mið 07. október 2020 22:50
Brynjar Ingi Erluson
Martinez: Ég er ekki leiður yfir þessari ákvörðun
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið Arsenal seldi Emiliano Martinez til Aston Villa í síðasta mánuði en hann opnar sig um markvarðarstöðuna í viðtali við Independent.

Martinez gekk til liðs við Arsenal árið 2010 en eyddi meirihlutanum á láni hjá neðrideildar félögum.

Hann fékk tækifærið í aðalliði Arsenal á síðustu leiktíð og tók stöðuna af Bernd Leno. Martinez var vongóður um að halda stöðunni en var seldur í síðasta mánuði og reyndust það mikil vonbrigði fyrir markvörðinn.

„Ég var loksins orðinn aðalmarkvörður liðsins og var klár í slaginn. Það tók mig tíu ár að komast á þennan stað og maður æfir þessa stöðu á hverjum degi en enginn undirbýr mann fyrir lífið sjálft," sagði Martinez.

„Það er enginn að þjálfa mann í að pirrast eða gráta. Hvað með þegar maður spilar ekki í fjóra mánuði? Heldur maður áfram eða er maður andlega búinn á því eftir það? Ég hefði getað gert miklu meira á þessum árum en heimurinn sá loks hvað ég er fær um að gera."

„Ég hugsaði að ef ég myndi spila vel í leiknum um samfélagsskjöldinn þá myndi ég hirða stöðuna en eftir það var samt ekki komið á hreint hvor okkar myndi byrja. Það var sagt við mig að það væru 95 prósent líkur á því að ég myndi byrja gegn Fulham en svo hugsaði ég af hverju ég fékk ekki 100 prósent loforð. Það var eitthvað bogið við þetta."

„Það vildu allir halda mér en ég ákvað á þessu augnabliki að fara og ég var ekki leiður yfir þeirri ákvörðun. Ég var stoltur af mér því það voru níu markverðir á undan mér í röðinni þegar ég gekk til liðs við félagið. Ég þurfti að sanna mig á hverju ári en ég yfirgaf félagið sem aðalmarkvörður Arsenal og þar með lauk þessum kafla,"
sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner