Breiðablik þurfti að sætta sig við tap Istanbul Basaksehir í forkeppni Sambandsdeildarinnar í síðustu viku, 1-3.
Blikar spiluðu heilt yfir mjög vel í leiknum miðað við hversu sterkur andstæðingurinn er. Þeir pressuðu betur en Basaksehir, sendu boltann betur og sköpuðu svipað hættuleg færi. Í leiknum var xG-ið svipað, Breiðablik var með 1,17 og Basaksehir var með 1,19.
Liðin fengu svipað góð færi heilt yfir í leiknum, en Basaksehir er lið sem refsar grimmilega og það gerðu þeir í þessum leik.
Lélegt að tapa 1-3?
Umræðan eftir leikinn hefur einhvers staðar verið sú að það hafi verið lélegt hjá Blikum að tapa, 1-3, gegn þessu liði. Var því kastað fram í hlaðvarpsþættinum Þungavigtinni.
„Ég segi bara lélegt að tapa 1-3, sorry," sagði Mikael Nikulásson, fyrrum þjálfari Njarðvíkur og sérfræðingur þáttarins þegar hann var að ræða um leikinn.
En er það virkilega þannig?
Ef litið er á styrkleikalista UEFA þá er erfitt að færa rök fyrir því. Istanbul Basaksehir er í 65. sæti á styrkleikalistanum vegna árangurs í Evrópukeppnum síðastliðin fimm ár. Liðið er þar með 25,000 stig. Basaksehir hefur meðal annars komist í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á síðustu árum og tókst þar að leggja Manchester United að velli fyrir tæpum tveimur árum.
Basaksehir, sem endaði í fjórða sæti tyrknesku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili, er í kringum lið eins og Mónakó, Real Sociedad og Lille á þessum lista. Það sýnir hversu sterkt liðið er.
Breiðablik er í 285. sæti á þessum lista, en FH er efst íslenskra félagsliða í 229. sæti með 5,500 stig.
Það vekur athygli að Lech Poznan, andstæðingur Víkinga, er í 208. sæti listans með 6,000 stig. Lech hefur ekki riðið feitum hesti þegar þeir hafa komist í Evrópukeppni síðustu árin.
KÍ Klaksvík frá Færeyjum er fyrir ofan þá sem og andstæðingar Blika og Víkinga í síðustu umferð Sambandsdeildarinnar, The New Saints frá Wales og Buducnost Podgorica frá Svartfjallalandi.
Það er alls ekki hægt að tala um þetta sem lélegt hjá Blikum þó niðurstaðan hafi verið svekkjandi miðað við góða frammistöðu; það er í raun galið að kasta fram þeirri staðhæfingu.
Víkingar unnu 1-0 sigur á Lech Poznan í fyrri leik sínum og eru í þrusugóðum möguleika. Það verður ekki tekið af Víkingum að það er stórkostlega gert; Lech og pólska deildin eru hærra skrifuð en Víkingar og Besta deildin hér heima. Basaksehir og tyrkneska deildin eru samt í allt öðrum klassa.
Sjá einnig:
Blikar séu ekki að mæta lötum lúxusleikmönnum
Athugasemdir