði. Ég er mjög metnaðarfullur og vill ná árangri sem þjálfari. Þess vegna hef ég mikið verið að hugsa um spurninguna, hvað er árangur? Er eina leiðin fyrir mig að ná árangri með Sindra að vinna alla leiki, skila dollum og ná jafnvel í sjálfan Íslandsmeistaratitilinn eftir einhver ár? Er það raunhæft fyrir tvöþúsund manna bæjarfélag, þar sem hundruðir kílómetra eru í næsta bæ? Ef það er ekki raunhæft, get ég þá mögulega náð góðum árangri sem þjálfari Sindra?

Ein leiðin gæti verið að fá til mín 10-12 atvinnumenn alveg frá Færeyjum, niður til Nýja Sjálands, og allstaðar þar á milli. Þannig gæti ég náð liði mínu upp um deildir á skömmum tíma. Myndi það flokkast sem árangur?? Eða er kannski árangur að ná í úrvalsdeildarsæti og hanga þar í tvö til þrjú ár og skilja félagið eftir gjaldþrota? Kannski fengi ég sem þjálfari góðan stimpil á mig og jafnvel starfstilboð frá KR eða öðrum stórum klúbbum. Í mínum augum væri það ekki góður árangur því það er eins og að byggja hús á sandi.

Það eru svo margir þættir sem þarf að hafa í huga þegar maður mælir þennan blessaða árangur. Að sjálfsögðu fer maður í alla leiki til að vinna og ég vil ná sem lengst með liðið, en þó á réttum forsendum. Ég er gríðarlega stoltur af því sem er í gangi hér á Hornafirði. Hér eru lið í öllum flokkum karla og kvenna. Reglulega fara leikmenn héðan í efstu deildir á Íslandi og síðan jafnvel í atvinnumennsku. Einnig erum við að skila leikmönnum í íslensku landsliðin. Rekstur deildarinnar hefur verið stöðugur síðustu ár og við höfum verið réttu megin við núllið sem er ótrúlegt í ljósi þess að ferðakostnaður okkar er gríðarlegur og er klárlega langstærsta sneiðin í peningaköku okkar. Uppeldisstefnan er skýr og við erum að skila mörgum leikmönnum uppí meistaraflokkana á hverju ári en um leið reynum við að styrkja liðið hóflega með leikmönnum sem gera aðra betri.

Forvarnarmálin eru okkur mjög hugleikin en núna í vetur fengum við þriðja flokk karla og kvenna sem eru 15-16 ára unglingar til að skrifa undir afrekssamninga. Með þessum samningum eru krakkarnir að skuldbinda sig til þess að lifa reglulífi, nota ekki áfengi, tóbak eða önnur vímuefni og tileinka sér afreks hugsunarhátt. Við erum að vona að við séum að búa til leiðandi hóp af unglingum sem hvetja aðra krakka sem jafnvel eru ekki í íþóttum í reglusemi og heilbrigðan lífstíl. Á móti bjóðum við uppá aukaæfingar og fræðslu ásamt því að í sumar fer þessi hópur í keppnisferð til Spánar. Með þessu eru krakkarnir að leggja grunn að góðum árangri í lífinu, hvort sem er í íþróttum, skóla eða hverju sem er.

Tel ég mig vera að ná góðum árangri með Sindra? Svarið er já, vegna þess að ég er trúr mínum gildum og ég tel okkur vera að búa til grunn sem við getum byggt á í framtíðinni. Við höfum alltaf bætt árangur okkar í deildarkeppni frá ári til árs síðustu fjögur ár. Það koma upp ungir leikmenn á hverju ári. Fjárhagurinn er stöðugur. Uppbygging á aðstöðu okkar hefur verið rosaleg og er hún með betra móti á Íslandi í dag. Við höfum náð öllum okkar fimm ára markmiðum sem við settum okkur fyrir fjórum árum.

Ég er ekki viss um að þessi „afrekalisti“ minn mundi duga til að fá starf sem þjálfari KR, eða halda vinnu minni ef ég væri stjóri á Englandi. Í sannleika sagt er mér alveg sama vegna þess að á meðan ég tel mig vera að ná árangri samkvæmt minni skilgreiningu og mínum gildum þá er ég ánægður.

Þetta er Óli Stefán sem skrifar frá Hornafirði
Athugasemdir
banner
banner
banner