Elvar Geir Magnússon skrifar frá Cardiff
„Ég hef sjaldan séð annað eins," sagði Ashley Williams, fyrirliði velska landsliðsins, eftir stórsýningu Gareth Bale gegn Íslandi í gær. Í hverri einustu sókn heimamanna var leitað að þessum dýrasta fótboltamanni heims og áhorfendur tóku við sér. Kominn í sama flokk og Ronaldo og Messi sagði Lars Lagerback eftir leik.
Rúmlega þrettán þúsund áhorfendur voru mættir á völlinn og ég þori að fullyrða að langstærstur hluti þeirra var mættur í þeim eina tilgangi að berja Bale augum. Fólk rétt nennti að klappa þegar aðrir leikmenn Wales voru kynntir en þegar þeirra stjarna var lesin upp var fagnað. Áhuginn fyrir fótboltalandsliðinu hefur ekki verið mikill í landinu enda liðið lítið látið til sín taka.
Ég ræddi þetta við einn af fjölmörgum málglöðum leigubílstjórum Wales. Hann sagði að meðal fólks hefði ruðningslandsliðið verið mun vinsælla. Íþróttin mun smærri en fótboltinn, fáar þjóðir að leggja áherslu á hana og líkurnar á árangri því mun meiri. Ruðningurinn er þeirra handbolti.
En knattspyrnusamband Wales gerir sér grein fyrir því að nú er lag. Nú er hægt að ná áhuganum upp. Liðið var heppið með drátt í undankeppni EM og innan raða þess er einn heitasti fótboltamaður heims um þessar mundir. Maður sem var aðhlátursefni sem vinstri bakvörður hjá Tottenham fyrir einhverjum árum því liðinu virtist fyrirmunað að vinna fótboltaleiki með hann innanborðs. Nú eru það varnarmennirnir sem mæta honum sem eru aðhlátursefnið.
Frábær spyrnutækni, ógnarhraði, leikni og sjálfstraust í hæstu hæðum. Þetta lýsir Bale. Hefði hann verið í íslenska liðinu í gær hefðum við landað sigri í þessum leik. Það er klárt mál. Hann sýndi að hann getur unnið leiki upp á sitt einsdæmi og séð til þess að þrjú stigi komi í hús í jöfnum leikjum.
Blaðamaður Daily Mirror var augljóslega í skýjunum þegar hann skrifaði grein sína um leikinn. Og ofpeppið náði hæstu hæðum þegar hann sagði að með svona frammistöðu gæti Bale ekki bara skotið Wales í lokakeppni EM heldur einnig til sigurs í Frakklandi 2016. Hugsunin um að taka einn leik fyrir í einu fokin út um gluggann. Gleymum því ekki að Ronaldo hefur aldrei orðið Evrópumeistari og hann og Messi aldrei unnið HM.
Bale er með allt liðið á herðum sér og Wales kemst nálægt því að geta kallast eins manns lið. Hann er það góður að Wales-verjar virðast þakklátir fyrir að hann sé til í að spila fyrir landsliðinu eins og hann sé að gera þjóðinni einhvern greiða með því.
Ég spurði Heimi Hallgrímsson landsliðsþjálfara hvort hægt væri að stöðva Bale þegar hann er í þessum ham. Heimir viðurkenndi að ef um keppnisleik hefði væri að ræða hefði verið lögð mun meiri áhersla á að loka á hann. En þetta var æfingaleikur fyrir undankeppni EM og þar mætum við ekki Bale. Maðurinn var svo yfirburðarbestur á vellinum í gær. Ef hann er tekinn til hliðar var Wales ekkert að spila betur.
Það er erfitt að leggja einhvern dóm á íslenska liðið í þessum leik. Einn maður breytti öllu. Liðið er nánast það sama og í síðustu undankeppni og nær vonandi að byggja ofan á frammistöðuna þar. Liðsheildin er sterk og menn þekkja hvorn annan. Stærsta áhyggjuefnið er augljóst. Margir okkar manna hafa verið geymdir á tréverkinu hjá sínum liðum og viðurkenndu að hafa fundið fyrir því í leiknum. Hlutirnir eru fljótir að breytast og við verðum að vona að menn verði komnir í besta stand þegar að keppnisleikjunum kemur.
Athugasemdir