Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   fös 07. febrúar 2014 09:00
Brynjar Ingi Erluson
„Vil að fólk þekki mig sem Gonzalo Balbi en ekki mág Suarez"
Gonzalo Balbi
Gonzalo Balbi
Mynd: Heimasíða KR
Mynd: Nike
Mynd: Nike
Mynd: Nike
Mynd: Nike
Gonzalo Balbi er nafn sem margir koma til að fylgjast með í sumar í liði KR-inga en þessi úrúgvæski bakvörður kom til liðsins frá KV í fyrstu deildinni á dögunum. Fótbolti.net fékk að kynnast Gonzalo aðeins betur og spurði hann spjörunum úr.

Balbi, sem er 21 árs gamall er fæddur í Montevideo í Úrúgvæ en hann kom til Íslands á síðasta ári og æfði með KR-ingum. Félagaskipti hans til KR náðu aldrei í gegn sökum þess að Íslandsmeistaraliðið þurfti að greiða gríðarlega háar uppeldisbætur fyrir hann og spilaði hann því ekki mótsleiki.

Gonzalo lék þá áður í neðri deildunum á Spáni og kröfðust félögin að KR borgaði uppsettar uppeldisbætur. Hann fékk því aldrei leikheimild en ákvað engu að síður að vera áfram á Íslandi.

Hann á íslenska kærustu og ákvað því að flytja til landsins en þau kynntust í Barcelona þar sem hann bjó.

,,Ég ákvað að koma hingað útaf kærustunni þar sem hún er frá Íslandi og þetta tækifæri kom upp svo ég ákvað að stökkva á þetta," sagði Gonzalo við Fótbolta.net í dag.

,,Hún bjó á sama tíma og ég í Barcelona er ég bjó þar og þannig kynntumst við. Hún var búin að búa þarna í 13 ár."

Gonzalo lærði alþjóðaviðskipti á Spáni áður en hann skráði sig í keppni sem Nike stóð fyrir en um 150 þúsund keppendur tóku þátt og tókst honum að komast í sextán manna lokahóp. Hann gerði sér svo lítið fyrir og vann keppnina ásamt tveimur öðrum.

,,Nike hélt keppni með 150 þúsund leikmönnum frá 55 löndum til þess að komast í Nike akademíuna á Englandi. Af þessum 150 þúsund leikmönnum völdu þeir sextán leikmenn sem fóru í einn mánuð til Portland, Los Angeles, Torino, Manchester og Lougbourough."

,,Við spiluðum gegn U19 ára landsliði Bandaríkjanna auk þess sem við mættum unglingaliðum Chivas, Juventus og svo varaliði Manchester United. Eftir þennan mánuð sem við vorum þar þá var ég einn af þremur sigurvegurum keppninnar og komst í þessa Nike akademíu."

,,Ég var þar í þrjá mánuði á æfingu á hverjum degi og gerði mitt besta. Ég verð að segja að þessi reynsla gaf mér mikið og hjálpaði mér að í að verða betri leikmaður. Ég ákvað svo eftir þetta að koma til Íslands og fara á reynslu hjá KR,"
sagði hann ennfremur.

Ljóst var að Gonzalo gat ekki spilað með KR og fór því í KV í fyrstu deildinni en honum tókst að skora þar tvö mörk í 3-2 sigri á Víkingum í Reykjavíkurmótinu. Hann þurfti ekki að skrifa undir samning hjá KV og komst því félagið hjá því að greiða þessar háu uppeldisbætur.

Spænsku félögin slökuðu á klónni sem gerði honum fært að ganga í raðir KR en það gerði hann á dögunum. Hann skrifaði í kjölfarið undir samning við Íslandsmeistarana en hann er ánægður með að vera kominn til félagsins.

,,Já, ég er mjög ánægður með að vera partur af þessu KR-liði. Þetta er mjög svo gott lið og allir hafa reynst mér afar hjálpsamir frá því ég kom."

Sofi Balbi er systir Gonzalo en eins og flestum er kunnugt þá er hún eiginkona Luis Suarez, framherja Liverpool á Englandi. Hann hefur verið honum innan handar og hjálpað honum mikið.

,,Luis hefur alltaf stutt mig í því sem ég geri líkt og fjölskylda mín hefur gert. Hann hefur alltaf sagt mér að berjast fyrir þeim hlutum sem ég vil í lífinu og sagt mér að halda mér á jörðinni."

,,Ég horfi á hann sem fjölskyldumeðlim því ég hef þekkt hann í þrettán ár,"
sagði hann ennfremur.

Gonzalo vill þó skapa sér nafn á Íslandi og vill ekki bara vera þekktur sem mágur Luis Suarez.

,,Mér finnst þetta kannski ekki pirrandi en ég vil heldur skapa mér mitt eigið nafn og ég vil að fólk þekki mig sem Gonzalo Balbi ekki sem mágur Suarez," sagði hann að lokum.

Hann fær ekki leikheimild hjá KR fyrr en 21. febrúar sem þýðir að hann missir af úrslitaleiknum í Reykjavíkurmótinu sem og fyrsta leik í Lengjubikarnum en verður klár fyrir leikinn gegn Keflvíkingum sem fer fram sunnudaginn 22. febrúar.
Athugasemdir
banner
banner
banner