Inter Miami er búið að krækja í argentínska fótboltasnillinginn Lionel Messi og er núna orðað við nokkra fyrrum liðsfélaga hans úr Barcelona og argentínska landsliðinu.
Það virðast vera góðar líkur á því að Sergio Busquets, sem verður 35 ára í sumar, sé á leið til Miami þegar hann rennur út á samningi við Barcelona í sumar, þar sem hann var samherji Messi í 13 ár.
Þá hefur Úrúgvæinn Luis Suarez, 36 ára, einnig verið orðaður við Miami, en hann leikur með Gremio í Brasilíu. Suarez var samherji Messi hjá Barcelona í sex ár.
Að lokum er Angel Di Maria, landsliðsfélagi Messi og fyrrum liðsfélagi hans hjá PSG, orðaður við brottflutning til Miami. Hann er samningslaus eftir fínt ár með Juventus og hefur ýmsa kosti á borðinu.
Leikmaðurinn sjálfur er talinn vilja skipta til Benfica i portúgalska boltanum, en ef þau skipti ganga ekki í gegn getur hann flutt til Bandaríkjanna.